Hátíð í bæ – Af Andrési utangátta og Jóni á Völlunum

Skilst að Pottasleikir hafi komið til byggða í nótt. Þá eru víst níu dagar til jóla. Tíminn líður hratt, manni finnst maður vera nýbúinn að pakka niður jólaseríunum frá því í fyrra þegar fyrstu jólalögin fara að óma úr viðtækjunum í bílnum á leið í vinnuna. Létt níutíuogsexkommasjö hefur spilað jólalög stanslaust allan mánuðinn. Ekkert vont um það að segja, maður hefur val, ef maður telur sig þurfa að setja smá kraft í jólaskapið er gott að stilla á þá léttu og ganga að jólalögunum vísum.

Það er með jólalögin eins og svo margt annað að þau eru oft á tíðum ákaflega undarleg og allt að því torskilin. Ég man það að þegar maður var yngri botnaði maður oft ekki neitt í því sem maður söng um jólin. Ekki get ég nú sagt að það hafi runnið upp fyrir manni ljós svona eftir að hafa elst og vitkast, ja allavega elst. Margt sem er sungið um í íslenskum jólalögum, gömlum sem nýjum, er mér enn framandi.

Hver man ekki eftir Andrési, sem stóð utangátta því það átti að færa hann tröllunum en jólabjöllurnar í Hólakirkju björguðu honum? Sveitungur hans Jón á Völlunum hefur víst verið þekktur fyrir það um gjörvalla sveitina að vera manna fyrstur í rúmið á hverju kvöldi. Allavega hlýtur að vera ástæða fyrir því að það þótti svo merkilegt að jólasveinarnir hafi farið að hátta í fyrrakvöld “á undan Jóni á Völlunum”. Já, svo breðgast krosstré sem önnur tré þegar Jón á Völlunum er annars vegar.

Kannan sem stóð uppi á stól var mér lengi hulin ráðgáta. Krakkarnir og fóstrurnar á leikskóla í Kópavogi hafa þó leyst þessa dularfullu ráðgátu á glæsilegan máta. Í stað þess að kannan standi uppi á stól að þá er staðið uppi á hól og kannað. Það hefði sparað mér margar andvökunæturnar að hafa svo úrræðagóðar fóstrur þegar ég var á Seljaborg.

“Gekk ég yfir sjó og land…”, var ávallt sungið á jólatrésskemmtunum og er víst enn. Litíð kvæði um víðförula persónu sem kynntist ýmsu furðulegu fólki á ferðalögum sínum: ungum sem öldnum, klappandi og stappandi, hlæjandi og grátandi og svo fram eftir götunum. Af hverju þetta kvæði var einungis sungið á jólunum veit ég ekki enn og mun líklega aldrei komast að því.

Hátíð í bæ skýrir okkur frá því að ungir drengir fái bók að lesa en stúlkurnar nál og tvinna. Svipaða sögu má segja af “Nú skal segja” þar sem stúlkur vagga brúðu og konur prjóna sokka en drengir sparka í bolta og karlar taka í nefið. Kynjahlutverkin eru mótuð snemma og rækilega útskýrð á jólunum!

Textinn í nýrri jólalögum er sjaldnast skynsamlegri en í þessum gömlu perlum íslenskra jólalaga og oft á tíðum mistekst að koma manni í rétta jólaskapið. Helgi Björnsson kyrjar þessa dagana: “Ef ég nenni…”. Jólaandinn hefur gjörsamlega orðið útundan í því laginu. Maður getur ímyndað sér þennan ágæta mann sem sungið er um og nennir engu fyrir jólin. “Jæja, elskan eigum við að fara að versla gjafir handa krökkunum?”. “Ef ég nenni…”, svarar hann um hæl.

Það er hátíð í bæ, hana fáum við ekki flúið. Öll eigum við okkar sérstaka atvik sem kemur okkur í rétta jólaskapið, hvort sem það er e-ð sérstakt jólalag, jólasnjórinn eða lyktin af hangikjötinu í eldhúsinu heima. Ég vona allavega að allir Deiglulesendur finni rétta skapið, eigi gleðileg jól og noti tækifærið til að gleðja sjálfa sig og aðra…þ.e.a.s. ef þeir nenna!

E.s. hvar ætli Pottasleikir og bræður hans gisti þegar þeir eru í bænum? Hótel Sögu kannski?

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)