Rangláti ritdómarinn

Úlfhildur Dagsdóttir er ekki par hrifin af nýjustu bók Mikaels Torfasonar. Og sennilega er hún ekki sérlega hrifin af Mikael sjálfum – a.m.k. er víst að Mikael er ekki hrifinn af Úlfhildi og hefur ekki farið dult með þá skoðun sína að Úlfhildur sé „vitleysingur og kjáni.“ Það er mikill hasar í bókmenntaheiminum.

Það var ekki laust við að það færi hrollur um mann fyrir framan sjónvarpið í síðustu viku þegar Úlfhildur Dagsdóttir tilkynnti í Kastljósi að hún ætlaði að gagnrýna nýjustu bók Mikaels Torfasonar í þættinum.

Úlfhildur hefur nefnilega átt í töluverðum útistöðum við Mikael á síðustu vikum. Deila þeirra hefur að mestu leyti farið fram á vefritinu kistan.is en hún hefur einnig náð að rata á síður dagblaða. Kistan.is er uppskrúfað hámenningarlegt vefrit sem byggist aðallega á umfjöllunum og gagnrýni sem kemur inn á flest svið menningar og lista. Deilan hófst með því að Mikael kallaði Úlfhildi m.a. vitleysing og kjána í viðtali við sjálfan sig á vefritinu. Í kjölfarið urðu töluverð skoðanaskipti um þessi ummæli sem enduðu með því að öllum ummerkjum um tjáskiptin var eytt þannig nú er fátt á kistan.is sem bendir til þess að þetta atvik hafi átt sér stað.

Í ljósi deilnanna var mjög furðulegt að hlusta á ritdóm Úlfhildar um bókina þar sem hún sat ásamt Evu Maríu og fann bókinni gjörsamlega allt til foráttu. Þetta var svona svipuð stemming eins og ef Jón Ólafsson hefði verið fenginn til að gagnrýna nýja bók eftir Hannes Hólmstein Gissurarson.

Á síðustu árum hafa miklar framfarið orðið varðandi hæfi og hæfisskilyrði. Það þykir nú sjálfsögð krafa á flestum sviðum þjóðfélagsins að menn segi sig frá máli ef þeir eru tengdir því persónulega. Þetta viðhorf bergmálar út um allt og menn virðast margir hverjir vera orðnir mjög meðvitaðir um eigin stöðu og vera á verði gagnvart hugsanlegu vanhæfi.

Fulltrúi og gagnrýnandi vefritsins kistan.is hefur haldið því fram að það hafi verið rétt hjá Úlfhildi að gagnrýna bókina þrátt fyrir vanhæfið þar sem annars væri verið að opna á það að rithöfundar gagnrýndu ritdómara til að gera þá vanhæfa og koma þeim þannig úr leik. Þetta sérkennilega sjónarmið fulltrúans gæti alveg eins átt við í stjórnsýslunni eða dómskerfinu þrátt fyrir að hagsmunirnir séu náttúrulega mun minni hjá bókmenntagagnrýnendum. Myndum við nokkurn tímann samþykkja það að dómari sem við hefðum opinberlega kallað vitleysing og kjána myndi dæma í okkar málum? Það er hætt við því að lítið yrði hlustað á þann dómara sem myndi halda ofangreindu sjónarmiði fram til að fá að dæma í máli þar sem hann væri augljóslega vanhæfur. Fyrir utan það að viðkomandi dómari væri að algjörlega að gengisfella sjálfan sig persónulega með slíkum málflutningi. Við höfum einfaldlega metið stöðuna þannig að það skipti öllu máli að menn geti verið fullvissir um það að vafasöm og ómálefnaleg sjónarmið séu ekki að þvælast fyrir við mat og niðurstöður í málum. Ef við hefðum haft þetta skemmtilega viðhorf fylgismanna Úlfhildar í stjórnsýslunni og dómskerfinu þá byggjum við líklega í bananlýðveldi í dag.

Viðhorfin sem hafa birst á síðum vefritsins kistan.is eru sérkennileg. Það er undarlegt að vefrit sem gerir út á menningargagnrýni sé ekki vandaðra en svo að innanborðs sé fólk sem telji allt í lagi að gagnrýnendur gagnrýni í tilfellum þar sem þeir eru klárlega vanhæfir. Maður hefði talið að á slíku vefriti væri fagmennska í fyrirrúmi.

Þegar menn eru sífellt að gagnrýna og dæma aðra verða þeir sífellt að vera á varðbergi gagnvart sjálfum sér. Sífelld gagnrýni á aðra getur nefnilega leitt til yfirlætis og mjög stutt er í ofmetnað. Þeir sem dæma og gagnrýna eru ekki hafnir yfir reglur og sjónarmið um vanhæfi frekar en aðrir í þessu þjóðfélagið. Að halda öðru fram er fásinna! Úlfhildur hefði einfaldlega átt að vita betur. Hinn gagnrýnandinn hjá Kastljósi hefði átt að sjá um að gagnrýna bókina. Með því að gagnrýna hana hefur hún kastað rýrð á sjálfa sig sem gagnrýnanda. Hún er ekki að gefa bókinni falleinkunn heldur sjálfri sér.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.