Stríð í Írak

Fjölmiðlar og almenningur í Evrópu hafa algerlega tapað sér í andúð á Bandaríkjunum þegar kemur að stríði í Írak. Þetta hefur gert það að verkum að mikilvæg atriði varðandi áætlanir Bandaríkjanna í slíku stríði hafa ekki fengið þá umfjöllun sem þau ættu að hafa fengið.

Það er hreint með ólíkindum hversu mikill munur er á skoðunum fólks hvað varðar hugsanlegt stríð í Írak annars vegar hér á landi og hins vegar í Bandaríkjunum. Á Íslandi finnst varla sá maður sem er tilbúinn að ljá máls á því að það sé skynsamlegt að hertaka Írak. Í Bandaríkjunum er hins vegar almennur stuðningur við stríð í Írak talsvert mikill. Og þessi stuðningur er ekki eingöngu bundinn við þá sem alltaf eru fylgjandi stríði. Hann er einnig umtalsverður á vinstrivæng bandarískra stjórnmála og jafnvel á meðal menntaelítunnar sem er þó nánast alltaf á móti stríði.

Að því er ég kemst næst skýrist þessi mikli munur á afstöðu fólks að miklu leyti af því að það hefur mismunandi upplýsingar um málið. Mér sýnist sem fjölmiðlar og almenningur í Evrópu hafi algerlega tapað sér í andúð á Bandaríkjunum. Svo mikið að mikilvæg atriði varðandi þetta mál hafa ekki fengið þá umfjöllun sem þau ættu að fá í Evrópu. Hér vil ég draga athygli lesenda Deiglunnar að einu slíku atriði.

Á undanförnum áratugum hefur hernaðarstefna Bandaríkjanna oftar en ekki verið þríþætt. Fyrst sprengja þeir landið aftur á steinöld. Næst koma þeir valdhöfum landsins fyrir kattarnef. Og síðan hverfa þeir á braut.

Stríð af þessu tagi eru vitaskuld eingöngu til þess fallin að valda fólkinu í landinu sem ráðist er á gríðarlegum þjáningum. Og það eru góð rök gegn slíkum stríðum.

Áætlanir Bandaríkjanna hvað Írak varðar eru allt aðrar. Í fyrsta lagi er sprengjuherferðin sem ráðgerð er á undan árásinni mun minni en í Persaflóastríðinu 1991 og allt annars eðlis en í Kósóvó 1999. Áhersla verður lögð á að halda eyðileggingu á vegakerfi, rafmagnskerfi, símakerfi, o.s.fr. í lágmarki til þess að auðveldara verði að koma lífi í Írak aftur í eðlilegt horf eftir stríðið

Þegar landið hefur verið hertekið stefna Bandaríkin að því að halda landinu í þó nokkurn tíma á meðan innviðir ríkisins eru byggðir upp. Raunar er hertaka Bandaríkjanna á Japan eftir seinni heimsstyrjöldina sú fyrirmynd sem Bandaríkjastjórn hefur stuðst við. Ráðgert að háum fjárhæðum verði varið í endurreisn landsins. Þar að auki verða viðskiptaþvingunum á Írak vitaskuld aflétt.

Ef þetta er sú stefna sem Bandaríkin munu í raun fylgja er alls ekki augljóst að venjulegt fólk í Írak skaðist af stríðinu. Raunar er líklegt að hagur flestra í Írak vænkist. Og ef svo er þá eru ein mikilvægustu rökin sem margir hér á Íslandi færa fram gegn stríðinu fallin.

Sumir lesendur Deiglunnar munu eflaust efast um að hugur Bandaríkjastjórnar fylgi máli hennar í þessum efnum. Fram að þessu hefur það hins vegar ekki þótt vænleg leið til þess að selja stríð í Bandaríkjunum að leggja áherslu á hversu miklu fé verður varið í uppbyggingu landsins eftir stríðið. Bandarískir kjósendur eru oftast nær á móti slíkri uppbyggingu á svipaðan hátt og þeir eru á móti þróunarhjálp. Raunar eru þeir oft á móti hernaðaríhlutun af hálfu Bandaríkjanna þar sem þeir telja hana of dýra. Það er því mjög óvenjulegt að ríkistjórn Bandaríkjanna sé að leggja áherslu á þann mikla kostnað sem þeir ætla að leggjast í við að byggja upp Írak. En það gæti bent til þess að stjórnin telji það þjóna pólitískum hagsmunum sínum að byggja upp Írak.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.