Forseti Evrópu

Utanríkisráðherra Breta talar um „þegna Evrópusambandsins“ í blaðagrein í Economist þar sem hann lýsir m.a. yfir stuðningi við hugmyndir um grundvallarbreytingu á embætti forseta Evrópska Ráðsins. Ljóst er að mestu áhrifavaldar Evrópu setja stefnuna á aukinn samruna og leita sér nú fordæmis í Bandaríkjunum til að auka samkenndina innan Evrópusambandsins.

Á forsíðu dagblaðsins The Financial Times sl. föstudag, var að finna frétt um að Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, íhugi nú mjög að styðja tillögu franskra og breskra ráðamanna um að komið verði á fót öflugu forsetaembætti í Evrópusambandinu. Tillagan, sem upphaflega er komin frá Chirac Frakklandsforseta, gerir ráð fyrir því að forseti Evrópska Ráðsins* verði kjörinn af þjóðarleiðtogum aðildarríkjanna og sitji í nokkur ár. Þetta kerfi myndi leysa af hólmi núverandi fyrirkomulag þar sem forsetaembættið flyst sjálfkrafa á milli aðildarríkja á sex mánaða fresti.

Hugmyndir um stofnun öflugs forsetaembættis Evrópusambandsins ættu í raun ekki að koma svo mjög á óvart og er í raun eðlilegur áfangi í þeirri þróun Evrópusambandsins úr því að vera ríkjasamband í að verða sambandsríki eins og Bandaríkin eru.

Það er áhugavert að skoða tilurð Bandaríkjanna í samhengi við þá þróun sem nú á sér stað í Evrópu. Þar var upphaflega um ríkjasamband að ræða sem á skömmum tíma þróaðist í þá átt að verða sambandsríki. Á stjórnlagaþinginu í Philadelphia sumarið 1787 var stjórnarskrá Bandaríkjanna samin. Þar var mikil áhersla lögð á skýran og skilmerkilegan aðskilnað hinna þriggja arma ríkisvaldsins, löggjafar-, dóms og framkvæmdavalds.

Meðal upphaflegra hugmynda um framkvæmdavaldið voru þær að Bandaríkjaþingi yrði falið að ráðstafa því eftir því sem hentugast þætti hverju sinni eða að nefnd skipuð af löggjafanum færi með framkvæmdavald. Í kosningu þann 4.júní komust fulltrúar að þeirri niðurstöðu að heppilegast væri að framkvæmdavaldið yrði falið einum einstaklingi og síðar var komist að niðurstöðu um að kjörmenn, jafnmargir þingmönnum fylkjanna, kysu í embættið og hefur sú tilhögun haldist síðan.

Sagt er að fulltrúar stjórnlagaþingsins hafi viljað tryggja að enginn gæti framar orðið konungur yfir fylkjum Norður-Ameríku en samtímis hafi þeir alið þá þrá í brjósti að gera George Washington að einvaldi, enda naut hann óþrjótandi trausts og aðdáunar samlanda sinna – og frá upphafi þótti ljóst að Washington yrði fyrsti handhafi framkvæmdavaldsins sama hvaða nafni það kynni að nefnast.

Deilur um eðli og umfang forsetaembættisins snérust að mestu um þann málflutning andstæðinga sambandsríkishugmyndarinnar að forsetaembættið líktist um of konungdómi og að í krafti yfirráða sinna yfir heraflanum gæti forsetinn hæglega tekið öll völd í sínar hendur. Stuðningsmenn forsetaembættins töldu hins vegar að kostirnir væru mun fleiri – forseti gæti tekið hratt og örugglega á málum, nokkuð sem nefnd gæti ekki, og að takmarkanir stjórnarskrárinnar, s.s. sá möguleiki að þingið setji forseta af, kæmu í veg fyrir að forseti misnotaði vald sitt.

Enn sem komið er hefur jafnvægi milli þings og forseta haldist í ágætu horfi og lítil hætta á valdaráni framkvæmdavaldsins skapast í Bandaríkjunum. Hins vegar hafði ákvörðun stjórnlagaþingsins um að fela einum manni, sem bæri embættisheitið forseti, framkvæmdavaldið önnur áhrif sem fáir sáu fyrir. Forsetinn varð strax frá upphafi miklu öflugra sameiningartákn hinna laustengdu ríkja Norður Ameríku en nokkurn óraði fyrir. Einn maður varð tákn Bandaríkjanna, málsvari þjóðarinnar út á við og valdamesti maður stjórnkerfsins.

Í dag er erfitt að ímynda sér Bandaríkin án forsetaembættisins. Forseti Bandaríkjanna á hverjum tíma er áhrifamesti maður veraldar, „verndari hins frjálsa heims“, eins og Kaninn segir og er enginn heimsleiðtogi jafnoki hans við hin diplómatísku samningaborð þar sem örlög heimsins eru ákveðin.

Það er ljóst að þróun Evrópusambandsins í sambandsríki er nokkuð sem stór hluti stjórnmálamanna Evrópu stefnir leynt og ljóst að. Hugmyndir um að auka vægi forseta Evrópusambandsins með því að kjósa hann til margra ára er angi af sama meiði. Þeir leiðtogar sem vilja hraða sameiningu Evrópu vita mætavel hvaða áhrif sameiningartákn á borð við forseta getur haft á hugarfar og þjóðarvitund íbúa í löndum Evrópusambandsins (eða íbúa Evrópusambandsins – ef menn svo kjósa).

Í nýjasta hefti Economist ritar Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, grein þar sem hann reifar skoðanir sínar á því hvernig stjórnarskrá Evrópusambandsins eigi að líta út. Í greininni segir m.a. um breytingu á forsetaembætti Evrópusambandsins:

Þar af leiðir að ég styð tillögu Jacques Chirac um að embætti foresta Evrópska ráðsins verði gert að fullu starfi og að hann verði valinn af þjóðarleiðtogum aðildarríkjanna og beri ábyrgð gagnvart þeim. Hann eða hún myndi gegna embættinu í nokkur ár og væri málsvari Evrópusambandsins og hefði það hlutverk að vera þegnum Evrópusambandsins innblástur.**

Viljinn er ljós. Með því að breyta og efla forsetaembættið í Evrópska Ráðinu er verið að skapa sameiningartákn Evrópu. Forsetanum verður vafalítið falið að fara með utanríkismál Evrópusambandsins og þar með er samtímis gerð tilraun til að skapa mótvægi við Bandaríkjaforseta og þjappa þegnum Evrópusambandsins saman um einn afgerandi leiðtoga.

Samkvæmt fréttum BBC og The Financial Times er uppi sterkur orðrómur um að Tony Blair muni sækjast eftir því að gegna þessu embætti en nafn Jose Maria Aznar er einnig nefnt í því sambandi. Það má öllum vera ljóst að ef til þess kemur að til verði embætti „Forseta Evrópu“ verður það á skömmum tíma valdamesta embætti álfunnar og eitt það áhrifamesta í heiminum. Ræðum forsetans yrði sjónvarpað um alla álfuna, kaupa þyrfti forsetaþotu, stofna lífvarðasveit, byggja forsetahöll og smíða sumarbústað. Og þá munu öll völd falla til Brussel, höfuðborgar Evrópu.*Sá siður var tekinn upp árinu 1974 að halda sérstaka leiðtogafundi Evrópubandalagsins og var tekið upp heitið Evrópska ráðið ( European Council) um þessa fundi . Evrópska ráðinu var svo gefin formleg staða með einingarlögunum árið 1986. Evrópska ráðið fundar yfirleitt tvisvar á ári og falla fundirnir þá saman við lok formennskutímabils hvers ríkis og eru haldnir í því. Aukafundi ber að halda eftir þörfum.

Í Evrópska ráðinu sitja æðstu stjórnmálaleiðtogar aðildarríkjanna hvort sem þeir hafa titil forsætisráðherra eða forseta. Þar situr einnig forseti framkvæmdastjórnarinnar og utanríkisráðherrar aðildarríkjanna eru þar leiðtogunum til aðstoðar.

Evrópska ráðið er fyrst og fremst vettvangur til skoðanaskipta milli leiðtoganna um ýmis pólitísk mál og þar er hægt að leysa mál, sem ekki hefur náðst niðurstaða um í ráðinu. Með sambandssáttmálanum var ráðinu einnig falið það verkefni “ að tryggja þróun Evrópusambandsins “ og þess er þar getið að evrópska ráðið skuli gefa ráð og setja leiðbeinandi reglur fyrir ráðið um stefnuna í efnahagsmálum og um sameiginlegar aðgerðir í utanríkis- og varnarmálum svo og í dóms- og innanríkismálum.

Björn Friðfinnsson, ráðuneytisstjóri: Fyrirlestrar um EES-efni. 7. fyrirlestur: Stofnanir ESB – hlutverk, skipan og starfshættir.

**I therefore support Jacques Chirac’s proposal for a full-time president of the European Council, chosen by and accountable to the heads of government. He or she would serve for several years, overseeing delivery of the Union’s strategic agenda and communicating a sense of purpose to Europe’s citizens.

The Economist 10. okt. 2002

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.