Einkavæðing Landsbankans í höfn

Um helgina bárust þau gleðilegu tíðindi að einkavæðing Landsbankans sé um það bil í höfn. Næsta skref í einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar er að klára sölu á Búnaðarbankanum. Ljóst er að brotthvarf ríkisvaldsins úr rekstri viðskiptabanka er í senn einhver stærsta og gleðilegasta ákvörðun sem tekin hefur verið í íslenskum stjórnmálum.

Þau tíðindi sem bárust á laugardag að samningar um sölu á hlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. væru í höfn eru mikið gleðiefni. Með þessum áfanga, sem er stærsta einkavæðing sögunnar, er stigið mikilvægt skref í þá átt að gera varanlegar og óafturkræfar breytingar á fjármálaumhverfinu í landinu – breytingar sem stuðla að frjálsari og hagkvæmari markaði, minni hættu á spillingu og bættum möguleikum fólks og fyrirtækja til þess að fá eðlilega og sanngjarna málsmeðferð innan þeirra mikilvægu stofnanna sem bankarnir eru.

Andstæðingar einkavæðingar s.s. helstu forsvarsmenn Vinstri grænna halda því gjarnan fram að einkavæðing sé andsnúin hagsmunum neytenda og þá sérstaklega þeim sem búa í smærri byggðarlögum. Þeir hafa viljað skilgreina bankastarfsemi sem samfélagsþjónustu og haft uppi efasemdir um að slíkri þjónustu sé betur borgið í höndum einkaaðila heldur en ríkisins.

Það er auðvitað hárrétt að bankaþjónusta er samfélagsþjónusta. En það er hins vegar engin röksemd fyrir því að hún eigi heima í höndum ríkisins, enda mætti með slíkum rökum færa svo gott sem alla þjónustu í hendur ríkisins. Öll sú þjónusta sem einstaklingar taka að sér að veita öðrum einstaklingum, eins og t.d. tryggingastarfsemi, rekstur smásöluverslana, bensínsala, skóviðgerðir og útleiga á myndböndum, er í eðli sínu samfélagsþjónusta – þ.e. verið er að mæta einhvers konar þörf sem er til staðar í samfélaginu.

Þjónusta viðskiptabanka er á engan hátt sérstakari eða mikilvægari en ýmis önnur þjónusta sem veitt er á markaðnum. Hagsmunum neytandans er best þjónað ef viðskiptaumhverfið er opið fyrir samkeppni og að eðlileg viðskiptasjónarmið ráði ferðinni í ákvarðanatöku fyrirtækjanna. Staðreyndin virðist vera sú að andstæðingar einkavæðingar finni alltaf einhver almannahagsmunarök gegn einkavæðingu – hvort sem þar um ræðir Landsímann eða Landsbankans – og ef til væru Skóviðgerðir ríkisins þá er víst að þjóðin hefði heyrt fjölbreytt rök um hvernig slík starfsemi gæti aldrei þrifist í einkarekstri – sérstaklega ekki úti á landi. Kjarni málsins er einfaldlega sá að deilur um einkavæðingu eru hugmyndafræðilegar. Andstæðingar hennar vilja einfaldlega auka völd stjórnmálamanna á meðan þeir sem aðhyllast einkavæðingu vilja takmarka þau.

Í kjölfar sölunnar á eignarhluta ríkisins í Landsbankanum stendur til að ríkið losi um hluti sinn í Búnaðarbankanum og eru viðræður þegar hafnar við tvo aðila um þau kaup. Ef sú sala nær fram að ganga má segja að eitthvert stærsta pólitíska þrekvirki Íslandssögunnar hafi verið unnið og ljóst að áhrifa þess gætir um allt samfélagið. Einkavæðing bankakerfisins skapar umhverfi sem er bæði einstaklingum og fyrirtækjum miklum mun hagstæðara heldur en nokkru sinni gat orðið á meðan pólitísk sjónarmið réðu mestu um ákvarðanatöku á íslenskum fjármagnsmörkuðum.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)