Þjóðþrifaþingsályktun

Fjórmenningarnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jónína Bjartmarz, Guðrún Ögmundsdóttir og Ögmundur Jónasson lögðu fram nýverið fram þingsályktunartillögu um reyslulausn. Þrátt fyrir að aðeins sé um þingályktunartillögu að ræða þá er þarna komið inn á Alþingi eitt mesta þjóðþrifamál sem hefur sést á pöllum þess í lengri tíma.

Endrum og eins koma snilldarmál fram á Alþingi. Tilllaga til þingsályktunar um reynslulausn, þskj. 857 – 517 mál, er af þeim meiði. Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að kanna og gera úttekt á veitingu reynslulausnar. Á nefndin að kanna sérstaklega hvort ástæða er til að breyta framkvæmd reynslulausnar á þann veg að það verði hlutverk dómara að ákveða hvort fangi skuli látinn laus til reynslu í stað Fangelsismálastofnunar ríkisins. Þarna eru flutningmenn tillögunnar farnir að þreifa á einu stærsta þjóðþrifamáli á Íslandi í dag.

Í dag sér Fangelsismálastofnun ríkisins um veitingu reynslulausnar en skv. heimild í 40. gr. alm. hgl. getur stofnunin ákveðið að fangi skuli látinn laus til reynslu þegar hann hefur afplánað 2/3 hluta refsitímans eða helming hans ef sérstaklega stendur á. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að reynslan hafi verið að nær allir fangar fá reynslulausn. Jafnframt kemur fram að þetta fyrirkomulag feli í sér að stjórnsýsluaðila sé falið að endurskoða ákvörðun dóms og breyta dómsorði sem upp hefur verið kveðið hjá innlendum dómstóli. Þetta framsal á valdi frá dómsvaldi til framkvæmdarvalds sé í andstöðu við þrískiptingu ríkisvalds og færa megi sterk rök fyrir því að það sé óeðlilegt að framkvæmdarvaldið geti breytt uppkveðnum dómi.

Í pistli sem undirritaður skrifaði þann 19. maí 2001 sem bar heitið „Glæpur, refsing, reyslulausn“ var fjallað um þetta óeðlilega ástand í réttarkerfinu. Þar sagði um aðkomu dómstóla að veitingu reyslulausnar:

Það verður að teljast eðlilegt þar sem dómstólar hafa áður komið að málinu, hlýtt á munnlegan framburð vitna og metið sekt eða sýknu. Dómstólar meta einnig við málsmeðferðina hvað kemur til álita við mat á refsihækkun og lækkun. Ef dómstólar kæmu að ákvörðun um reynslulausn þá hefði ákæruvaldið um leið aðkomu að málinu. Í réttarhöldum leggur ákæruvaldið málið upp gegn viðkomandi sakborningi og heldur á lofti rökum með og móti sekt sakbornings. Fangelsismálastofnun er ekki viðstödd flutning málsins fyrir dómstólunum og heyrir ekki munnlegan framburð sakbornings og vitna. Það er grundvallarregla í íslensku réttarfari að áður en dómstólar komast að niðurstöðu þá verða þeir að hlusta milliliðalaust á framburð vitna og sakborninga. Það er því mjög óeðlilegt að framkvæmdarvaldið hafi vald til að veita mönnum reynslulausn frá allt að helming fangelsisrefsingar án þess að hafa einu sinni verið við málsmeðferðina.

Það er mikið þjóðþrifamál að lagfæra þetta ástand. Dómstólar geta lagt sjálfstætt mat á sérhvern umsækjanda um reyslulausn í stað þess að reynslulausn sé nánast veitt sjálfkrafa. Í ofangreindum pistli undirritaðs sagði þetta um núgildandi meginreglu um sjálfkrafa veitingu reynslulausnar:

Þetta hlýtur að skekkja töluvert þá mynd sem við höfum af refsingum á Íslandi þar sem dómar gefa ekki til kynna hvaða refsingu sakborningur mun í raun og veru að taka út. Það væri eðlilegra ef misræmið á milli dæmdar afplánunar og raunverulegrar afplánunar væri miklu minna og meginreglan yrði sú að menn myndu afplána mest allan refsinguna. Reynslulausn á rétt á sér en hún á ekki að vera meginregla og það á ekki heimila hana nærri því jafn snemma á afplánunartímanum og raun ber vitni.

Með tilliti til núverandi stöðu í reynslulausnarmálum þá hefur það komið manni furðulega fyrir sjónir þegar stjórnmálamenn hafa hunsað þennan vanda og einblínt á að hækka refsirammann fyrir ákveðna brotaflokka í staðinn, sérstaklega þar sem lagfæring á reyslulausnarkerfinu myndi skila sér í mun lengri afplánun heldur en hækkun refsirammans.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og meðflutningsmenn hennar, þau Jónína Bjartmarz, Guðrún Ögmundsdóttir og Ögmundur Jónsson, eiga heiður skilið fyrir tillöguna. Það er einnig sérstaklega ánægjuleg að sjá meðreiðasveina Þorgerðar en sumir þeirra hafa til þessa ekki getið sér orð fyrir mikla umhyggju fyrir réttaröryggi borgaranna. Hins vegar hefði það eflaust verið vænlegra til árangurs fyrir fjórmenningana að koma með lagabreytingu því ekki er hægt að treysta því að jákvæð niðurstaða komi frá nefndinni sem skipuð verður af dómsmálaráðherra. En skv. heimildum innan ráðuneytisins sem Deiglan hefur ástæðu til að treysta er lítill vilji innan þess til að breyta núverandi ástandi og er í því sambandi aðallega litið til mikils kostnaðar við að færa þetta til dómstólanna.

Endrum og eins koma fram þingmál sem eru klárlega til mikilla hagsbóta fyrir almenning í landinu. Þingsályktunartilllaga fjórmenningana er þess eðlis og getur stuðlað að því að lagfæra þetta óeðlilega ástand innan réttarkerfisins og aukið réttaröryggi. Vonandi mun því nefndin og dómsmálaráðuneytið sjá ljósið í þessu máli. Réttaröryggi verður seint of dýru verði keypt.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.