Fyrirsæta tapar dómsmáli

Þótt Naomi Campbell hafi það að atvinnu að láta taka og birta af sér ljósmyndir þá líkaði henni illa þegar ljósmyndari dagblaðs tók mynd af henni á leið af fundi eiturlyfjafíkla. Mál hennar er ágætt dæmi um það hversu erfitt getur verið að draga mörkin milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs.

Í febrúar árið 2001 birti blaðið Daily Mirror grein um fyrirsætuna Naomi Campbell. Greinin fjallaði um fíkniefnameðferð sem Naomi var sögð vera að gangast undir og með fylgdi mynd þar sem hún sást koma út af fundi hjá samtökum fíkniefnaneytenda.

Í kjölfar greinarinnar höfðaði Naomi mál gegn blaðinu. Hún neitaði því ekki að greinin væri í aðalatriðum sönn og viðurkenndi að hafa neytt fíkniefna svo árum skipti. Hins vegar hélt hún því fram að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs hennar, sem hún hefði rétt til að verja gegn ágangi fjölmiðlamanna. Einnig taldi hún að með umfjöllun um fíkniefnameðferðina hefðu verið birtar upplýsingar sem nytu verndar reglna um persónuvernd.

Lögmenn blaðsins báru fyrir sig að ekki giltu afdráttarlausar reglur um friðhelgi einkalífs í Bretlandi. Þeir sögðu myndina tekna á almannafæri og Naomi gæti gengið út frá því að hún þekktist hvar sem hún færi. Þeir héldu því fram að þar sem fyrirsætan hefði ítrekað haldið þvi fram í fjölmiðlum um árabil að hún neytti ekki fíkniefna, hefðu þeir rétt til að sýna fram á hið sanna í málinu með öllum tiltækum gögnum.

Niðurstaða undirréttar var sú að birting greinarinnar væri trúnaðarbrot og brot á reglum um persónuvernd. Í dómnum sagði að blaðið hefði mátt greina frá því að Naomi neytti fíkniefna og væri að leita sér meðferðar vegna þess, enda hefði almenningur rétt á því að vita hið sanna í málinu. Hins vegar hefði blaðinu ekki verið heimilt að birta myndina af henni eða greina frá atriðum sem vörðuðu meðferðina. Í dómnum sagði einnig að hin heimsfræga fyrirsæta ætti rétt á því að einkalíf hennar væri verndað, þrátt fyrir að hún nyti og nýtti sér áhuga fjölmiðla í eigin þágu.

Fyrir nokkrum dögum féll dómur áfrýjunardómstóls í málinu. Áfrýjunardómstóllinn féllst á röksemdir blaðsins og taldi að með því að segja ósatt frá í fjölmiðlum og hreykja sér af því að neyta ekki fikniefna, hefði Naomi í raun afsalað sér réttinum til verndar þeirra trúnaðarupplýsinga sem vörðuðu málið. Blaðinu hefði því verið heimilt að færa sönnur á mál sitt með þeim hætti sem það gerði.

Ljóst er að rök áfrýjunardómstólsins í þessu máli vega þungt, og vafamál hvort um ólögmæta innrás í einkalíf Naomi Campbell hafi verið að ræða í þessu tilviki. Hins vegar er ómögulegt að setja lög sem í öllum tilvikum tryggja að einstaklingar brjóti ekki á rétti hvers annars, og eru tilraunir til slíks í raun afar hættulegar. Mikilvægustu skorður sem menn setja sér í samskiptum við meðbræður sína eru venjulega ekki lagalegar heldur siðferðilegar. Blaðamenn sem eira engu í tilraunum sínum til þess að komast að og birta upplýsingar um atvik sem eingöngu snerta einkalíf fólks, brjóta vísivitandi óskráðar reglur sem í augum flestra eru síst léttvægari en þær skráðu.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)