Af einræktun

Fregnir af fæðingu einræktaðs barns bárust heimsbyggðinni um jólin. Hvað sem satt kann að reynast í þessu er enn óljóst, en tíðindin eru engu að síður tilefni til að staldra við, kynna sér málin og meta stöðuna.

Í síðastliðnum desember bárust fregnir af fæðingu barns, sem samkvæmt forsvarsmönnum fyrirtækisins Clonaid er fyrsta einræktaða barn veraldar. Fullyrðingar þessar hafa vakið gífurlega athygli, og í flestum tilvikum einnig hneykslan og undrun. Er það ekki að furða því réttmæti einræktunar almennt, útfrá siðfræðilegu sjónarmiði er mjög umdeilt, svo ekki sé minnst á einræktun á fólki.

Það sem gerist í einræktun er að erfðaefni úr t.d húðfrumu einstaklings er komið fyrir í „tómri” eggfrumu sem fengin er úr sama einstaklingi eða öðrum. Þá er í raun orðið til „frjóvgað” egg, sem hefur nákvæmlega sömu arfgerð og einstaklingurinn sem erfðaefnið tilheyrði. Þetta er auðvitað allt gert utan líkama, en af þessu getur sprottið fósturvísir sem þá er hægt að staðsetja í legi og koma á legg einræktuðu fóstri, sem í eðlilegu framhaldi verður að einræktuðum einstaklingi.

Slíkar tilraunir hafa verið framkvæmdar á dýrum um nokkurra ára skeið, en upp hafa komið ýmis vandamál, sbr. erfðagallar og ellihrörnun. Sumir vísindamenn segja þessi vandamál nú úr sögunni, því slíkar hafi framfarirnar verið að undanförnu. Aðrir draga þetta í efa, og benda að auki á að erfitt sé að yfirfæra rannsóknir á dýrum og framfarir tengdar þeim algjörlega yfir á mannskepnuna, því um ólíkar lífverur sé vissulega að ræða, þó líkindin séu til staðar.

Einræktun er einnig notuð í lækningaskyni og gengur í stuttu máli út á það að stofnfrumum, fengnum úr einræktuðum fósturvísum, er stýrt til þess að mynda vefi eða líffæri, sem aftur er þá hægt að græða í eiganda erfðaefnisins, án þess að hætta sé á að líkaminn hafni þeim. Því er ljóst að í tækninni felast einnig möguleikar til mikilla framfara í læknavísindum.

Fregnirnar af fyrstu ætluðu einræktuðu mannverunni eru óneitanlega sláandi og tilhugsunin um að einræktað barn sé raunveruleiki setur vægt til orða tekið að manni óhug. Sannanir fyrir einræktuninni liggja ekki ennþá fyrir, en þær eru auðvitað forsenda þess að vísindasamfélagið staðfesti þessar fullyrðingar.

Tilvist vísindanna, sem og einstaklinga sem bægja léttilega frá sér áleitnum siðferðilegum spurningum, eða réttlæta verk sín í krafti óslökkvandi vísindalegs metnaðar eða jafnvel trúarkenninga, gefur tilefni til að vera viðbúinn öllu. Það er því ef til vill ekki fráleitt að ætla að stúlkan litla, sem fæddist með hjálp Clonaid á jólum eigi það ekki eitt sameiginlegt með frelsaranum, heldur sé hún eingetin líka.

Ef það er tilfellið, er ógnvænlegt að hugsa til þess sem gæti gerst, þegar menn eiga kost á því að hrifsa völdin af náttúrunni. Nærtækt dæmi um möguleikann á slíku eru aðstandendur Clonaid, sem trúa því að geimverur hafi kveikt líf á jörðinni fyrir 25 þúsund árum með einræktun, og að hún sé jafnframt leiðin til eilífs lífs. Án þess að þekkja trúarkenningar þeirra eða fyrirætlanir til fulls, er gefið þær stangast líklega á við siðferðismat flestra sem utan hópsins standa. Vonir standa því til að ríki heimsins líti á þessi tíðindi, hvort sem þau reynast sönn eða ekki, sem skilaboð um nauðsyn þess að setja sem fyrst lög um bönn við einræktun manna, og þannig reynt að stemma stigu við hvers konar misbeitingu.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.