Er einkarekstur dýrari?

Vinstrimenn hafa alltaf haft óbeit á arði fjármagnseigenda. Upp á síðkastið virðast ein af aðal rökum þeirra gegn einkarekstri vera að hann dragi úr slíkum arði. En það er að mestu misskilningur.

Allt þar til fyrir nokkrum árum varð oft uppi fótur og fit í þjóðfélaginu þegar fyrirtæki sýndu hagnað. Verkalýðsforingjar of þingmenn vinstriflokka kepptust þá um að komu fram í fjölmiðlum og hneykslast yfir „gróðanum” sem þeir töldu að bæri vott um arðrán auðvaldsins á verkalýðnum.

Í seinni tíð hefur slíkum upphlaupum sem betur fer fækkað nokkuð. Hugmyndir af svipuðum toga skjóta hins vegar enn uppi kollinum þegar rætt er um einkarekstur. Ögmundi Jónassyni er t.d. tíðrætt um að einkarekstur sé dýrari en ríkisrekstur þar sem einkaaðilar ólíkt ríkinu krefjist arðs umfram kostnað.

Svo virðist vera sem Ögmundur telji að það sé ríkinu að kostnaðarlausu að binda fé í rekstri skóla og sjúkrahúsa. Þetta er hinn versti misskilningur. Þótt fjármagnskostnaður ríkisins komi ekki fram á sama stað í fjárlögum og annar kostnaður er hann samt sem áður til staðar.

Segjum sem svo að ríkið ákveddi að selja skóla eða heilsugæslustöð til einkaaðila og fela honum reksturinn. Þá myndi ríkið vitaskuld þurfa að greiða einkaaðilanum arð fyrir að hafa bundið fé í rekstrinum, en á móti kæmi að ríkið gæti notað andvirði sölunnar til þess að greiða niður skuldir og lækka þar með vaxtakostnað sinn.

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa er því ágætis mælikvarði á fjármagnskostnað ríkisins. Samkvæmt henni hefur fjármagnskostnaður ríkisins á undanförnum árum verið 5-6% auk verðbóta. Slík ávöxtun telst alls ekki svo slæm í einkageiranum. Fjármagnskostnaður ríkisins væri því að öllum líkindum mjög svipaður hvort sem það veldi ríkisrekstur eða einkarekstur.

Rökin fyrir einkarekstri eru hins vegar að hann dragi úr öðrum kostnaði með því að veita fólki aukna hvata til hagræðingar. En meira um það síðar.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.