Fremsta íþróttakona heims staðfestir yfirburði sína

Íþróttadeild Deiglunnar hefur síðustu misserin fylgst hugfangin með uppgangi hinnar geðþekku og glaðbeittu Serenu Williams. Hún er að mati íþróttadeildar fremsta íþróttakona heims í dag.

Serena Williams er ókrýnd drottning tennisíþróttarinnar eftir sigur hennar á Opna ástralska meistaramótinu um helgina. Serena sigraði Venus systur sína í úrslitaleik mótsins í nótt sem leið og er hún nú handhafi allra fjögurra stóru titlanna í tennisíþróttinni – alslemman fræga er í höfn.

Uppgangur Serenu, og þeirra systra beggja, hefur verið með miklum ólíkindum síðustu misseri. Þær eru nú allsráðandi á sterkustu mótunum og mætast iðulega í úrslitum – það stenst þeim einfaldlega engin snúninginn. Tvíliðaleikurinn er auðvitað “no-contest” og þær innbyrtu þann titil nokkuð örugglega í Ástralíu fyrir helgi.

Það segir sína sögu um yfirburði Serenu, að á meðan þær systurnar bera höfuð og herðar yfir allar stöllur sínar, þá virðist Venus ekki eiga neitt í litlu systur. Serena er einfaldlega langbesta tenniskona heims um þessar mundir.

Raunar mætti velta því fyrir sér hvaða íþróttakona stendur Serenu framar í heiminum í dag. Serena Willilams er glæsileg á velli, geislar af þrótti og lífsgleði. Frjósemdarlegur vöxtur Serenu hefur líka vakið á henni athygli langt út fyrir raðir tennisáhugamanna og hefur hún meira segja setið fyrir, líkt og kollegi hennar, Anna Kournikova. Sú síðarnefnda er hins vegar smástirni í tennisíþróttinni, eins og klámstjarna á kvikmyndahátíðinni í Mónakó má hún horfa á Serenu heiðraða fyrir bestan leik í aðalhlutverki kvenna.

Serena er enn ung að árum, rétt liðlega tvítug. Hún er ekki fyrsta tenniskonan sem vinnur alslemmuna en hún er vissulega í yngri kanti þeirra. Ef ekki koma til alvarleg meiðsl eða aðrar sambærilegar hörmunar, er ekkert því til fyrirstöðu að Serena verði á toppnum um ókomin ár.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)