The curious case of Ögmundur Jónasson

Innanríkisráðherra hefur það umfram marga aðra íslenska stjórnmálamenn að hann tjáir skoðanir sínar afar skýrt og fer ekki í neinar grafgötur með þau verkefni og hugmyndir sem hann er á móti. Spurningin er hve víðtækur stuðningur sé við sjónarmið hans á þingi og hvort talsmenn frjálsra viðskipta geti tjáð sig jafnskýrt í hina áttina?

Mér hefur oft þótt áhugavert að fylgjast með störfum og skrifum Ögmundar Jónassonar, bæði þegar hann var þingmaður og ekki síður eftir að hann varð ráðherra. Margt er gott um Ögmund að segja og enginn þarf að efast um að hann fylgir sannfæringu sinni í þeim málum sem upp koma, reynir að vera einlægur og nálgast málin af heilindum. Framganga hans í Icesave-málinu er til marks um þetta og steig Ögmundur m.a.s úr stól ráðherra á þeim tímapunkti vegna ágreinings við aðra í ríkisstjórninni – þótt rætnar tungur segi reyndar að yfirvofandi niðurskurður í heilbrigðismálum hafi átt sinn þátt í því að ráðherrastóllinn var ekki eins spennandi og áður.

Með þessum einlæga stíl sínum sker Ögmundur sig frá þeim aðferðum sem margir stjórnmálamenn hér á landi eru farnir að beita, þ.e. að tjá sig alltaf svo óljóst að þeir eru opnir í báða enda. Sumir stjórnmálamenn vilja helst ekki stíga til jarðar í neinu máli nema hafa áður kynnt sér skoðanakannanir og niðurstöður rýnihópa um málið og sest yfir stöðuna með herráði almannatengla og pólitískra samverkamanna. Svolítið eins og sagan af byltingarforingjanum í Frakklandi sem stóð út í glugga og fylgdist með því hvert fólkið úti á götunum stefndi. Þegar hann var spurður hvað hann væri að gera svaraði hann því til að hann væri að fylgjast með því hvert fólkið væri að fara, svo hann vissi hvert hann ætti að leiða það.

Ekkert af þessu á við um Ögmund Jónasson. Hann er mættur út á völlinn með steytta hnefa og til í slaginn. Hann talar enga tæpitungu um það að hann er andsnúinn tilteknum málum, t.d. eins og í gær þegar hann kynnti ákvörðun sína um að hafna því að veita undanþágu vegna beiðni kínversks félags um fjárfestingu hér á landi. Þetta eru ekki fyrstu hugmyndirnar í þessa veru sem hann andmælir, t.d. kvað hann í kútinn sem heilbrigðisráðherra hugmyndir um að reisa sjúkrahús hér sem gætu selt þjónustu til erlendra sjúklinga.

Reyndar man ég ekki í svipinn eftir hugmyndum um nýja starfsemi eða fyrirtæki hér á landi sem ráðherrum VG hefur lýst sérstaklega vel á, nema kannski þegar Steingrímur J. minntist á það fyrir nokkrum árum að brugghúsið að Árskógssandi væri dæmi um atvinnuuppbyggingu sem honum litist á. Skál fyrir því.

Ögmundur er hins vegar langt í frá eini stjórnmálamaðurinn hér á landi sem er á móti erlendri fjárfestingu. Íslensk lög hafa alltaf sett nánast blátt bann við fjárfestingu erlendra aðila hér á landi. Fyrir tilstilli EES-samningsins á sínum tíma neyddust íslenskir stjórnmálamenn til þess að gera þá undanþágu á banninu að það tæki ekki til einstaklinga og fyrirtækja innan EES-svæðisins og hefur sú regla gilt í ein 17 ár. Tilkoma nýrra aðildarríkja í ESB gerir það að verkum að alls um 500 milljónir manna eiga þess kost að fjárfesta hér á landi án takmarkana. Þessi staða hefur t.d. vakið upp þá áhugaverðu spurningu hvaða vit sé í þessum reglum – þegar t.d. bandarískir og kanadískir fjárfestar mega ekki fjárfesta hér á landi en búlgarskur vogunarsjóður mætti t.d. kaupa það sem honum sýndist hér á landi án þess að hægt væri að amast neitt við því.

Þrátt fyrir þessar miklu heimildir til fjárfestinga undanfarin 17 ár hefur það ekki gerst að hinir gírugu útlendingar reyni að sölsa undir sig íslenskar eignir. Raunar er erlend fjárfesting hér á landi lítil samkvæmt flestum mælikvörðum og því miður ekkert útlit fyrir að það breytist.

Ísland er mjög lokað land í dag. Gjaldeyrishöftin gera það að verkum að fjárfesting hér er mun síðri kostur en ella. Lög banna erlendar fjárfestingar utan EES-svæðisins nema með undanþágu frá ráðherra. Pólitísk afstaða forystumanna í ríkisstjórninni er sú að þeir eru á móti erlendri fjárfestingu og í þeim málum sem upp hafa komið að undanförnu hefur reynst auðvelt að þyrla upp moldvirði í kringum þá erlendu fjárfesta sem hafa viljað koma hingað til lands.

Virðist þar engu skipta hvort fjárfestirinn sé sannarlega utan EES og óski eftir undanþágu eða hvort viðkomandi fjárfesti í gegnum félag á EES-svæðinu, eins og gert var í Magma-málinu. Hvorttveggja eru í huga þeirra sem fara með pólitíska forystu í málinu til marks um ófyrirleitni og ranghugmyndir og lýsti Ögmundur því þannig í svari til Kristjáns Möllers á dögunum á þingi varðandi kínverska fjárfestinn að sporin hræddu enda þekktum við „ýmsa loftkastalasmiði frá fyrri árum“ þannig að Íslendingar hlytu að hans mati að vilja stíga varlega til jarðar „þegar menn með dollaramerki í augunum eða mikla fjármuni á milli handa, meinta fjármuni, eru hér á sveimi“. Svo mörg voru þau orð og kannski ekki hægt að segja að ákvörðun ráðherrans hafi komið á óvart.

Rökstuðningurinn er augljóslega til málamynda; lagatækni um að ekki sé hægt að veita undanþágu – þegar fjöldi slíkra undanþága hafa einmitt verið veittar áður auk þess sem formfesta hefur ekki beint verið alfa og omega þessarar ríkisstjórnar fram til þessa. Er þetta ekki ráðherra í ríkisstjórn sem taldi ástæðulaust að hengja sig í smáatriði þegar norskur maður var gerður seðlabankastjóri þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnarskrárinnar um að embættismenn skuli vera íslenskir? Er þetta ekki ráðherra úr ríkisstjórninni sem fannst athugasemdir Hæstaréttar við stjórnlagaþingskosningarnar vera ótrúleg formfesta og fór svo í reynd framhjá niðurstöðunni með skipun stjórnlagaráðs? Auðvitað hefði mátt leysa mál kínverska félagsins ef svo bæri undir – kínverski fjárfestirinn hafði ítrekað lýst því yfir að hann hefði áhuga á að miðla málum, afsala sér t.d. tilteknum réttindum en án þess að fá nein viðbrögð úr ráðuneytinu.

Allt hefur þetta sínar afleiðingar á endanum. Sem stendur lána bankarnir lítið sem ekkert og lánanefndir bankanna virðast leggja meira upp úr því að gera ekki mistök frekar en að skapa verðmæti. Þetta þrengir verulega að þeim sem vilja fara af stað hér heima með fyrirtæki eða fjárfestingar – nema náttúrulega þeim sem eiga peninga og fé fyrir og sitja því nánast einir að því að kaupa eignir og fyrirtæki hér á landi á kreppuárunum. Það er nefnilega alveg ástæðulaust að halda að allt hagkerfið sé í formalíni á meðan Ögmundur og félagar í ríkisstjórninni herða virkið í kringum landið. Eignir, fyrirtæki og lönd ganga kaupum og sölum þótt ekki rati öll mál í fjölmiðla eða inn á kontór ráðuneytanna.

Í ljósi þess hve fáir stjórnmálamenn tjá sig jafnskýrt um mál og Ögmundur stendur hins vegar eftir spurningin hve mikill stuðningur sé við sjónarmið hans á þingi. Er þingmeirihluti fyrir þessu máli? Hvar eru hinir frjálslyndu þingmenn í þessu máli, talsmenn frjálsra viðskipta og erlendrar fjárfestingar? Væri ekki kjörið tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn að mynda bandalag með hægriarminum í Samfylkingunni og leggja fram þingmál um að leyfa þessa fjárfestingu? Þá fengist tvennt fram; þessari ákvörðun yrði aflétt og þingmenn Samfylkingarinnar yrðu þá að standa við stóru orðin í garð Ögmundar.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.