Innrásarplön í áskrift

Af einhverjum ástæðum virðist dagblaðið New York Times vera komið með svo góðan aðgang að leyniskjölum innan Pentagon að hernaðaráætlanir Bandaríkjamanna eru vart orðnar til á pappír fyrr en búið er að birta þær heimsbyggðinni í stórblaðinu. Þetta hefur nú gerst tvisvar varðandi innrásaráform í Írak.

Af einhverjum ástæðum virðist dagblaðið New York Times vera komið með svo góðan aðgang að leyniskjölum innan Pentagon að hernaðaráætlanir Bandaríkjamanna eru vart orðnar til á pappír fyrr en búið er að birta þær heimsbyggðinni í stórblaðinu. Þetta hefur nú gerst tvisvar varðandi innrásaráform í Írak.

Það, að leka viðkvæmum hernaðaráætlunum til fjölmiðla telst að líkindum jaðra við landráð og undir venjulegum kringumstæðum væru fjölmiðlar mjög ragir við að birta slíkar upplýsingar af ótta við að stefna þjóðaröryggi í hættu. En miðað við atburði síðustu mánuða þá mætti halda að það sé hreinleg hægt að panta hernaðaráform öflugast herveldis heims í áskrift.

Það sem vekur athygli við þennan leka er því hversu mikla áhættu menn virðast vera tilbúnir til þess að taka til að koma í veg fyrir þessa margumræddu innrás Bandaríkjanna í Írak eða a.m.k. að tefja fyrir henni. Þarna virðast einhverjir starfsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins vera tilbúnir til þess að fórna sjálfum sér og starfsframa sínum til þess að koma í veg fyrir að þessi áform nái fram að ganga. Og víst er að margir eru á sömu skoðun.

Það virðist vera forseta Bandaríkjanna mikið kappsmál að fá tækifæri til þess að ráðast inn í Írak og ljúka því verki sem faðir hans, 41. forseti Bandaríkjamanna, hóf. Stuðningur við áformin á alþjóðlegum vettvangi er þó ákaflega takmarkaður sem bendir til þess að aðrir þjóðarleiðtogar sjái ekki að það sé nauðsynlegt að leggja út í slíkt hættuspil. Yfirlýst markmið aðgerðanna er að koma Saddam Hussein frá völdum ásamt því að koma í veg fyrir möguleika Íraks á að þróa gereyðingarvopn en ekki þarf að hafa fjörugt ímyndunarafl til þess að sjá að komandi þingkosningar í Bandaríkjunum spila einnig nokkra rullu í ákvörðunartökunni.

En þótt innrásaráform Bandaríkjamanna virðist háskaleg og þá er nauðsynlegt að horfast í augu við þá staðreynd að Írak hefur ekki staðið við uppgjafarskilmála sína frá því eftir Flóabardaga. Það er ekki með nokkru móti hægt að láta þjóð, sem ræðst á nágrannaríki sitt, komast upp með að uppfylla ekki uppgjafarskilmála sína og stundum getur verið réttlætanlegt að beita hervaldi til þess að tryggja að svo verði. Hins vegar hlýtur það að valda miklum áhyggjum hversu erfiðlega Bandaríkjaforseta tekst að fá aðrar þjóðir til liðs við sig í aðgerðum gegn Írak því ef fram fer sem horfir þá mun þetta mál hugsanlega eyðileggja þá samastöðu sem ríkt hefur um aðgerðir gegn hryðjuverkum í heiminum.

Ef Bandaríkjamenn taka einhliða ákvörðun um innrás í Írak má reikna með að önnur ríki sjái sig ekki lengur knúin til þess að fylgja Bandaríkjamönnum að máli varðandi málefni annarra landa. Innrásin yrði vafalaust mjög erfið og óhætt er að fullyrða að mannfall í röðum Íraka yrði skelfilegt og ólíklegt er að um verði að ræða hefðbundið “tölvuleikjastríð” eins og Bandaríkjamenn hafa verið að há á síðustu árum. Innrás í Írak myndi krefjast stórs landhers og bardagar um einstaka hernaðarlega mikilvæga staði gætu útheimt töluvert mannfall í röðum Bandaríkjamanna. Slíkt hafa allir Bandaríkjaforsetar viljað forðast því þótt bandaríska þjóðin virðist alltaf hrifin af stríðsátökum þá er þolinmæði hennar gagnvart mannfalli í eigin röðum ákaflega takmörkuð.

Vera má að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi vísvitandi lekið upplýsingum um hugsanlegar hernaðaraðgerðir sínar í Írak til þess annars vegar að láta stjórnvöld þar vita að þeim sé full alvara, og knýja þá til að verða við kröfum um að hleypa vopnaeftirlitsmönnum inn í landið, og hins vegar að senda þeim fölsk skilaboð um hvað standi raunverulega til. Í öllu falli hlýtur það að teljast ólíklegt að stjórnvöld í Bandaríkjunum ætli sér í raun og veru að senda fleiri hundruð þúsund hermenn yfir hnöttinn til þess að berjast í löngu og erfiðu skærustríði – og það allt í andstöðu við allar helstu bandalagsþjóðir sínar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)