Kosningabaráttan hafin hjá ASÍ

Umboðsmenn alþýðunnar fara mikinn á ársfundi Starfsgreinasambandsins, berja sér á brjóst og fjölmiðlar enduróma básúnusöng um ójöfnuðinn í landinu. Það fer ekki á milli mála að kosningavetur er genginn í garð.

Ársfundur Starfsgreinasambands Íslands stendur nú sem hæst og ber fundurinn þess öll merki að kosið verður til Alþingis í vor. Ef tekið er mið af málflutning forystumanna sambandsins, þá verður ekki annað sagt en að fundurinn marki í raun upphaf kosningabaráttu verkalýðshreyfingarinnar.

Í setningarræðu sinni gagnrýndi Halldór Björnsson, formaður Starfsgreinasambandsins og varaformaður ASÍ, nýframlagt fjárlagafrumvarp harðlega og sagði það „til þess fallið að auka enn á ójöfnuð í landinu.“ Nú er það svo að við Íslendingar stöndum okkur ákaflega illa í ójöfnuði og erum reyndar mjög aftarlega á merinni þegar kemur að ójafnri skiptingu lífsgæða. Þannig er óvíða á byggðu bóli meiri jöfnuður en í íslensku samfélagi.

Svo virðist vera sem forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafi áttað sig á að ekki væri hægt að leggja í kosningavetur með fjárlagafrumvarp sem félli nær alls staðar í kramið, en fagaðilar hafa undantekningalítið hrósað fjármálafrumvarpinu, segja það ábyrgt og bera vott um langtímahugsun í ríkisfjármálum.

En aðhald og stöðugleiki í ríkisfjármálum með tilheyrandi lækkun vaxtakostnaðar fyrir skuldsett heimili, vaxandi kaupmátt og verðbólgu sem stefnir á núllið, á ekki upp á pallborðið hjá umboðsmönnum alþýðunnar. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvort bera þessir menn meiri umhyggju fyrir hag umbjóðenda sinna, launafólks í landinu, eða möguleikum Samfylkingarinnar á sigri í kosningunum í vor?

En básúnusöngurinn um ójöfnuð er ekki það eina sem heyrist frá ársfundi Starfsgreinasambandsins. Nei, nú er nefnilega í ljós komið að umboðsmenn alþýðunnar hafa með markmvissum aðgerðum komið í veg fyrir efnahagslegt hrun hér á landi og „…forðað heimilum í landinu frá tugmilljarða útgjöldum,“ ef marka má orð Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ.

Vísar Grétar þarna til þess merka framlags Alþýðusambandsins sem fólst í setningu hinna svokölluðu rauðu strika. Það er vissulega rétt hjá forystumönnum ASÍ að líklega hefði efnahagslífið farið í nokkurt uppnám ef ASÍ hefði gert alvöru úr þeim hótunum sínum að segja upp öllum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

En getum við þakkað ASÍ fyrir að hafa ekki gert alvöru úr þeirri illa ígrunduðu hótun sinni? Myndum við verðlauna brennuvarg sem hótaði að brenna húsið okkar en hætti síðan við?

Staðreyndin er nefnilega sú, að hugmyndin um rauðu strikin var mesta ógnin við stöðugleikann á þessum tíma. Hagsveiflan hafði þá sinn eðlilega gang, þökk sé markvissri breytingu á öllu efnahagsumhverfi hér á landi, og eins og komið hefur í ljós, þá náðum við ótrúlega mjúkri lendingu í efnahagsmálum og erum þegar komin á flug á ný.

Ársfundur Starfsgreinasambandsins er auðvitað ekkert annað en pólitísk leiksýning, þar sem flokkspólitískir hagsmunir eru teknir fram yfir hagsmuni meðlima sambandsins – eins og jafnan gildir því miður um verkalýðsbaráttuna almennt.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)