Skiptir kynferði máli?

Pistillinn fjallar um nýlegt álit kærunefndar jafnréttismála þar sem kemur fram að atvinnurekendur skuli hafa kynferði umsækjenda sérstaklega í huga. Upphaflega snerist jafnréttisbaráttan fyrst og fremst um það að kynferði ætti ekki að skipta máli, hvorki við ráðningu í störf né á öðrum sviðum.

Nýlegt álit kærunefndar jafnréttismála hefur vakið töluverða athygli. Í því komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að 24. gr. jafnréttislaga, sem kveður á um að óheimilt sé að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis, hefði verið brotin. Kærunefndin bar saman menntun og reynslu þess umsækjanda sem fékk starfið og þess sem kærði, og komst að þeirri niðurstöðu að sá síðarnefndi hefði haft meiri menntun. Þar af leiðandi þurfti atvinnurekandinn að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans og að mati kærunefndar tókst honum það ekki.

Við þessa aðferðarfræði kærunefndarinnar er margt athugunarvert. Það hlýtur að vera atvinnurekandans að meta hvaða umsækjandi henti best í tiltekið starf, enda er það ótvírætt hans hagur að ráða hæfasta einstaklinginn. Kærunefnd jafnréttismála hefur engar forsendur til að meta hver umsækjenda sé hæfastur í tiltekið starf, enda skiptir margt annað máli við ráðningu en menntun og reynsla viðkomandi.

Alvarlegast er þó að á meðan atvinnurekandinn þarf að sanna að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans um ráðningu, ræður kynferði niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Í mörgum álitsgerðum kærunefndarinnar kemur fram að ef umsækjendur teljast jafnhæfir að mati nefndarinnar og á starfssviðinu eru fleiri karlar en konur, eigi að ráða konuna. Í ofangreindu áliti var m.a. vísað í 13. gr. jafnréttislaganna sem kveður á um að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar.

Í álitsgerðum kærunefndarinnar kemur þannig skýrt fram að við ráðningu í starf skuli atvinnurekendur hafa kynferði umsækjenda sérstaklega í huga. Upphaflega snerist jafnréttisbaráttan fyrst og fremst um það að kynferði ætti ekki að skipta máli, hvorki við ráðningu í störf né á öðrum sviðum. Hugmyndin um jákvæða mismunun, og ákvæði á borð við 13. gr. jafnréttislaga gengur þvert á þá stefnu.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)