Hugmyndasnauður Múr

Á Múrnum birtast með reglulegu millibili greinar sem saka stjórnvöld um að skera sífellt niður í heilbrigðismálum. Einkenni þessara sem annarra greina á Múrnum er að þær gagnrýna án þess að leggja fram aðrar og betri lausnir á þeim málum sem fjallað er um.

Múrinn er ekki hrifinn af stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. Með reglulegu millibili birtast pistlar á Múrnum þar sem stjórnvöld eru harðlega gagnrýnd fyrir „sífeldan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu”. Þau eru iðulega sökuð um að hlusta aðeins „á hljóm klingjandi myntar” á meðan þau „reka sjúklinga út á guð og gaddinn” og ýta undir þjáningar þeirra.

Af pistlum Múrsins að dæma gera stjórnvöld þetta af einskærri illsku. En það er ekki aðeins í heilbrigðismálum sem stjórnvöld gera sig seka um illsku að mati Múrsins. Nánast allir pistlar sem birtast á Múrnum fjalla um illsku stjórnvalda, stundum íslenskra stjórnvalda en oft líka bandarískra stjórnvalda. Og eitt helsta einkenni þessara pistla er að þær setja aldrei fram tillögur um aðrar og betri lausnir á þeim málum sem fjallað er um.

Þvert á það sem lesa má út úr pistlum Múrsins hafa útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi aukist hröðum skrefum. Raunar hafa þau aukist hraðar en þjóðarframleiðsla á síðustu tíu árum, og það þrátt fyrir góðan hagvöxt.

En þetta er einmitt kjarni þess vanda sem leiðir til þess að stjórnvöld hafa á undanförnum árum verið að leita leiða til þess að spara innan heilbrigðisgeirans. Það gengur vitaskuld ekki til lengdar að útgjöld til heilbrigðismála aukist hraðar en þjóðarframleiðsla. (Við getum jú ekki eytt meiru en við öflum.) Þess vegna er ekki hjá því komist að stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum snúist að miklu leyti um aðferðir til þess að lækka vöxt heilbrigðisútgjalda þannig að hann samrýmist vexti þjóðarframleiðslu þegar til lengri tíma er litið.

Þrátt fyrir að hafa eytt ófáum orðum í að skamma stjórnvöld fyrir vonsku hafa Múrverjar aldrei lagt fram hugmyndir um annars konar stefnu. Stefnu sem uppfyllir tvö skilyrði. Annars vegar að veita öllum landsmönnum fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Og hins vegar að heilbrigðisútgjöld éti ekki upp stærri og stærri hluta af landsframleiðslu þar til ekkert er eftir til þess að borga fyrir aðra hluti, svo sem menntakerfi.

Það verður að teljast nokkuð lítilmannleg aðferðafræði í þjóðfélagsumræðum að skammast bara út í hugmyndir og aðgerðir annarra án þess að leggja neitt til í staðinn. En það hefur sína kosti. Þá er maður að minnsta kosti ekki gagnrýndur fyrir að setja fram heimskulegar hugmyndir.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.