Árangur Vöku áþreifanlegur og óumdeilanlegur

Stúdentar við Háskóla Íslands ganga til kosninga í dag og á morgun. Kosið er til Stúdentaráðs og háskólafundar. Síðastliðið ár vann Vaka sögulegan sigur og lauk með því 11 ára valdatíð Röskvu. Eftir ár í meirihluta liggur glæsilegur árangur fyrir. Árangur sem er í senn áþreifanlegur og óumdeilanlegur. Með Vöku í forystu hefur nýr tónn verið sleginn í hagsmunabaráttu stúdenta.

Stúdentar við Háskóla Íslands ganga til kosninga í dag og á morgun. Kosið er til Stúdentaráðs og háskólafundar. Síðastliðið ár vann Vaka sögulegan sigur og lauk með því 11 ára valdatíð Röskvu. Eftir ár í meirihluta liggur glæsilegur árangur fyrir. Árangur sem er í senn áþreifanlegur og óumdeilanlegur. Með Vöku í forystu hefur nýr tónn verið sleginn í hagsmunabaráttu stúdenta.

Vaka hefur frá upphafi lagt megináherslu á kennslumál, enda eru stúdentar í háskólanámi til að afla sér menntunar. Kennslumálin er stærsta hagsmunamál stúdenta og um leið það hagsmunamál sem allir stúdentar eiga sameiginlegt. Vaka hefur í vetur komið því til leiðar að allar kennslukannanir eru nú aðgengilegar á netinu. Stúdentaráðsliðar Vöku unnu þrekvirki þegar þeir skönnuðu inn 3000 próf og gerðu nemendum gömul próf aðgengileg á próf.is.Vaka bauð stúdentum upp á sólarhringsopnun bygginga og stúdentaráðsliðar fylkingarinnar stóðu sjálfir vaktir til að gera þennan möguleika að veruleika. Fyrir vikið brást Háskólinn við og nú standa byggingar skólans stúdentum opnar lengur í próf en áður þekkist.

Árangurinn í lánasjóðsmálum er sá að mesta hækkun grunnframfærslunnar í áratug er staðreynd. Um það verður ekki deilt. Að auki var tekjutenging við maka afnumin. Stúdentaráð undir forystu Vöku náði með því fram miklu réttlætismáli en með tekjutengingunni voru stúdentar gerðir háðir maka sínum um fjárhagslega afkomu.

Réttindaskrá stúdenta var gefin út en með því er ætlunin að stúdentar þekki stöðu sína og réttindi betur. Nýtt vopn var enn fremur til í réttindabaráttu stúdenta þegar ákveðið var að gefa Stúdentablaðið út í 70.000 eintökum í stað 7000 eintaka áður. Nú er blaðinu dreift með Morgunblaðinu, auk þess að vera dreift í öllum byggingum skólans stúdentum að kostnaðarlausu, og með því er Stúdentaráð sem og hagsmunabarátta stúdenta mun sýnilegri en áður.

Húsnæðismál hafa verið ofarlega á baugi í vetur enda ástand á almennum leigumarkaði stúdentum verulega óhagstætt. Í ár voru 100 íbúðirteknar í notkun á háskólasvæðinu, nýr stúdentagarður var tekinn í notkun í Garðabæ og nú síðast í vikunni bárust fréttir af því að gengið hefði verið frá samkomulagi Félagsstofnunnar stúdenta og Reykjavíkurborgar um um uppbyggingu 180-210 stúdentaíbúða í miðbænum.

Vaka leggur áherslu á að skóli sé meira en bara bækur og nám og því hefur Stúdentaráð í vetur staðið fyrir öflugu félagslífi. Menningar- og listadagar voru haldnir. Vísindaferðir atvinnulífsins í Háskólanum hófust og þá voru sérstakir atvinnulífsdagar haldnir. Félag erlendra nema var endurvakið sem gerði erlendum nemum betur kleift að taka virkan þátt í félagslífi íslenskra stúdenta.

Kosningarnar sem fram fara í Háskóla Íslands í dag og á morgun skipta máli. Stúdentum gefst með þeim tækifæri til að veita Vöku umboð til áframhaldandi árangurs í þágu stúdenta.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)