Flækjufótaflokkurinn

Samfylkingin heldur stöðugt áfram að koma á óvart en menn eru farnir að furða sig yfir því sífellda klúðri sem hefur einkennt stutta sögu flokksins. Nýjasta útspil flokksins kemur frá kjörnefndinni í Reykjavík en það er sannkallað uppstillingaklúður!

Fáir geta neitað því að Samfylkingin hefur í gegnum tíðina verið einstaklega lagin við að klúðra sínum eigin málum án nokkurrar utanaðkomandi hjálpar, andstæðingum hennar til yndis og ánægju. Formaðurinn virðist vera stöðug uppspretta af alls kyns misskilningi sem hefur án vafa unnið mikið gegn flokknum. Stefnan virðist oft á tíðum vera ákveðin af skoðanakönnunum frekar en sannfæringu forystunnar. Jafnframt hafa forkólfarnir verið iðnir við að vera hrópandi ósammála um allt mögulegt.

Maður fékk það strax á tilfinninguna að Samfylkingarmenn sæju fram á betri tíð með blóm í haga við innkomu Ingibjargar Sólrúnar í landsmálin. Allt í einu fór Samfylkingin að mælast sem alvöru flokkur í skoðanakönnunum og Samfylkingarmenn gátu loksins farið að bera höfuðið hátt.

En Adam var ekki lengi í paradís. Eftir að formaður kjörnefndar Samfylkingarinnar hafði lýst því yfir að Ellert Schram tæki 6. sætið á öðrum listanum í Reykjavík kom ungur maður að nafni Eiríkur Bergmann Einarsson fram í flestum fjölmiðlum landsins í gær og lýsti því yfir að hann hefði átt að vera í umræddu sæti á lista Samfylkingarinnar. Eiríkur sagði að kjörnefnd Samfylkingarinnar hafi boðið honum að taka 6. sætið í desember og hann hafi þegið það. Síðan hafi hann ekki vitað fyrr en að fréttir fóru að berast af því að Ellert væri í sætinu. Í fréttunum var vitnað í formann kjörstjórnar sem sagði að Ellert yrði í 6. sætinu. Einnig var talað við annan kjörnefndarfulltrúa sem lýsti því yfir að slík ákvörðun hefði einfaldlega ekki verið tekin í kjörnefndinni! Til að bæta gráu ofan á svart hafa hinir ýmsu kjörnefndarfulltrúar verið að tala út og suður í fjölmiðlum um uppstillinguna og starfið innan nefndarinnar. Sem sagt, enn eitt klúðrið að hætti Samfylkingarinnar.

Vissulega má að einhverju leiti kenna ungum aldri og reynsluleysi Samfylkingarinnar um svona uppákomur. Á sama hátt og fyrsti landsfundurinn var klúðurslegur þá er kannski eðlilegt að fyrsta stóra uppstillingin sé sama marki brennd. En flokkurinn verður að læra hratt af reynslunni ef hann ætlar að halda einhverju af fylginu sem hann mælist með í skoðanakönnunum því reynslan hefur sýnt að kjósendur Samfylkingarinnar verða fljótt fráhverfir flokknum þegar starf hans einkennist af klúðri.

Samfylkingarfólk verður nefnilega að gera sér grein fyrir því að þótt Samfylkingin mælist sem alvöru flokkur í skoðanakönnunum þá verður hún ekki sjálfkrafa að alvöru flokki, slíkt krefst vinnu. Samfylkingarfólk verður líka að haga sér og starfinu í samræmi við stöðu flokksins en ekki eins og það sé statt í reglubundnum bræðravígum í Alþýðubandalaginu sáluga.

En Samfylkingin verður einnig að læra af eina stóra flokknum á Íslandi því hún hefur hvorki tíma né efni til að finna upp hjólið í hvert einasta skipti. Hins vegar er hatrið á Sjálfstæðisflokknum kannski það mikið að Samfylkingin sé ekki tilbúin að læra neitt af honum. Tóku meðlimir kjörnefndar Samfylkingarinnar ekki eftir því að kollegar þeirra hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík hafa ekki hlaupið í fjölmiðla í uppstillingarferlinu?

Ef menn reyna ekki að læra af eigin reynslu og reynslu annarra þá er voðinn vís. Kannski mun Samfylkingin læra af svona klúðri og þroskast áfram í það að vera alvöru flokkur, ekki bara í skoðanakönnunum. Eða kannski mun flokkurinn bara alltaf vera við sama heygarðshornið!

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.