Kæst pólitísk staða

Framsóknarmenn og Vinstrigænir, ásamt Samfylkingarmönnum, eru þessa dagana að setja á svið sína eigin uppfærslu af hinu klassíska ævintýri um Frankenstein. Atburðarásin dregur upp skýra mynd fyrir áhorfendum af vinstristjórninni sem nú er boðað að taki við eftir næstu kosningar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur óumdeilanlega mjög sterka stöðu sem stjórnmálamaður. Hún er vinsæl meðal kjósenda og nýtur mikils álits meðal samherja og fram til þessa óttablandinnar virðingar í röðum flestra andstæðinga sinna.

En hverju á hún þessa sterku stöðu sína að þakka? Því má ekki gleyma að lengst af pólitískum ferli sínum var Ingibjörg Sólrún áhrifalaus mussukerling í Kvennalistanum. Fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins og forvera Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, auk þeirra flokka sem síðar mynduðu Samfylkinguna, var Ingibjörg Sólrún sett á stall, teflt fram í forystu gegn Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.

Hún á því hina sterku pólitísku stöðu sína Framsóknarflokknum og Vinstrigrænum að þakka, að verulegu leyti. Því hefur verið fleygt að R-listinn væri ekkert án Ingibjargar Sólrúnar, að hún sé sameiningartáknið og að borgarbúar hefðu aldrei kosið bandalag þessara flokka án Ingibjargar. Vissulega er margt til í því, en það hefur algjörlega gleymst í þessari umræðu að Ingibjörg Sólrún hefði aldrei orðið neinn bógur í íslenskri pólitík nema fyrir tilkomu R-listans.

Henni var lyft á stall af framsóknarmönnum og vinstrigrænum og af þessum stalli ætlar hún sér nú að herja á þessa flokka um fylgi á vinstrivæng og miðju íslenskra stjórnmála. Þetta er hin grátbroslega staða Framsóknarflokksins í málinu. Eins og Frankenstein bjuggu þeir til „skrýmsli“ sem þeir ráða ekki við og ógnar nú tilveru þeirra í höfuðborginni og þingsæti sjálfs formannsins.

Hitt er svo annað mál, sem einungis framtíðin getur leitt í ljós, hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir haldi pólitískum styrk sínum nú þegar hún hefur bundið trúss sitt algjörlega Samfylkingunni og stungið samstarfsmenn sína og trúnaðarmenn rýtingi í bakið. Það er ekki góður upphafsleikur fyrir forsætisráðherraefnið í þriggja flokka vinstristjórn Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og VG.

Eitt er þó víst, að ekki myndi skorta umfjöllunarefni á Deiglunni eða öðrum fjölmiðlum með þau saman í ríkisstjórn; Ingibjörgu, Steingrím, Össur, Halldór og Jóhönnu…

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.