Undurfagra ævintýr

Verslunarmannahelgin er gengin í garð. Fólk hópast úr hinu hefðbundna þéttbýli og býr til tjaldborgir um allt land. Ætli Byggðastofnun sé ekki æst í að fá uppskriftina?

Vitleysan er hafin, verslunarmannahelgin er að renna úr hlaði. Landsmenn tryllast og finna hjá sér óstjórnlega þörf fyrir að fara út fyrir bæjar- eða borgarmörkin. Bara að fara eitthvert.

Útihátíðirnar sívinsælu eru ekki eins áberandi og í fyrra, enda er samkeppnin minni. Þjóðhátíð í Eyjum hefur líklega vinningin eins og flest fyrri ár, en allar ferðir til og frá Vestmannaeyjum voru pantaðar frá síðastliðnum miðvikudegi til næsta miðvikudags. Því er hugsanlegt að í Herjólfsdal verði yfir 10.000 manns um helgina, en það þykir mikill fjöldi á Þjóðhátíð.

Í Galtalæk verður sem fyrr útihátíð bindindismanna, af umræðunni að dæma virðist sem einhver stefnubreyting hafi orðið þar og hátíðin verði með rakara móti en oftast áður. Minni áhersla verði lögð á leit að áfengi og ekki amast við hófdrykkju. Þar verður því vonandi höfðað til skynseminnar, enda er það vænlegri leið til árangurs en boð, bönn og eignaupptaka, ef markmiðið er heilbrigt líferni.

Það er líklegt að alls staðar þar sem hægt er að reka niður tjaldhæl verði fólk, gítarar og gleði um þessa margrómuðu helgi. Þessar samkomur og landflutningar hafa líka neikvæðar hliðar. Slys, pústrar, innbrot og ofbeldi eru í farteskinu, þótt enginn kannist við að hafa pakkað slíku í bakpokann sinn. Það er því mikilvægt að við drögum andann djúpt og flýtum okkur hægt í umferðinni og sýnum tillitssemi í hvívetna.

Fyrir hönd ritstjórnar Deiglunnar óska ég lesendum gleðilegrar Þjóðhátíðar og góðrar skemmtunar um helgina. Sjáumst í Dalnum.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)