Verðmæti Kárahnjúka

Með skýrslu eigendanefndar hefur verið kveðinn upp dómur um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar, og féll hann Landsvirkjun í vil. Margir hafa þó hnotið um það að verðgildi landsins sem fer undir vatn er metið á 0 kr. En þrátt fyrir að menn hafi kvartað yfir þessu hefur ekki farið mikið fyrir því að reynt sé að setja raunhæfan verðmiða á svæðið.

Fyrir skömmu skilaði svonefnd eigendanefnd af sér skýrslu um arðsemisútreikninga vegna Kárahnjúkavirkjunar, sem staðfestir að forsendur Landsvirkjunar hafi verið eðlilegar. Fulltrúi nefndarinnar var inntur eftir því í Kastljósi hvað honum þætti um þá forsendu að meta verðgildi landsvæðisins sem sökkt verður ekki að nokkru leyti. Fulltrúinn svaraði eitthvað á þá leið að það væri pólítísk forsenda og utan við það sem honum bæri að meta. Það er erfitt að bera á móti því, þar sem honum ber einungis að gæta hagsmuna Landsvirkjunar, og kostnaður þess fyrirtækis er enginn vegna landsvæðisins.

Sú staðreynd að Landsvirkjun greiðir ekkert fyrir afnot og eyðileggingu landsvæðisins þýðir þó í raun að íslenska ríkið er að gefa Landsvirkjun ótilgreinda upphæð sem aldrei hefur verið verðmetin á nokkurn hátt. Þetta hefur verið gagnrýnt af ýmsum andstæðingum virkjunarinnar, nú síðast af Kolbrúnu Halldórsdóttur í Kastljósi síðustu helgar. Hvorki hún né aðrir hafa þó lagt fram raunhæfar leiðir til að komast að því hvert þetta verðmæti er fyrir íslensku þjóðina.

Þótt alltaf sé erfitt að setja verðmiða á hluti af þessu tagi er hægt að velta fyrir sér stærðargráðum. Fyrsta skrefið er að meta verðmætið fyrir þann aðila sem þegar hefur lýst yfir áhuga á að nýta svæðið, Landsvirkjun. Eðlilegasta leiðin til þess er að skoða núvirtan hagnað Landsvirkjunar af virkjuninni. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í því efni, en miðað við ávöxtunarkröfu upp á 5,3% er hann af stærðargráðunni 15-30 milljarðar króna. Þetta þýðir að Landsvirkjun ætti, ef allt er eðlilegt, að vera tilbúin að greiða þá upphæð fyrir afnot af landinu.

En hvað á að gera ef við virkjum ekki? Helst hefur verið nefndur sá möguleiki að setja upp ferðamannaparadís á þessum stað. Ef miðað er við að tíföldun ferðamanna á svæðinu og gert ráð fyrir 20 þúsund króna hreinum hagnaði á ferðamann, vegna ferða um svæðið, má reikna sig upp í 5-15 milljarða króna núvirtan framtíðarhagnað af ferðaþjónustu á þessum stað. Það mælir reyndar gegn þessari hugmynd að helsta aðdráttarafl hálendisins er einmitt að þar er ekki sála, svo langt sem augað eygir. Stórkostleg fjölgun ferðamanna virðist því ákveðin mótsögn.

Þótt Flugleiðir, stærsta hagsmunaaðili í ferðaþjónustu á Íslandi, hafi ekki haft sig í frammi vegna tjóns af virkjuninni, stendur eftir sú spurning hvort við höfum rétt til þess að brjóta á rétti komandi kynslóða og eyðileggja þetta landsvæði varanlega. Hvað erum við tilbúin til að leggja á okkur til að verja þann rétt og koma í veg fyrir virkjun svæðisins? Slíkri spurningu er auðvitað ekki hægt að svara nema út í bláinn. En gerum nú, út í bláinn, ráð fyrir að Íslendingar væru tilbúnir að skuldbinda hvern einasta Íslending til að greiða, um ókomna framtíð, 100 krónur á mánuði til að koma í veg fyrir virkjun. Miðað við sömu ávöxtunarkröfu og Landsvirkjun gefur sér, og áframhaldandi fjölgun Íslendinga um 0,9% á ári, myndi slík landssöfnun skila 6 milljörðum króna að núvirði.

Óformleg skoðanakönnun pistlahöfunds leiðir í ljós litla löngun til að takast á hendur slíkar skuldbindingar. En ef slíkt yrði gert, og miðað við mjög bjartsýnar væntingar um ferðamannastraum, gætu þeir sem vildu sameinast um það að koma í veg fyrir virkjun hugsanlega komist upp í 20-30 milljarða, sem er svipað og hagnaður Landsvirkjunar. Hagnaður af völdum virkjunar lendir þó hjá fleirum en Landsvirkjun, svo sem í formi skatta af framkvæmdum, svo vel getur verið að ríkið kæmist samt sem áður að því að virkjun væri skynsamleg.

Pistlahöfundur er fyrstur til að viðurkenna að þessar vangaveltur eru ansi ónákvæmar. Það er þó mikil synd að hvorki þeir sem eru fylgjandi virkjun, né andstæðingar hennar, hafi haft hug á því að skoða þessi mál í alvöru, þar sem slíkar umræður hefðu verið þarft innlegg í umræðuna. Fórnarkostnaður við virkjunina er af sömu stærðargráðu og væntur hagnaður og það virðist mikið ábyrgðarleysi að taka ekki tillit til hans í útreikningum.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)