Sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Vinstrisveifla og óbreyttur mannskapur hjá Samfylkingunni í Reykjavík opnar mikla sóknarmöguleika fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi þingkosningum. Formaður Samfylkingarinar fer sem fyrr hamförum í heilaspuna þegar hann túlkar niðurstöðu prófkjörsins.

Engin endurnýjun verður í þingmannahópi Samfylkingarinnar í Reykjavík í næstu alþingiskosningum. Þetta er helsta niðurstaða þess prófkjörs sem Samfylkingin efndi til um síðustu helgi. Önnur helsta niðurstaðan er sú að Össur Skarphéðinsson nýtur einungis stuðnings rétt ríflega helmings flokksmanna í Reykjavík til að gegna þar forystuhlutverki.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu var Össur Skarphéðinsson afar hróðugur í fjölmiðlum að prófkjörinu loknu. Hann túlkaði úrslitin sem afdráttarlausa traustsyfirlýsingu við störf þingflokksins. Afdráttarlausa traustsyfirlýsingu, það var nefnilega það…

Ekki eru nema nokkrar vikur síðan Össur sjálfur gaf þingflokknum einkunn og það var aldeilis traustsyfirlýsing. Í september lét Össur hafa það eftir sé að verulegrar endurnýjunar væri þörf á þingflokki Samfylkingarnnar. Þetta gerði hann eftir að ljóst var að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gæfi ekki kost á sér í framboð.

Ef túlka má niðurstöðu prófkjörsins sem traustsyfirlýsingu til þingflokks Samfylkingarinnar, þá er ekki annað hægt en að túlka frómar óskir Össurar um endurnýjun sem vantraust á þingmenn flokksins – þá hina sömu og verða í framboði fyrir Samfylkinguna næsta vor. En Össur situr nú uppi með sömu áhöfn og fyrir fjórum árum – og það verður auðvitað hver að fljúga eins og hann er fiðrður – líka vindhanar.

Eins og fjallað var um í fréttaskýringu hér á Deiglunni sl. sunnudag má ljóst vera, að veruleg vinstrislagsíða er komin á framboð Samfylkingarinnar í Reykjavík eftir prófkjörið um síðustu helgi.

Þeir frambjóðendur sem settu hefðbundna félagshyggjupólitík á oddinn í prófkjörinu gekk best en hinum sem vildu færa Samfylkinguna nær miðju var algjörlega hafnað.

Að mínu viti gefur þetta Sjálfstæðisflokknum mikil sóknartækifæri, enda ekki aðrir valkostir í boði fyrir frjálslynt fólk sem aðhyllist markaðslausnir og frelsi einstaklingsins. Hinn hægrisinnaði krataflokkur Jóns Baldvins, sem ýmsir á hægrivæng stjórnmálanna litu hýru auga til, er nú formlega komin undir græna þúfu.

Félagshyggjuflokkarnir tveir munu bítast um sama fylgið í komandi kosningum og hrópa velferðarslagorðin hver í kapp við annan. Ef Sjálfstæðisflokkurinn heldur rétt á sínum spilum gæti hann átt von á hagstæðum úrslitum í Reykjavík í vor.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.