Hverjir njóta velþóknunar Guðs?

Í jólahugvekju á Deiglunni fjallar sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson um hvað við sé átt í jólaguðspjallinu þegar englarnir syngja um mennina sem Hann hafi velþóknun á. Sr. Kjartan víkur einnig að fátækt í þriðja heiminum með tilsjón af því ástandi sem ríkti hér á Íslandi um aldamótin 1900.

Það segir frá því í jólaguðspjallinu að englarnir sungu á Betlehemsvöllum:

“Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.”

Í framhaldi af söng englanna er hægt að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort Guð í hæstum hæðum skipti fólki í tvo hópa. Annars vegar séu þeir sem njóta velþóknunar Guðs og síðan hins vegar þeir sem eru ekki í náðinni hjá Guði og hafa þar af leiðandi engan frið í sálinni eða lífinu. Við getum spurt áfram. Er það eingöngu kristið fólk sem nýtur velvildar Guðs og e.t.v. bara það fólk sem tilheyrir ákveðnum kirkjudeildum innan hinnar kristnu kirkju? Eru það eingöngu baptistar í Bandaríkjunum sem njóta velþóknunar Guðs og eiga því hinn eina sanna jólafrið? Og hvað með okkur sem erum venjulegt þjóðkirkjufólk á Íslandi erum við á gráu svæði og getum ekki tilreiknað okkur góðvild og gæsku skaparans? Og hvað með alla hina? Þá sem að játa önnur trúarbrögð eða alls engin?

Ég held að best og réttast sé að svara þessum spurningum með því að segja að velþóknun Guðs er með öllu því fólki sem vill leggja lífinu lið hvar í flokki sem það stendur og hvaða trú sem það játar. Guð vill framgang hins góða með öllum mönnum og öllum þjóðum. Að ljósið sigri myrkrið – svo gripið sé til líkingamáls sem allir skilja og er þekkt í öllum trúarbrögðum. Ljósið stendur fyrir allt það sem bætir mannlífið og það er ljósið sem hrekur brott andlegt myrkur og neyð. Ljósið lýsir upp veginn sem hollast er að ganga á þessari vegferð og það varpar ljósi á það ókomna og óhjákvæmilega í lífi hvers einasta manns. Það er ljósið sem leysir manninn frá myrkri fáfræði og nauðungar og það frelsar frá ótta og kvíða. Velþóknun Guðs er með öllum sem vilja varðveita ljósið í sjálfum sér til þess að það megi lýsa öðrum.

En allir sem með einhverjum hætti vilja standa gegn því sem bættir lífið og vilja slökkva það ljós sem blessar og bjargar – þeirra verk njóta ekki velþóknunar Guðs. Slíkt fólk finnum við í öllum trúarbrögðum og með öllum þjóðum. Velþóknun Guðs er sannarlega ekki með þeim sem vilja brjóta, meiða og særa. Þar ríkir makt myrkranna og er andstæða þess sem er í ljósinu. Alla tíð og tíma er þessi barátta háð og við erum þátttakendur í henni.

Við sem að játum kristna trú sjáum í Jesú ljós heimsins. Í honum sjáum við ljósið frá Guði og til hans horfum við þegar við leitum að fyrirmynd og leiðtoga í lífinu. Þess vegna er það kristnu fólki eðlilegt að minnast fæðingar Jesú. Með því erum við að undirstrika að Jesús var einn af okkur. Hann var barn eins og við, unglingur og fulltíða maður sem með orðum sínum lífi og dauða hefur varpað ljósi á hver Guð er og hvað hann vill með mann og heim. Við viljum vera með honum í liði, njóta velþóknunar Guðs og berjast góðu baráttunni.

Núna á aðventunni heyrði ég viðtal við Þórunni Valdimarsdóttur sagnfræðing um bók hennar “Horfinn heimur.” Bókin fjallar um eitt ár í sögu íslensku þjóðarinnar þ.e.a.s. aldamótaárið 1900 og ber undirtitilinn “lesið úr blöðunum.”

Í viðtalinu lýsti Þórunn nokkuð aldafari og ástandi mála á Íslandi árið 1900 þegar við vorum í hópi fátækustu þjóða í Evrópu og erfiðleikarnir á öllum sviðum gífurlegir og nánast óyfirstíganlegir. Heisufarið var bágborið og sjúkdómar eins og berklar og sullaveiki voru landlægir og lögboðin samhjálp skammt á veg komin. “Guð hjálpar þeim sem hjálpast að,” – er tilvísun úr því viðhorfi sem þá var ríkjandi og mætti heyrast oftar í dag þegar meira er treyst á opinbera og ópersónulega lögboðna samhjálp tryggingakerfisins. Ég tók eftir því að Þórunn sagðist þakklát fyrir að lifa nú á dögum en ekki um aldamótin 1900.

Ástandið í veröldinni er víða bágborið og við Íslendingar tilheyrum þeim fáu lánsömu sem búa við góðan hag og njótum framfara og tækninýjunga á öllum sviðum. Þetta hefur Íslendingum tekist á einni öld. Þess vegna leyfi ég mér að vera nokkuð bjartsýnn fyrir hönd þeirra þjóða sem í dag eru fátækar og berjast við sjúkdóma og búa við bágborið kerfi samhjálpar og menntunar. Ef lánið er með þessum þjóðum og þær eignast farsæla leiðtoga þá geta þær án efa lyft grettistaki og náð miklum árangri á fáum áratugum. Með aðstoð ríkari þjóða og með þeirri tækni sem nú býðst þá gætu fátækar þjóðir komist úr öskustónni til bjargálna á skemmri tíma en það tók íslenska þjóð að breytast úr einni fátækustu þjóð Evrópu árið 1900 til að vera ein auðugasta þjóðin öld seinna.

Við ættum að sýna þakklæti okkar í verki með því að aðstoða þessa smæstu bræður og systur í meira mæli en nú er gert.

Ég er sannfærður um að velþóknun Guðs er yfir þeim mönnum sem vilja leggja því lið að efla hagsæld og farsæld þeirra þjóða sem í dag eru fátækastar. Það er áreiðanlega best til þess fallið að auka frið heims um ból og það gefur sanna jólagleði.

Gleðileg jól.

Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)