Grafarþögn úr geimnum

Næstu helgi er 27 ára afmæli fyrstu og einu skilaboðanna sem beint hefur verið sérstaklega að lífverum á öðrum hnöttum. Þessi skilaboð (sem sjást á meðfylgjandi mynd) virðast þó ekki hafa vakið mikla athygli meðal geimbúa. Ekkert svar hefur borist við skilaboðunum og raunar hefur ekki heyrst svo mikið sem stuna frá vitsmunalífi í geimnum allan þennan tíma.

Fyrr á þessu ári gerði pistlahöfundur að umfjöllunarefni sínu undarlegan fréttaflutning af loftsteinum, nefnilega þær fjölmörgu fréttir sem fluttar voru af því að ákveðnir loftsteinar rækjust ekki á jörðina. Það kann að virðast undarlegt að sami pistlahöfundur kjósi nú að fjalla um þá staðreynd að þeir sem hlusta eftir skilaboðum frá vitsmunalífi í geimnum hafi ekkert heyrt. Sú er þó raunin enda gefur þögnin athyglisverðar vísbendingar.

Það kemur reyndar fáum á óvart að ekkert svar hafi borist við skilaboðunum sem send voru frá Aricebo útvarpssjónaukanum fyrir 27 árum. Skilaboðin voru send víð vígslu þessa stærsta útvarpssjónauka í heimi og voru aðallega táknræn.

Þessi sjónauki, sem og aðrir, hafa hinsvegar verið notaðir síðan þá til að hlusta eftir skilaboðum frá utan úr geimnum, með sívaxandi næmni. Ef einhver hefði sent okkur sambærileg skilaboð gætum við hæglega tekið á móti þeim. Einnig myndum við nema þau merki sem stafa frá slíkum útvarpssjónaukum við venjulega notkun, jafnvel þótt vísindamenn fjarlægra hnatta væru ekki sérstaklega að senda skilaboð til okkar. Nákvæmnin eykst stöðugt og brátt verður svo komið að við munum geta greint þær útvarpsbylgjur sem berast við hefðbundin útvarpssamskipti íbúa annarra hnatta.

Þar til fyrir nokkrum árum þýddi þögnin lítið, enda hafði útvarpssjónaukum aðeins verið beint að örfáum stjörnum í þessum tilgangi. Á síðustu árum hefur yfirferðin aukist til muna og nú hefur stórt hlutfall himingeimsins verið skoðaður í þeim tilgangi að hlusta eftir slíku lífi. Þetta þýðir að ef ekki finnast merki um vitsmunalíf í náinni framtíð munum við geta sagt með talsverðri vissu að vitsmunalíf, að minnsta kosti í þeirri mynd sem við þekkjum það, fyrirfinnist ekki á öðrum hnöttum í vetrarbrautinni okkar. Og það setur vísindamenn í sérstaka stöðu.

Það er óhætt að segja að þótt nánast allir vísindamenn séu vantrúaðir á heimsóknir geimvera til jarðar, trúi því flestir að viti bornar geimverur fyrirfinnist. Það er nútímavísindamönnum jafn fjarstæðukennt að maðurinn sé á nokkurn hátt einstakur í þessum alheimi og það var miðaldaklerkum augljóst. Líkön hafa verið sett upp til að reyna að áætla hversu oft vitsmunalíf kemst á legg og þótt þau séu ónákvæm þá benda þau sterklega til þess að slík samfélög hafi orðið til á aragrúa stjarna.

Ef í ljós kemur að önnur slík samfélög fyrirfinnast ekki má skýra það með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi gæti verið að líkurnar á vitsmunalífi séu langtum minni en við höldum. Við gætum verið afbrigðileg undantekning frá lífvana plánetum allt í kring, ein í heiminum. Slík útskýring á þó lítt upp á pallborðið hjá þeim sem velta þessum málum fyrir sér, enda bendir fjölbreytileiki lífríkisins á jörðinni til þess að líf geti þróast og dafnað við mjög margvíslegar aðstæður.

Önnur skýring gæti verið að viti bornar verur hefðu ekki áhuga á að láta í sér heyra, og gripu beinlínis til aðgerða til að koma í veg fyrir að við fyndum þær. Ekki er auðvelt að ímynda sér hvers vegna þær ættu að vilja það, og í miklu ósamræmi við það hvernig við sjálf hegðum okkur. Það fyrsta sem við gerðum eftir að við höfðum náð valdi á tækninni var einmitt að senda skilaboð gagngert til þeirra sem kynnu að vera að hlusta. Viljinn til að kanna hið ókunna er manninum eðlislægur og ætti sú einnig að vera raunin hjá öðrum viti bornum verum sem þróast hefðu á svipaðan hátt.

Þriðja skýringin er sú sem auðveldast er að fallast á fyrir vísindamann, en því miður sú óskemmtilegasta. Samkvæmt þeirri skýringu hefur vitsmunalíf orðið til oft og mörgum sinnum út um allan alheiminn, og lífverurnar hafa mikla könnunarþörf rétt eins og við. Ástæðan fyrir því að við heyrum ekki í þeim er sú að vitsmunalíf er óstöðugt ástand. Ef viti bornar tegundir eyða sjálfum sér að jafnaði á nokkrum þúsundum ára eftir að þær ná valdi á útvarpsbylgjum, gæti slíkt líf kviknað tiltölulega ört, en samt væri að jafnaði aðeins einn hnöttur í byggð í einu.

Ef þetta er tilfellið er ljóst að lítil ástæða er til að óttast að skilaboð utan úr geimnum séu forboði innrásar lítilla grænna karla. Miklu meiri ástæða er að óttast áframhaldandi þögn, enda eru þær ályktanir sem draga mætti af því ekki uppbyggilegar fyrir þá tegund lífvera sem nú ræður ríkjum á bláa hnettinum.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)