Völvupsá Völu Kazcinski

Hin heimsþekkta völva og spámiðill Vala Kazcinski hefur ákveðið að veita lesendum Flugufótsins einstaka sýn inn í framtíðina. Hér birtist því hin óskeikula nýársspá Völu fyrir árið 2003.

Vala er mjög nákvæm völva og hefur aldrei haft rangt fyrir sér. Sem er met.

Vala Kazcinski, spámiðill, kom fyrst fram á sjónvarsviðið fyrir nokkrum árum en segja má að hún hafi ekki orðið þjóðþekkt fyrr en á gamlársdag í fyrra þegar spádómar hennar birtust á Deiglunni. Þeir spádómar hafa allir ræst en eins og kunnugt er þá hefur Vala aldrei misst marks í spádómum sínum.”Ég er algjörlega óskeikul – það er í senn mín mesta bölvun og blessun. Ekkert kemur mér á óvart, hvorki þægilega né óþægilega,” sagði Vala þegar blaðamaður Flugufótsins heimsótti hana í Grafarvoginn nokkrum dögum fyrir áramót.

Vala segist vera mjög ánægð með spádóma sína síðasta ár. “Þeir rættust auvðitað allir eins og venjulega, enda finnst mér í raun að það sé hálfgerð niðurlæging að kalla þetta spádóma – ég hef einfaldlega betri sýn inn í fjórðu víddina en flestir aðrir.”

Vala sagðist í ár vilja einbeita sér að innlendum vettvangi og byrjar á því að reifa nokkra hluti er varða stjórnmálaástandið.

Stjórnmál

“Tekist verður á um fullveldismálið í komandi Alþingiskosningum. Hinn þögli meirihluti konungssinna á Íslandi skipuleggur um þessar mundir framboð í öllum kjördæmum. Helst hafa verið nefndir til sögunnar Kristján Pálsson, Jakob Frímann Magnússon, Páll Pétursson og Svanhildur D. Ólafsdóttir, laganemi. Framboðið hefur sótt um listabókstafinn X en síðasti konungur sem íslensk stjórnvöld viðurkenndu var Kristján tíundi.”

Völvan telur víst að Sigurður Líndal verði talsmaður framboðsins. Hún segir að stefnumálin séu fyrst og fremst þau að endurvekja konungssambandið og hefja vaðmál og saltfisk til vegs og virðingar á ný sem útflutningsvörur. “Þetta er mikið þjóðþrifamál finnst mörgum nú þegar internetbólan er um það bil að springa.”

Flokkur framfarasinna mun bjóða fram í komandi kosningum í öllum kjördæmum undir slagorðinu: “Slavana í skítverkin” en upphaflega stóð til að notast við slagorðið “Slavana í Slavalands” en ímyndarsérfræðingar framfarasinna töldu að fyrrnefnda slagorðið væri mun umburðarlyndara en hið síðarnefnda. Flokkur Framfarasinna mun ganga í alþjóðleg samtkök framfarasinna. Mun þetta þó hafa í för með sér að formaður félagsins neyðist til þess að ferðast til útlanda og tala við útlendinga.

Ólafur Örn Haraldsson verður í sviðsljósinu í ár. Hann mun láta til sín taka á stjórnmálavettvagninum sem fyrr en einnig leggja áherslu á feril sinn sem ofurhugi. Hann ætlar að “toppa” son sinn sem kleif sjö hæstu tinda heims og mun hann hefja mikinn leiðangur þar sem hann ætlar að kljúfa sjö hæstu tinda heims. Ólafur Örn verður styrktur af Húsasmiðjunni í ferð sinni sem ber yfirskriftina “Fjandsamlegur yfirgangur”.

Vefrit og internet

Borgar Þór, ritstjóri Deiglunnar, er í ltilum metum hjá Völvu Flugufótsins.

Vala er mjög áhugasöm um hin svonefndu “vefrit” og les þau helstu af mikilli áfergju. Hún spáir því að Andríki muni á næsta ári birta grein um almenningssamgöngur auk þess sem ritstjórnin verði ekki nema miðlungi hrifinn af málflutningi umhverfisverndarsinna. “Múrinn mun fjalla um yfirvofandi stórsigra alþýðuforingja á frjálshyggjupostulum í fátækustu ríkjum heims. Múrinn mun einnig beina kastljósi sínu að umhverfisvoðaverkum alþjóðlegra auðhringa í Afríku og Asíu.”

Það vefrit sem Vala hefur minnsta trú á er Deiglan.com. “Þessir skítalabbar hlunnfóru mig í fyrra og borguðu ekki krónu fyrir. Ég harðneitaði þeim um að spá fyrir þá núna í ár en leist þeim mun betur á ykkur frá Flugufætinum,” “Flugufótnum,” leiðréttir blaðamaður Flugufótsins. “Já. Flugufótnum. Ég meina það auðvitað.”

“En varðandi Deigluna þá held ég fasistarnir þar muni lítið skána og halda áfram gegndarlausum áróðri fyrir morðóða einræðisherra (sem eru vitaskuld studdir til valda af CIA). Þá munu þeir vafalaust halda áfram að níðast á gáfaðri vefritum með barnalegu gríni og misheppnuðum árásum. Það er svosem ekki á verra von,” segir Vala mjög gremjulega.

Frelsi.is verður með líflegasta móti í ár fyrst og fremst vegna fjölda stórafmæla hjá bandarískum repúblikönum. Trent Lott dagurinn verður haldinn hátíðlegur og mun taka við af skattadeginum sem helsti hátíðisdagur frelsispenna.

Tíkin mun á árinu hleypa fyrsta karlmanninum í ritstjórnina og er líklegt að hæstaréttarlögmaðurinn góðkunni Örn Clausen verði fyrir valinu.

Maddaman.is og Hrifla.is verða með puttann á þjóðmálapúlsinum sem aldrei fyrr. Beinskeytt og vitsmunaleg skrif á þessi vefrit mun skila hugsjóninni um velferð framsóknarmanna miklu fylgi á árinu.

Pólitík.is verður allra vefrita virkast á komandi ári þótt gera megi ráð fyrir að hlé verði á skrifum í kringum sprengidag, þorrann, páska, uppstigningardag, vorpróf, hvítasunnu, fyrstu helgina í júlí, verslunarmannahelgi, haustpróf, upphaf skólaársins, október, þakkargjörðarhátíð, hrekkjavöku, aðventu, jól og áramót.

Völvan vildi þó koma því á framfæri við blaðamann Flugufótsins að hún hefði litla trú á að internetið lifi út þetta ár. “Internetið er bóla sem á eftir að springa – og mér finnst líklegt að það gerist um mitt sumar í ár.” Aðspurð sagðist hún þó telja að Flugufóturinn muni lifa áfram “í munnlegri geymd.”

Jafnréttismál

Rósa Erlingsdóttir, jafnréttiseinvaldur í Háskóla Íslands, mun krefjast þess að eðlisfræðifastar verði lagaðir eftir reynsluheimi kvenna og að hætt verði að notast við alheimsfastann þar sem hann er karllægur í eðli sínu. Þá verður lagt til að gráður í hring verði ekki lengur 360 heldur 28 eins og dagar í tíðarhringnum.

Hinn klámfengna orð “frádráttur” verður aflagt. Í staðinn verður notast við orðið “mismunun” og börnum kennd samlagning og mismunun í grunnskólum.

Uppstilling á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mun endurspegla mikla jafnréttisvakningu innan flokksins. Ekki er loku fyrir það skotið að Atli Eðvaldsson verði settur á listann til þess að lagfæra kynjahlutfallið.

Vala segir að launamunur kynjanna verði lítið í umræðunni á þessu ári heldur verði launamunur barna og fullorðinna meira í umræðunni. “Þar er verulegur munur, sem að hluta til kann að útskýrast vegna þess að fullorðið fólk er betur menntað en það getur varla skýrt allt að 100% launamun innan heimilisins.”

Tíðarfar og jarðhræringar

Vala spáði því í fyrra að veður yrði misjafnt og hún telur að svo verði einnig árið 2003. “Ég sé fyrir mér djúpar lægðir á fyrsta ársfjórðungi, en tel líklegt að það hlýni með vorinu og ekki er loku fyrir það skotið að sumarið verði sólríkt og hlýtt a.m.k. einhverja daga á einhverjum stöðum á landinu.” Vala segist ekki útiloka að veður verði gott fyrir austan í sumar.

Hvað varðar eldgos og jarðhræringar segir Vala að Ísland sé eldfjallaeyja og því megi búast við því að ekki sé allsendis ólíklegt að einhverjar jarðhræringar verði á árinu. Hvað eldgos varðar segir Vala. “Ég vil ekkert útiloka í þeim efnum,” og brosir lævíslega.

Flugufóturinn þakkar Völu, en hún vildi koma á framfæri óskum um gæfuríkt ár til lesenda Flugufótsins, nema aðstandandenda Deiglunnar, “ef þau ólæsu fífl þá lesa Flugufótinn”.

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)