Í hvers nafni?

Í mótmælagöngum sem gengnar voru í Bandaríkjunum síðasta laugardag til að mótmæla hugsanlegu stríði við Írak héldu sumir göngumanna uppi spjöldum sem á stóð ”Ekki í mínu nafni”, en í hvers nafni gengu mótmælendurnir?

Í mótmælagöngum sem gengnar voru í Bandaríkjunum síðasta laugardag til að mótmæla hugsanlegu stríði við Írak héldu sumir göngumanna uppi spjöldum sem á stóð ”Not in my name”, eða „ekki í mínu nafni” eins og það útleggst á íslensku. Með þessu vildu viðkomandi koma þeim skilaboðum á framfæri að þau væru ósammála stefnu Bandaríkjastjórnar í málinu og vildu ekki leggja nafn sitt við stríðsreksturinn.

Það er allt gott og blessað, fólk hefur rétt á að hafa sínar skoðanir og til að tjá þær opinberlega. En ætli þetta sama fólk hafi vitað í hvers nafni það gekk á laugardaginn? Hvaða samtök það voru sem skipulögðu göngurnar og munu nota þann fjölda fólks sem í göngurnar mætti sem pólitískan höfuðstól til að vinna stefnumálum sínum brautargengi í framtíðinni?

Friðarsamtökin A.N.S.W.E.R. (Act Now to Stop War and End Racism!) skipulögðu og stóðu fyrir mótmælagöngunum í Bandaríkjunum og í 32 öðrum ríkjum um allan heim. Það sem fæstir göngumanna hafa hins vegar vitað er að ANSWER eru leppsamtök fyrir Workers World Party, kommúnískum samtökum sem klufu sig frá hinum stærri Socialist Workers Party árið 1956 í kjölfar innrásar Sovétmanna í Ungverjaland. Meðan SWP mótmælti innrásinni studdu stofnendur WWP aðgerðir Sovétmanna og hafa æ síðan lagt blessun sína yfir hvaða einræðisherra og kúgunarstjórn sem vinna gegn Bandaríkjunum og öðrum vesturveldum.

Þegar rennt er yfir málgagn WWP, Workers World, má finna greinar þar sem fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar árið 1989 eru varin og því haldið fram að stúdentarnir, sem myrtir voru í hundraðatali, hafi sjálfir borið ábyrgð á því hvernig fór. Þar má einnig finna greinar þar sem stjórn Kims Jong-Il í N-Kóreu er lofuð fyrir að viðhalda sósíalísku stjórnkerfi landsins og hvergi er minnst á þær milljónir manna sem soltið hafa í hel í kjölfar kommúnistabyltingar Kims Il-Sung. Þá hefur WWP fordæmt stríðsglæpadómstólinn í Haag fyrir að rétta yfir Slobodan Milosevic og því verið haldið fram að réttarhöldin séu aðeins framhald af ólöglegu og óréttlætanlegu stríði NATO gegn Júgóslavíu.

Tengsl WWP við ANSWER eru sterk og náin. Fjölmargir háttsettir menn í ANSWER, þar á meðal talsmaður samtakanna, Brian Becker, eru virkir meðlimir í WWP; ANSWER og WWP deila skrifstofuhúsnæði í mörgum borgum; á nýlegum blaðamannafundi ANSWER voru fimm af þrettán ræðumönnum virkir meðlimir í WWP. Þá eru samtökin International Action Center (IAC) einnig nátengd WWP og ANSWER.

En skipta þessi tengsl einhverju máli? Er eitthvað að því að skella sér í fjöldagöngu til stuðnings málefni sem maður trúir á þótt gangan sé skipulögð af stalínískum stuðningsmönnum einræðisherra? Þessu má svara með annarri spurningu: Ef Ku Klux Klan héldi kökubazar til að safna fé til stuðnings athvarfs fyrir veika hvolpa, myndi þetta sama fólk baka kökur og aðstoða við kökusöluna? Að sjálfsögðu ekki. Málefnið getur verið gott, en það skiptir líka máli hver stendur fyrir söfnuninni eða mótmælunum.

Flestir þeirra sem gengu í Washington, París og Reykjavík voru eingöngu að mótmæla hugsanlegu stríði í Írak, en ANSWER og bakhjarlar þess munu nota mótmælin til að koma öðrum baráttumálum sínum áfram. Þeir munu benda á að tugir þúsunda manna séu þeim „sammála” og þess vegna eigi að taka meira tillit til málflutnings þeirra.

Það er réttur hvers manns að tjá skoðanir sínar opinberlega, en það væri öllum fyrir bestu ef hófsamari andstæðingar stríðs skipulegðu sínar mótmælagöngur sjálfir og létu öfgasamtök eins og WWP og ANSWER lönd og leið.

Að lokum má velta upp þeirri spurningu hver tengsl íslenskra aðila eins og Samtaka herstöðvaandstæðinga séu við WWP, IAC og ANSWER. Eru aðstandendur þeirra sammála WWP í afstöðu þeirra gagnvart fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar, stjórn N-Kóreu og stríðsglæpadómstólnum í Haag? Munu þau notfæra sér mótmælin á laugardag til að berjast fyrir einhverju sem kemur stríðinu við Írak ekkert við?

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)