Tíðrædd er nú sú ákvörðun Ellerts B. Schram að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í þinkosningunum í vor. Ellert er flokksbundinn Sjálfstæðismaður, enn þá að minnsta kosti, og sat á sínum tíma á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Útspil Ellerts hlýtur því að teljast fjöður í hatt Samfylkingarinnar, þ.e.a.s ef hún klúðrar því ekki að nýta sér tækifærið eins og henni einni er tamt.
Sitt sýnist hverjum um þessa ákvörðun Ellerts og fer sú afstaða að miklu leyti eftir því hvar menn standa í pólitík. Samfylkingarmenn telja þetta til marks um “hinn mikla hljómgrunn” sem fylkingin fær nú meðal þjóðarinnar á meðan margir Sjálfstæðismenn vilja meina að þetta sé “klúður hjá karlinum”, hann hafi orðið undir í valdabaráttu og sé að reyna að hefna sín á flokknum á klaufalegan hátt sem einnig beri vott um ákveðna sjálfhverfu.
Persónulega finnst pistlahöfundi ákvörðun Ellerts nokkuð aðdáunarverð og jafnvel til eftirbreytni! Þá er gengið út frá því að Ellert sé að fylgja eftir eigin sannfæringu og þá fyrst og fremst í kvótamálinu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðra stefnu. Það er undirstaða lýðræðis að menn kjósi samkvæmt sínum skoðunum.
Pistlahöfundur hefur ekki trú á því að Ellert B. Schram sé hentistefnimaður á borð við Kristinn H. Gunnarsson sem blaktir eins og tuska í vindi. Að Ellert skuli vera fylginn sínum skoðunum og skipta jafnvel um stjórnmálaflokk í þeirri viðleitni sinni er ekkert nema hollt og gott fyrir íslenska flokkapólitík. Enginn á að vera það einstrengingslegur í hugsun að geta ekki skipt um skoðun eða jafnvel stjórnmálaflokk. Það er ekki flokkurinn sem er heilagur heldur skynsemin.
En það verður samt að segjast, eftir að hafa fylgst með málflutningi Ellerts í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag, að það vekur undrun hjá pistlahöfundi að Ellert hafi nokkurn tíma talið sig Sjálfstæðismann. Af viðtalinu að dæma mætti halda að Ellert hefði kannski frekar átt að bjóða fram fyrir Vinstri græna. Án þess að slá neinu föstu fram virtist Ellert bera blendnar tilfinningar til markaðsins og pistlahöfundi skildist sem svo að hann vildi auka völd ríkisins frekar en hitt. Ellert hefur kannski misskilið Sjálfstæðisstefnuna sem hann sat á þingi fyrir?
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009