Árni Sigfússon maður ársins 2002 í íslenskum stjórnmálum

Deiglan hefur valið Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, mann ársins í íslenskum stjórnmálum. Hann vann frækinn kosningasigur í sveitarstjórnarkosningum í vor og hefur á þeim tíma sem hann hefur gegnt embættinu sýnt að þar fer einhver öflugasti stjórnmálamaður landsins.

Þegar sú hugmynd kom fram að Árni Sigfússon, fyrrum borgarstjóri og forstjóri, byði sig fram sem bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ þótti ýmsum það vera glannaleg hugmynd og lítt fallin til árangurs. Þegar leið að kosningum kom þó í ljós að bæjarbúum í Reykjanesbæ leist vel á frambjóðandann og með kraftmikilli kosningabaráttu tryggðu Sjálfstæðismenn sér glæstan sigur. Sjálfstæðiflokkkurinn fékk ríflega 52% fylgi og fékk 6 af 11 fulltrúa í bæjarstjórn – og einungis vantaði um 50 atkvæði til þess að 7. maður af lista sjálfstæðismanna næði inn.

Þessi mikli sigur Árna í Reykjanesbæ er athyglisverður í ljósi þess að Sjálfstæðiflokkurinn hefur aldrei verið með meirihluta í Reykjanesbæ, og hafði aldrei haft meirihluta í Keflavík og aðeins stöku sinnum náð þeim árangri í Njarðvík.

Eftir kosningasigurinn hefur Árni vakið athygli fyrir röggsemi við stjórn bæjarfélagsins en auk þess hefur hann sýnt styrk sinn sem stjórnmálamaður. Hann mótmælti meðferð íslenskra stjórnvalda á meðlimum Falun Gong og sýndi með því að hann hefur til að bera sterka réttlætiskennda og er óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós í umdeildum málum ef hann telur að grundvallarmannréttindum sé ógnað.

Þá vakti það athygli þegar Árni lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi bann við einkadansi brjóta í bága við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og almenn mannréttindi. Árni Sigfússon hefur ætíð haft málefni fjölskyldunnar mjög í öndvegi í pólitísku starfi sínu og því kom þessi einarða afstaða hans mörgum í opna skjöldu. Með því að blanda sér með þessum hætti inn í þetta mál sýndi Árni að hann er strærri pólitískur hugsuður en svo að hann láti persónulega vanþóknun sína á tiltekinni háttsemi einstaklinga brengla svo dómgreind sína að hann leitist við að beita valdi til þess að beygja aðra undir sömu skoðun. Slík afstað er því miður mjög fátíð meðal stjórnmálamanna sem fæstir þora að taka afstöðu með frelsinu í siðferðislegum álitamálum en láta þessi í stað stjórnast af pólitískri rétthugsun.

Árni Sigfússon hefur með árangri sínum í Reykjanesbæ sýnt að hann er ótvírætt einn af öflugustu stjórnmálamönnum landsins og mun hann vafalaust láta víðar til sín taka þegar fram líða stundir, enda er Árni enn kornungur og á því bjarta framtíð fyrir höndum í stjórnmálum haldi hann áfram rétt á spilunum.

Með framboði sínu sýndi hann pólitískt hugrekki og í störfum sínum hefur hann sýnt að hann er öflugur talsmaður einstaklingsfrelsins og mannréttinda. Fyrir þetta hefur hann verið útnefndur maður ársins 2002 í íslenskum stjórnmálum hér á Deiglunni.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)