Nútímalegur lýðræðissinni vinnur glæstan sigur

Enginn lýðræðislega kjörinn leiðtogi hefur hlotið viðlíka kosningu og Saddam Hussein hlaut í forsetakosningum í Írak í síðustu viku. Það er því ljóst að stjórnmálamenn geta lært ýmislegt af þessum sigursæla foringja. Kosningasigur hans sýnir einnig fram á að nýstárlegar lýðræðisaðferðir geti hentað vel við ákveðnar aðstæður – en það er auðvitað nokkuð sem ekki þarf að segja últralýðræðissinnum í Samfylkingunni sem um þessar mundir standa fyrir póstkosningu um stefnu flokksins í Evrópumálum.

Sögulegar kosningar fóru fram í Írak í liðinni viku. Gjörvöll Íraksþjóð gekk að kjörborðinu og kaus núverandi forseta til sjö ára áframhaldandi setu í forsetastóli. Samkvæmt írösku ríkisstjórninni var þátttaka góð eða 100% og hlaut Saddam Hussein öll greidd atkvæði. Er þetta nokkuð betri niðurstaða fyrir Hussein heldur en árið 1995 þegar hann hlaut 99,96% atkvæða. Þetta er mikið stökk því þótt 0,04% fylgisaukning virðist ekki mikil á yfirborðinu þá er segir fylgisaukningin í prósentutölum ekki alla söguna.

Allir vita að það er erfiðara að komast úr 9,5 í 10 á prófi í skóla heldur en úr 5,5 í 6,0 – og það sama gildir auðvitað í lýðræðislegum kosningum. Það hefur ekki verið auðvelt verk fyrir Saddam að sannfæra þessi 0,04% þjóðarinnar um að kjósa sig án þess að þurfa að gera málamiðlanir sem hugsanlega hefðu getað fælt einhvern hluta af fastafylginu (99,96%) frá.

Forsvarsmenn írösku ríkisstjórnarinnar hafa sagt að þessi afgerandi niðurstaða sýni að hótanir Bandaríkjanna muni ekki sundra þjóðinni. Þá hefur verið á það bent að hin mikla kosningaþátttaka sýni, svo ekki sé um villst, að lýðræðið sé töluvert lengra á veg komið í Írak heldur en t.d. í Bandaríkjunum þar sem aðeins um helmingur atkvæðisbærra manna kýs í forsetakosningum.

Ýmsir vestrænir gagnrýnendur hafa látið í ljós efasemdir um að opinberar niðurstöður kosninganna í Írak. Á það hefur verið bent að hugsanlega megi gera athugasemdir við framkvæmdina s.s. eins og þá reglu að einn maður megi skila atkvæðum fyrir aðra en sjálfa sig, en nokkuð var um að menn kæmu á kjörstað með mikið magn útfylltra atkvæðaseðla meðferðis. Þeir höfðu tekið ómakið af ættingjum, vinum og kunningjum og kosið fyrir þá.

Líkast til er töluvert til í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á framkvæmd kosninganna í Írak. Ákveðnar grundvallarreglur er nauðsynlegt að uppfylla til þess að kosningar geti talist vera í samræmi við þann skilning sem flest okkar leggja í lýðræðishugtakið. Meðal þessara reglna er að hver maður greiði aðeins eitt atkvæði, að ekki megi framselja atkvæði sitt, að ekki megi kjósa fyrir aðra, að kosningar séu leynilegar o.s.frv. Þá er mikilvægt að vitað sé hverjir hafi atkvæðisrétt og að meðferð kjörgagna sé ákaflega vönduð svo aldrei þurfi að efast um að sá vilji sem sýndur er á atkvæðaseðli komist til skila.

Einn íslenskur flokkur hefur sýnt lofsvert frumkvæði í umfjöllun um lýðræðismál á Íslandi. Sá flokkur heitir Samfylkingin og stendur nú fyrir póstkosningu um það hvort flokkurinn skuli taka upp stefnu formannsins og stefna að því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Í vikunni var greint frá því að nokkrir flokksmenn væru ósáttir við framkvæmd kosningarinnar en hún mun vera einhvern veginn þannig að frambjóðendur í prófkjörum, t.d. Össur Skarphéðinsson, afhendi gögnin á heimili flokksmanna. Á það var bent að hæglega geti frambjóðandinn einfaldlega tekið gögnin og “kosið fyrir” fólkið án þess að það komist upp. Þá má auðvitað hugsa sér að einhverjar “gloppur” verði í afhendingu gagnanna þannig að atkvæðisbærir flokksmenn þurfi að minna á sérstaklega á sig til þess að fá að taka þátt (þetta er hægt að gera með að senda tölvupóst á samfylking@samfylking.is eða hringja á skrifstofu flokksins í síma 551 1660). Viðkomandi þarf þó að hafa nokkuð hraðar hendur því kosningunni lýkur 25. október kl. 17 og verða atkvæði sem berast eftir þann tíma ekki tekin gild.

Það er líklegt er að ýmsir lýðræðissinnar yrðu hneykslaðir ef upp kæmist að Davíð Oddsson og Geir H. Haarde hefðu skipt með sér að banka upp á hjá flokksmönnum í Sjáfstæðisflokknum til þess að biðja þá um að kjósa um stefnu t.d. í fiskveiðimálum og koma seðlunum til skila á skrifstofu flokksins í Valhöll. Þá væri líklegt að menn á borð við Ásgeir Friðgeirsson, ritstjóra Pressunnar og frambjóðanda Samfylkingarinnar, hlypu upp til handa og fóta og bentu á augljósa vankanta slíkrar kosningaframkvæmdar.

Ásgeiri er reyndar sérstaklega umhugað um hugmyndir Davíðs Oddssonar um lýðræðið eins og fram kom í grein hans í Morgunblaðinu þann 10. október sl. Þar fullyrðir hann að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi gert athugasemdir við póstkosninguna af því hann óttist vilja eigin flokksmanna í Evrópumálum. Í upphafi greinar sinnar segir hann:

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, hefur kallað viðleitni Samfylkingarinnar til þróa nýjar lýðræðisleiðir við ákvörðun um stefnu flokksins til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu „gervipóstkosningu“ sem „kemur lýðræðinu ekki við“. Ljóst er að honum er mikið í mun að gera sem minnst úr áhuga nútímalegra lýðræðissinna sem stuðla vilja að virkara lýðræði og tíðari samskiptum stjórnmálaflokka og stjórnvalda við þegna landsins.

Þær eru áhugaverðar hinar “nýju lýðræðisleiðir” Samfylkingarinnar þar sem vinnubrögð á borð við þær sem að ofan er lýst eru notaðar til að seyða fram “lýðræðislegan vilja”. En úr því Samfylkingin virðist telja að í ákveðnum tilvikum megi víkja frá hefðbundnum venjum við framkvæmd kosninga þá má e.t.v. gera því í skóna að Saddam Hussein hafi verið að fara “nýjar lýðræðisleiðir” í nýafstöðnum kosningum í Írak – og að hann sé í raun ekki einræðisherra heldur “nútímalegur lýðræðissinni”.

Með vini eins og Samfylkinguna og Saddam Hussein þarf lýðræðið greinilega á óvinum eins og Davíð Oddssyni að halda.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.