Fordómafullir framfarasinnar

Það voru mikil gleðitíðindi þegar Flokkur Framfarasinna opnaði aftur heimasíðu sína í síðasta mánuði. Fyrir lokun hafði heimasíðan verið næstum ótæmandi uppspretta skemmtiefnis og mikill missir af henni. Hún olli hins vegar ekki lesendum sínum vonbrigðum þegar hún opnaði aftur. Sem áður var innflytjendastefna flokksins í fyrirrúmi ásamt endalausum upplýsingum um innflytjendamál út um allan heim.

Það voru mikil gleðitíðindi þegar Flokkur framfarasinna opnaði aftur heimasíðu sína í síðasta mánuði. Fyrir lokun hafði heimasíðan verið næstum ótæmandi uppspretta skemmtiefnis og mikill missir af henni. Hún olli hins vegar ekki lesendum sínum vonbrigðum þegar hún opnaði aftur. Sem áður var innflytjendastefna flokksins í fyrirrúmi ásamt endalausum upplýsingum um innflytjendamál út um allan heim.

Þær skoðanir Flokks framfarasinna sem fram koma í stefnuskrá þeirra eru mjög afdráttarlausar þegar kemur að útlendingum, þeir eru á móti því að þeir flytji til Íslands. Í VII. kafla stefnuskránnar kemur fram að Flokkur framfarasinna sé algerlega mótfallinn þeirri stefnu að íslenskt þjóðfélag eigi að þróast út í að verða svokallað fjölþjóðasamfélag þar sem mörg ólík þjóðfélög þróist samhliða. Reyndar er rétt að benda á misskilning sem gætir hjá höfundum stefnuskránnar en fjölþjóðasamfélag byggist einmitt upp á því að fólk af ólíkum uppruna myndi saman eitt þjóðfélag.

Seinna í kaflanum kemur síðan fram að draga þurfi verulega úr innflutningi erlendra ríkisborgara til landsins. Þetta er rökstutt með því að þetta sé gert í því skyni að lágmarka þau vandamál sem gjarnan vilja fylgja náinni sambúð fólks af ólíkum uppruna. Með öðrum orðum þá sé best að lágmarka vandamálin með því að hleypa fólkinu ekki inn í landið! Þess ber að geta að aðstandendur flokksins kvarta mikið yfir því á síðunni að vera kallaðir rasistar.

Ríkisborgararétturinn er flokknum einkar hugleikinn og vill hann setja ýmislegar nýstárlegar lágmarkskröfur til umsækjenda um íslenskan ríkisborgararétt t.d. að umsækjendur þurfi að sýna fram á að hafa styrkt íslenskt þjóðfélag með búsetu sinni á landinu. Já og auðvitað verða íslenskir ríkisborgarar að ganga fyrir um atvinnu á Íslandi.

Jafnframt verður mönnum gert að undirrita hollustueið við Ísland og íslensku þjóðina og ennfremur eið þess efnis að viðkomandi heiti því að uppfylla skyldur sínar sem þegn íslenska ríkisins. Brot gegn eiðum þessum skal varða við lög og þá jafnvel afturköllun á ríkisborgararéttinum ef brotið telst alvarlegs eðlis. Flokkurinn er mjög upptekinn af afturköllun ríkisborgararéttar því í stefnuskránni kemur fram að ríkisborgararéttur skuli undantekningarlaust vera afturkallaður ef í ljós kemur að rangar eða villandi upplýsingar hafi verið gefnar við umsókn hans. Flokkurinn er þarna að boða afturhvarf til fortíðar þar sem átak hefur verið gert í að útrýma landleysi í heiminum en einstaklingar án ríkisborgararéttar eru taldir vera einna verst staddir í heiminum í dag. Ísland hefur m.a. undirritað alþjóðasáttmála til að útrýma landlausum einstaklingum í heiminum. Svipting ríkisborgararéttar er því ekki möguleg nema með stórfelldum lagabreytingum og uppsögn alþjóðasamninga um mannréttindi.

Þegar menn setja hugsanir sínar á blað þá segja skrifin alltaf mest um höfundinn sjálfan óháð því hvert umfjöllunarefnið er. Þannig ættu þessi skrif á Deiglunni að segja lesendanum að höfundur er ekkert sérstaklega stressaður yfir „innflytjendavandanum“. Á sama hátt endurspegla stefnuskrá og pistlar Flokks framfarasinna ekki bara viðhorf höfundanna heldur líka þær miklu tilfinningar sem greinilega liggja á bak við. Formaður félagsins skrifaði t.d. í pistli 5. janúar síðastliðinn:

„Síðan er það auðvitað spurningin; eigum við Íslendingar s.s. að sjá okkur í hlutverki ameríska indíánans? Vissulega er það ekki óvitlaus samlíking þegar þetta tvennt er borið saman. Við þekkjum væntanlega öll reynslu frumbyggja Ameríku af straumi innflytjenda frá Evrópu á sínum tíma. Ekki er það nú beint falleg saga. Það er þó von mín að örlög Íslendinga verði ekki þau sömu og þeirra, að lifa á verndarsvæðum eða verða hreinlega útrýmt sem sérstakri þjóð. Það eru þó svo sannarlega miklar blikur á lofti í þeim efnum og forsendur fyrir slíku þegar orðnar að veruleika.“

Já, það er hægt að lesa mjög mikið út úr stefnuskránni og þessum yfirveguðu varnaðarorðum formannsins. Mikla hræðslu við útlendinga!

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.