Yao Ming

Þessi pistill er um tvo menn. Annar þeirra er merkilegur aðallega fyrir tvennar sakir. Hinn er svo merkilegur að honum hefur verið líkt við eitt af sjö undrum veraldar. Sá fyrri er:

* Einn af fáum á Íslandi sem enn fylgist með NBA boltanum

* Í ofanálag, sennilega eini maðurinn sem kýs að halda með Orlando Magic.

Þessi maður er að sjálfsögðu ég. Hinn maðurinn tengist þessum áhugamálum mínum og heitir Yao Ming.

Yao Ming er var valinn fyrstur í háskólavalinu í vor af Houston Rockets, fyrstur erlendra leikmanna. Hann var fyrst þekktur fyrir að vera hluti af þríeyki sjö-fetara í kínverska landsliðinu ásamt Wang Zhizhi and Mengke Bateer en þeir gengu undir nafninu ,,gangandi Kínamúrinn” í heimsmeistarakeppninni í sumar.

Hvers vegna stendur körfuknattleiksheimurinn á öndinni yfir honum? Hann er 229cm á hæð en hreyfir sig eins og bakvörður, er með ágætis þriggja stiga nýtingu, getur rakið boltann án þess að gera sig að fífli og þá eru óupptaldir gríðarlegir hæfileikar hans í vörn. Þessir óvenjulegu hæfileikar hans skapa mikil vandræði fyrir varnir andstæðinga Rockets. Menn eins og Kevin Garnett og Dirk Nowitski ráða yfir svipuðum hæfileikum, ættu hæðar sinnar að spila í stöðu miðherja, en spila frekar kraftframherjar og eiga því hin liðin erfitt með að verjast þeim almennilega.

Í byrjun tímabilsins átti kínverski risinn erfitt uppdráttar. Hann skoraði fá stig og virtist eins og illa gerður hlutur á vellinum. Margir gerðu grín að honum og sagðist sjálfur Charles Barkley ætla að kyssa rassinn á Kenny Smith, aðstoðarmanni sínum á sjónvarpsstöðinni TNT, ef Yao myndi skora fleiri en 18 stig í einum leik. Yao gerði gott betur en það, skoraði yfir 30 stig í næsta leik og hitti úr öllum skotum sínum. Barkley varð að éta orð sín og gera sig að fífli í beinni útsendingu. Eftir þennan leik hefur Yao vaxið með hverjum leik.

NBA-deildin hefur ekki verið mjög spennandi síðustu ár. Shaquille O’Neal hjá Los Angeles Lakers hefur ríkt yfir deildinni með ægivaldi og hefur ástand táar hans skipt meira máli heldur en andstæðingar hans. Mikil eftirvænting var því fyrir leik Rockets og Lakers. Hann olli ekki vonbrigðum. Yao varði fyrstu þrjú skot Shaq og Rockets vann leikinn í framlengingu. Enn meiri niðurlæging fyrir Shaq var þó þegar Yao var valinn fram yfir hann í byrjunarlið vesturstrandarliðsins í næsta stjörnuleik sem er mjög sjaldgæfur heiður hjá nýliðum.

Nú er bara að bíða og sjá hvort upp renni ný gullöld NBA-deildarinnar og myndir af Yao Ming verði heitastar á skiptimörkuðum skólaporta. Ég myndi nefna það ,,Ming Dynasty” af minni alkunnu orðsnilld.

Latest posts by Ari Tómasson (see all)