Framsýnn Samherji

Á meðan ýmis öfl í íslensku viðskiptalífi virðast kosta mestu til um að tryggja völd og stöðu, þá sýna aðrir af sér meiri framsýni, áræði og dug. Kaup Samherja á hlut í norskum fiskeldisrisa eru til marks um þá framsýni sem gert hefur eyfirska útgerðarfyrirtækið að einu öflugusta fyrirtæki landsins.

Á mánudaginn var greint frá kaupum Samherja á 2,6% hlut í norska sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækinu Fjord Seafood ASA. Samhliða kaupunum skuldbundu bæði fyrirtæki sig til að eiga náið samstarf á ýmsum sviðum, t.a.m. fiskeldi, markaðsstarfi og þróun í framleiðslu á fiskifóðri.

Í pistli hér á Deiglunni þann 3. október sl. sem bar yfirskriftina Stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar lýsti ég mikilvægi fiskeldis fyrir framtíð og tilveru íslenskrar þjóðar. Sagði þar m.a.:

Þótt eldi nytjastofna sjávar sé skammt á veg komið í samanburði við t.d. laxeldi, þá verður að hafa í huga í það er enn í frumbernsku og eftir aðeins nokkra áratugi gæti framleiðslugeta fiskræktenda numið – ekki hundruðum þúsunda tonna af bolfiski á ári, eins og heildarkvóti á Íslandsmiðum er – heldur milljónum, jafnvel tugmilljónum.

Þá verður heldur lítils virði hafa sjóinn fullan af fiski í kringum landið, það kostar jú sitt að veiða hann og engin leið yrði að keppa við jafnt og stöðugt framboð fiskræktenda. Þeir gætu boðið kaupendum staðlaða stærð í ákveðnu magni, dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð – á miklu, miklu lægra verði.

Það er því ekki tómstundagaman hjá stærstu útgerðum landsins að hefja nú tilraunir með eldi nytjastofna sjávar. Þvert á móti kann að vera um lífsspursmál þeirra og íslensku þjóðarinnar að ræða. Sem betur fer hafa stjórnvöld tekið þessi mál föstum tökum og áhugi sjávarútvegsins eldi nytjastofnanna bendir til þess, að við Íslendingar ættum að hafa alla möguleika á því að verða í fremstu röð fiskræktenda – þegar og ef sá tími kemur, að fiskræktin leysir hefðbundnar veiðar af hólmi.

Ef við bregðumst í þeirri viðleitni okkar, gæti það haft næstum óhugsandi afleiðingar fyrir tilverugrundvöll íslensku þjóðarinnar.

Íslensk stjórnvöld hafa sinnt þessum málum af mikilli kostgæfni en drifkraftur málsins er auðvitað eins og vera ber í höndum einkaaðila. Þar fer Samherji fremstur í flokki og samstarfið við norska fiskeldisrisann færir okkur heim sanninn um það.

Barátta um völd og áhrif í íslensku viðskiptalífi hefur verið áberandi í þjóðmálaumræðunni síðustu vikurnar, einkum í kjölfar frábærs greinaflokks Agnesar Bragadóttur um málið. Það er þess vegna ánægjulegt að sjá að ákveðnir aðilar í viðskiptalífinu hafa ekki gleymt hinum raunverulega tilgangi þess; sjálfri auðsköpuninni.

Framsýni Samherja er sem betur fer ekkert einsdæmi hér á landi. Fjölmörg fyrirtæki eiga heima í þessum hópi. Það er fyrir tilstilli þess háttar framsýni, áræðis og nýsköpunar sem velferð íslenskrar þjóðar verður til langframa tryggð.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.