Hvers virði er mannslíf?

Allt frá því að Bandaríkjamenn voru hraktir frá Sómalíu eftir óverulegt mannfall á seinni tíma mælikvarða á tíunda áratug síðustu aldar hafa Vesturveldin verið treg til að senda heri sína til að stöðva yfirstandandi slátranir á almennum borgurum í fjarlægum ríkjum. Þessi fælni hefur oft verið nefnd Mogadishu áhrifin eftir höfuðborg Sómalíu. Síðustu áratugir geyma einungis örfá dæmi þar sem vestræn ríki hafa verið tilbúin að leggja líf eigin hermanna í hættu í þágu ókunnra einstaklinga sem verið var að myrða. Eitt þeirra er Austur-Tímor.

Allt frá því að Bandaríkjamenn voru hraktir frá Sómalíu á tíunda áratug síðustu aldar, eftir óverulegt mannfall á seinni tíma mælikvarða hafa vesturveldin verið treg til að senda heri sína til að stöðva yfirstandandi slátranir á almennum borgurum í fjarlægum ríkjum. Þessi fælni hefur oft verið nefnd Mogadishu áhrifin eftir höfuðborg Sómalíu.

Þessi ótti vesturvelda við mannfall hefur haft afdrífaríkar afleiðingar. Þannig er talið að nokkur þúsund manna herlið hefði auðveldlega getað komið í veg fyrir morð á tæplega einni milljón Rúandabúa árið 1994. Að sama skapi hefði alþjóðlegt inngrip í Darfur hérað getað bjargað hundruðum þúsunda mannslífa. En enginn kom – ekki fyrr en að slátrararnir voru að mestu búnir að ljúka sér af.

Það er vissulega annað uppi á teningnum þegar aðrir hagsmunir, t.d. olía, eru í húfi og þá er oft gripið til mannréttinda sem tylliástæðu fyrir inngripi. En þegar kemur að löndum þar sem engir slíkir hagsmunir eru í húfi þá láta vesturveldin yfirleitt sér nægja í besta falli loftárásir en í versta falli algjört aðgerðarleysi.

Loftárásirnar eru gerðar til að hlífa hermönnum þeirra landa sem taka þátt í þeim. En þrátt fyrir að þær séu afar áhrifamiklar er ljóst að þær taka lengri tíma en hefðbundinn hernaðaríhlutun og auka líkurnar á mannfalli almennra borgara margfallt. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar. Réttlætingin fyrir slíkum loftárásum á annað fullvalda ríki er vanalega að morð á saklausum borgurum skuli aldrei líðast; allir íbúar jarðarinnar hafi fæðst með sama rétt til lífs og því skylda alþjóðasamfélagsins að grípa inn í ef ríki ákveður að ógna þessum grundvallarrétti borgara sinna. Engu að síður eru skilaboðin skýr: þrátt fyrir að allir hafi sama rétt til lífs þá eru líf okkar ríkisborgara verðmætari en þeirra á jörðu niðri. Ákveðin þversögn en engu að síður sá veruleiki sem blasir við í alþjóðapólitík í dag.

Síðustu áratugir geyma einungis örfá dæmi þar sem vestræn ríki hafa verið tilbúin að leggja líf eigin hermanna í hættu í þágu ókunnra einstaklinga sem verið var að myrða. Eitt þeirra er Austur-Tímor.

Austur-Tímor
Á 16. öld var eyjan Tímor í suðaustur Asíu gerð að nýlendu Hollendinga og Portúgala. Nýlenduþjóðirnar skiptu eyjunni á milli sín og féll Austur-Tímor í skaut Portúgala. Hollendingar gáfu Indónesum sinn hluta eyjunnar eftir árið 1949 en austurhluti hennar var áfram undir yfirráðum Portúgala. Eftir að einræðisstjórnin í Portúgal féll árið 1974 var ákveðið að gefa Austur-Tímor sjálfstæði. Áður en að það gat gerst réðst her Indónesa inn í landið og hertók það árið 1975. Var þessi innrás ítrekað fordæmd af Sameinuðu þjóðunum. Herstjórn Indónesa yfir svæðinu var mjög harðsvíruð og er talið að yfir 100 þúsund manns hafi látist af þeirra völdum á tímabilinu 1975-1999.

Árið 1998 var Suharto, forseti Indónesíu, neyddur til að segja af sér í kjölfar fjöldamótmæla í landinu. Hann reyndi fyrst að bæla mótmælin niður með hernum en þegar ljóst var að þau yrðu ekki stöðvuð sagði hann af sér. Habibie, eftirmaður hans, ákvað í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu í Austur-Tímor til að ákveða hvort svæðið myndi öðlast sjálfstæði eða tilheyra Indónesíu afram.

Það kom fljótt í ljós að Habibie hafði ekki gert hernum grein fyrir ákvörðun sinni og varð allt vitlaust innan hans raða yfir þeirri skömm og valdatapi sem herinn taldi að atkvæðagreiðslan gæti haft í för með sér. Undir mikilli pressu frá hernum neitaði Habibie, þrátt fyrir mikinn alþjóðlegan þrýsting, að leyfa friðargæsluliði að hafa eftirlit með kosningunum heldur lét hann hernum það eftir. Herinn ákvað að nýta tækifærið til hins ítrasta og í stað kosningaeftirlits reyndu að gera þeir allt sem þeir gátu til að berja niður sjálfstæðissinna og fá íbúa Austur-Tímor ofan af því að kjósa. Hópar vígamanna voru þjálfaðir og í samstarfi við her Indónesíu fóru þeir á milli þorpa, drápu yfirlýsta sjálfstæðissinna og hótuðu fólki öllu illu ef sjálfstæði yrði ofan á í atkvæðagreiðslunni.

Afdrifaríkar kosningar
Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin 30. apríl 1999 og þrátt fyrir aðgerðir hersins tóku 98,6% landsmanna þátt í atkvæðagreiðslunni. Niðurstaðan var skýr; 78,5% höfðu greitt atkvæði með sjálfstæði. Það er óhætt að fullyrða að indónesíski herinn hafi ekki tekið niðurstöðunum þegjandi. Um leið og úrslitin voru kunngerð hóf herinn ásamt vígasveitum sínum blóðugar aðgerðir. Þeir drápu, rændu og brenndu allt sem fyrir þeim varð. Fyrst var ráðist gegn „intelligensíunni“ og fylgismönnum þeirra í landinu. Fjöldamorðin héldu síðan áfram og ollu því að hálf milljón einstaklinga flúði heimili sín inn í frumskóginn.

Sameinuðu þjóðirnar vildu senda friðargæslulið inn í landið en ríkisstjórn Indónesíu neitaði staðfastlega. Þing Indónesíu hafði ekki enn tekið niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar fyrir og því var Austur-Tímor enn á valdi þeirra. Upp komu spurningar um að senda friðargæslulið á vegum Sameinuðu þjóðanna án samþykkis Indónesíu en Kína lýsti því yfir að þeir myndu beita neitunarvaldi í öryggisráðinu ef slík tillaga yrði borin upp. Ríkisstjórnir Ástralíu og Nýja-Sjálands fóru þá að reyna að safna þjóðum til að binda enda á óöldina án atbeina Sameinuðu þjóðanna, eins og hafði fyrr á árinu verið gert, undir stjórn NATO, í Kosovo en engar aðrar þjóðir buðu fram aðstoð.

Það var því algjör pattstaða í gangi á alþjóðavettvangi og á meðan hélt morðaldan áfram. Það var ekki fyrr en að Bill Clinton, þáverandi forseti Bandaríkjanna, hótaði ríkisstjórn Indónesíu að hann myndi draga til baka efnahagsstyrk upp á milljarða bandaríkjadala að þeir loksins samþykktu að alþjóðlegt friðargæslulið færi inn í Austur-Tímor.

Sjaldgæfur hugsunarháttur
Viku seinna lenti 7000 manna friðargæslulið (INTERFET) við strendur Austur-Tímor. INTERFET samanstóð af Áströlum (70%), Gúrkum (undir stjórn Breta) og þónokkrum hermönnum frá öðrum Asíuþjóðum á meðan Bandaríkjamenn sköffuðu vopn og vistir.

Gert var ráð fyrir hörðum bardögum en þegar INTERFET mætti á svæðið dró Indónesíski herinn sig til baka og vígasveitirnar flúðu, allar sem ein, yfir landamærin til Vestur-Tímor. Það sem við blasti var hræðileg sjón; fjöldagrafir, brennd þorp og eyðilegging hvert sem litið var. Það tók margar vikur þar til eftirlifandi íbúar Austur-Tímor hættu sér út úr frumskóginum til að hitta bjargvætti sína.

Sem betur fer lenti friðargæsluliðum ekki saman við vígasveitirnar en þegar ríkisstjórnir Ástralíu, Bretlands og nokkurra annarra Asíuríkja ákváðu að taka þátt í INTERFET friðargæsluliðinu gerðu þær ráð fyrir miklu mannfalli í frumskógarbardögum við vígasveitir indónesíska hersins en töldu engu að síður réttlætanlegt að senda eigin hermenn á staðinn. Þjáningar íbúa landsins væru einfaldlega of miklar til að hægt væri að standa hjá. Með öðrum orðum þá væru þessar ríkisstjórnir ekki aðeins reiðubúnar að láta hermenn sína drepa í þágu íbúa Austur-Tímor heldur væru þær einnig tilbúnir að láta þá deyja í þeirra þágu.

Hversu mörg þjóðarmorð væri hægt að koma í veg fyrir með þessum hugsunarhætti?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.