Samstaða og fórnfýsi skila árangri

Hinn sögulegi sigur Vöku í kosningum til Stúdentaráðs og Háskólafundur í síðustu viku verður lengi í minnum hafður. Ótölulegur fjöldi fólks lagði líf sitt og sál í kosningabaráttuna til þess að tryggja þennan einstæða árangur. Á þriðja hundrað manns tóku þátt í baráttunni og hátt í 1900 ákváðu að ljá Vöku atkvæði sitt. Það eru því margir sem fagna innilega og bera miklar væntingar til þess sem koma skal á næsta vetri.

Það er víst óhætt að fullyrða að þær fregnir að Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hafi fengið 571 atkvæði fleira en Röskva, samtök félagshyggjfuólks í Háskóla Íslands, hafi komið mörgum á óvart. Á undanförnum árum hefur Vaka verið í mikilli sókn í Háskólanum og í fyrra vannst langþráður sigur og meirihluti í Stúdentaráði.

Ljóst er að stúdentum hefur líkað vel við þá fersku vinda sem fylgt hafa Vöku í Stúdentaráði í vetur og endurspegla úrslitin þá ánægju auk þess krafts sem ríkt hefur í innra starfi félagsins í vetur.

Vaka er félag sem byggir á sterkum grunni lýðræðis og frjálslyndis. Þar hafa þúsundir öðlast dýrmæta reynslu í gegnum árin, hvort sem viðkomandi hafa setið í Stúdentaráði, stjórn félagsins eða látið til sín taka við að tryggja stefnu félagsins framvindu. Vaka, sem félag, hefur ætíð verið ákaflega öflug heild og á hverju ári koma hundruð að starfi félagsins. Í kosningabaráttu, eins og þeirri sem er nýliðin, starfar vel á þriðja hundrað manna í þágu félagsins, hver leggur sitt lóð á vogarskálarnar og með samstöðu og fórnfýsi hefur félaginu tekist að komast til áhrifa og koma sjónarmiðum sínum í öndvegi í forystu fyrir hönd stúdenta við Háskóla Íslands.

Mikilvægi samstöðunnar og fórnfýsinnar er sjaldan meira áberandi heldur en í stjórnmálastarfi, eins og þessu, þar sem mikill fjöldi leggst á eitt til að tryggja aðeins örfáum aðilum umboð til þess að leiða hagsmunabaráttu stúdenta. Allur þessi fjöldi hugsar hvorki um embætti eða vegtyllur heldur hefur það eitt að markmiði að tryggja góðum málum framgang og styðja gott fólk til góðra verka. Sú fórnfýsi má aldrei gleymast í félagsstarfi og það er mikilvægt að allir fái þær þakkir sem þeir eiga skildar því allir sem hafa beðið í eftirvæntingu eftir niðurstöðum kosninga vita að það er ekki endilega þeir, sem leiða framboðin, sem fagna sigri innilegast eða harma ósigur sárlegast, heldur er það fjöldinn sem leggur ómælda vinnu á sig – og sækist hvorki eftir embættum né vegtyllum heldur einungis því að málstaðurinn og fólkið sem það trúir á komist í aðstöðu til að hafa jákvæð áhrif.

Nú þegar Vaka hefur unnið sögulegan sigur í Stúdentaráði er víst að margir geta verið stoltir með sitt framlag, hvort sem það var stórt í sniðum eða lítið og látlaust. Sá stóri skari sem lagði á sig vinnu fyrir málstað félagsins og þeir tæplega 1900 stúdentar sem ljáðu Vöku atkvæði sitt hafa lagt þunga ábyrgð á hendur þeim sem taka munu við stjórnartaumunum í Stúdentaráði innan tveggja vikna. Það sýndi sig síðasta vetur að Vaka er traustsins verð og ég efast ekki um að sá öflugi hópur Vökufólks sem nú tekur sæti í Stúdentaráði – og sá mikli fjöldi sem mun standa með honum í gegnum súrt og sætt – mun uppfylla þær væntingar sem til þeirra eru gerðar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.