Er allt leyfilegt – er allt fréttnæmt?

Fyrr í mánuðinum kom út bók eftir Boga Þór Siguroddsson, fyrrum forstjóra Húsasmiðjunnar. Í bókinni fer Bogi hörðum orðum um núverandi eigendur Húsasmiðjunnar og vegur að mjög að mannorði þeirra og orðspori. Augljóst er að miklar tilfinningar liggja þarna að baki en er rétt hjá fjölmiðlum að veita ásökunum Boga slíka athygli?

Í leiðara Fréttablaðsins í morgun fjallar Gunnar Smári Egilsson um þá afstöðu sína að skoðun einstaklings á mönnum og málefnum gæti ekki eitt og sér talist fréttnæmt efni. Tilefni umræðunnar er sú mikla fjölmiðlaumfjöllun sem bók Boga , fyrrum forstjóra Húsasmiðjunnar, hefur vakið. Bókin, Fjandsamleg yfirtaka, er skrifuð í kjölfar þess að Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, keyptu fyrirtækið síðastliðið sumar.

Bogi Þór, sem virðist vera ákaflega minnugur, hefur sett inn langa kafla úr símtölum við Árna innan gæsalappa – í beina ræðu. Sú vinnubrögð hljóta að vekja nokkra furðu þess sem bókina les – a.m.k. hefði maður haldið að vanir blaðamenn gerðu sér umsvifalaust grein fyrir því hversu óvarlega þar væri farið. Þrátt fyrir þetta hafa kaflar úr bókinni verði endurbirtir í dagblöðum og bókin orðin mikið tilefni til fjölmiðlaumræðu þar sem Bogi Þór hefur fengið færi til þess að gera Árna Hauksson að sérstökum merkisbera óheiðarlegra viðskiptahátta í íslensku viðskiptalífi.

Hinir nýju eigendur hafa hins vegar setið hljóðir undir þungum ásökunum og einungis sent frá sér stutta tilkynningu þar sem þeir segjast ekki vilja ræða efnisþætti málsins þar sem þeir telji að þar sé um persónuleg málefni – þ.e. fjárhagsstöðu Boga Þórs sjálfs. Sé það raunin að fjárhagsstaða forstjórans fyrrverandi sé með þeim hætti þá nægir það eitt og sér að mestu til þess að útskýra af hverju það hefur vart komið til greina hjá lánastofnunum að hafa hann með í yfirtökunni á Húsasmiðjunni.

Það er vitað mál að þegar stjórnendur kaupa fyrirtæki í krafti lánsfjár þá verða hagsmunir lánastofnunarinnar mjög líkir hagsmunum eiganda fyrirtækis. Lánastofnunin hefur veð í keyptu eigninni en fjárhagslegt bolmagn eigendanna sjálfra er í flestum tilfellum langt frá því að geta staðið undir endurgreiðslu lánsins nema ef rekstur fyrirtækisins gengur vel – þ.e. fjármálastofnunin er að veita einstaklingum, færi á því að reka viðkomandi fyrirtæki í því trausti að reksturinn verði með þeim hætti að hægt sé að standa fullkomlega skil á endurgreiðslu lánsins. Til þess að bankastofnunin geti leyft sér að styðja skuldsetta stjórnendayfirtöku á eigninni þarf að skoða ýmsa áhættuþætti og ljóst er að frammistaða í starfi vegur þar mjög þungt. Einnig er þó nauðsynlegt að meta ýmsa áhættuþætti t.d. fjárhagsstöðu viðkomandi einstaklings.

Ef stjórnandinn á við mikla fjárhagslega erfiðleika að glíma þá er ljóst að hvatar hans geta verið skekktir og slíkt hefur tilhneigingu til þess að brengla dómgreind stjórnandans þ.a. þeir snúist fremur um hagsmuni eigandans heldur en fyrirtækisins sjálfs. Þótt ekki sé hægt að segja mikið við slíku ef félag er í 100% eigu einstaklings þá er augljóst að bankastofnun sem hefur veð í fyrirtækjarekstrinum getur ekki sætt sig við slíka áhættu, jafnvel þótt um farsælan stjórnanda sé að ræða.

Svo virðist sem sagan um söluna á Húsasmiðjunni sé ósköp venjuleg saga um mannlegan harmleik. Ekkert er við því að segja að fyrrverandi forstjóri félagsins hafi verið skúffaður og vonsvikinn yfir því að fá ekki tækifæri til þess að taka þátt í kaupunum á fyrirtækinu og vera má að tildrög málsins hafi verið þau að ekki hafi allir aðilar verið fullkomlega hreinskilnir, enda gjarnan um viðkvæm mál að ræða sem menn veigra fyrir sér að “konfrontera” félaga sína með.

Það er auðvelt að skrifa bók og segja frá einni hlið máls og fella gildisdóma um hina og þessa menn. Enga sérstaka hæfileika þarf til þess. Í raun getur hver sem er sest niður og skrifað níð um aðra án mikillar fyrirhafnar. En það er mikilvægt að fjölmiðlar og aðrir átti sig á því að oft geta það verið tilfinningar og biturð sem þar ráða för – en alls ekki yfirvegun og óhlutdrægt mat á atburðum.

Sú mikla athygli sem bók Boga hefur fengið helgast m.a. af því að á undanförnu hefur farið fram mikil og þörf umræða um siðferði í viðskiptalífinu. Fyrir þá sem ekki þekkja til málanna kann svo að hafa virst sem þessi bók væri “enn ein staðfestingin” á því hvers konar skítasiðferði þar væri ríkjandi. Var má að ýmsum fjölmiðlamönnum hafi þótt bókin kærkomið innlegg í þessa umræðu og því ekki beitt jafn gagnrýnum vinnubrögðum og eðlilegt væri.

Hið mikla vald stórra fjölmiðla er vandmeðfarið. Með því að veita fyrrum forstjóra Húsasmiðjunnar stór viðtöl og fjalla ítarlega um bók hans hafa fjölmiðlar tryggt að það fyrsta sem flest venjulegt fólk heyrir um nýjan forstjóra Húsasmiðjunnar sé að hann sé ómerkilegur skúrkur. Það kann að vera erfitt fyrir hann að hrista það orðspor af sér meðal almennings þótt aðilar viðskiptalífsins hafi fengið tækifæri til þess að móta sér skoðun á honum bæði á undan og á eftir og miðað við það traust sem honum hefur verið sýnt þá er líklegt að flestir taki orð hans trúanleg og telji hann líklegan til að skila góðum árangri.

Vera má að menn hafi ekki haft hugrekki til þess að segja hlutina umbúðarlaust við fyrrverandi forstjóra í aðdraganda kaupanna á Húsasmiðjunni. En frjáls viðskipti, rétt eins og frjáls vísindi, virka einmitt best þegar menn eru metnir að verðleikum sínum, deila án þess að persónugera hlutina, og gefa öllum réttar og sannar upplýsingar um raunverulega stöðu mála, draga hvergi undan og tala um óþægilegu málin rétt eins og þau þægilegu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.