Verðmætin í vanskilunum

Þrátt fyrir öll þau úrræði sem í boði eru og markmiðum um að viðhalda greiðsluvilja fólks, eins og það heitir, kemur engu að síður sá hópur best út, sem ekkert hefur greitt, og mun betur en margir þeirra sem hafa verið að reyna að standa í skilum.

Hvatning innheimtufyrirtækja um að ekki gera ekki neitt er orðin vel þekkt og slagorð eins stærsta fyrirtækisins á þessu sviði. Það er góðra gjalda vert (orðaleikur!) að láta þessi mál ekki reka á reiðanum, enda almennt betra að borga kröfurnar sem fyrst til að koma í veg fyrir að á þær smyrjist kostnaður og dráttarvextir.

Málið hefur þó orðið nokkuð snúnara á undanförnum misserum enda hafa margir Íslendingar orðið að takast á við ansi ríflegar hækkanir á sínum skuldum á sama tíma og eignaverð hefur lækkað, a.m.k frá því sem það var hæst árið 2007 og tekjur minnkað hjá mörgum.

Ótal skuldaúrræði hafa verið sett upp frá hruni. Segja má að úrræðin hafi þróast eftir einhvers konar „learning by doing“ aðferð, þ.e. það er bætt í þau eftir því sem þurfa þykir, enda voru skuldaúrræði nokkuð fátækleg þegar hrunið skall á árið 2008 og í raun fátt annað í boði en gjaldþrot eða nauðasamningar en hvorttveggja var mjög íþyngjandi fyrir skuldarann; gjaldþrot eins og það var þá gerði kröfuhöfum kleift að halda kröfum „lifandi“ árum og jafnvel áratugum saman og dæmdi fólk í reynd til þess að vera á stöðugum flótta með allt sitt, þar sem kröfuhafarnir myndu klófesta hverja þá eign sem viðkomandi kynni að eignast. Nauðasamningar voru að sama skapi ansi þunglamalegir, bæði þurfti töluverða pappírsvinnu til að sækja um slíkt fyrir dómara auk þess sem kröfuhafar þurftu að samþykkja kjör og skilmála samningsins. Hvorugt þessara úrræða hefði dugað til að klára uppgjör á skuldamálum þúsunda Íslendinga.

Því var farið af stað í byrjun árs 2009 að setja upp ýmis ný úrræði, s.s. skuldaaðlögun í bönkunum (sem hefur eiginlega engu skilað), greiðsluaðlögun sem var fyrst á vettvangi dómstóla en síðar fór það inn í embætti Umboðsmanns skuldara, hægt var að fá frest á nauðungarsölum, auk þess sem fjármálafyrirtækin hafa boðið upp á ýmsar tilslakanir hjá sér.

Margir töldu hins vegar að með þessu væri ekki gengið nægjanlega langt. Sú tilfinning, ásamt almennri gremju í garð banka og fjármálafyrirtækja, gerði það að verkum að ákveðinn hópur fólks hætti alfarið að borga af skuldum sínum en ákvað að búa áfram í húsinu sínu, sumir af illri nauðsyn en aðrir af sannfæringu fyrir málstaðnum um að ekki ætti að greiða þessar stökkbreyttu skuldir.

Viðkomandi hætti þá að greiða af skuldum sínum, þar á meðal íbúðaskuldum sínum en bjó áfram í húsinu. Sú breyting á nauðungarsölulögunum að fólk gat fengið frest á nauðungarsölum, gerði það að verkum að þrátt fyrir að ekkert væri greitt, gat viðkomandi búið áfram í húsi sínu og það sem mestu máli skiptir, haldið eftir sínum launum að fullu og jafnvel lagt fyrir. Á meðan hlóðust hins vegar upp vanskil á kröfurnar en það hafði ekki aðrar afleiðingar að svo stöddu þar sem viðkomandi gat búið áfram í sínu húsi án þess að missa það, ef hann gæti þess að fá nauðungarsölunni frestað. Hugsunin var þá í raun sú að þegar þar að kæmi yrði flutt út úr húsinu en reynt yrði að hafa þann tíma sem lengstan.

Eins og áður sagði þá hafa úrræði fyrir skuldara hins vegar verið þannig að þau hafa breyst og við þau hefur verið bætt eftir því sem tíminn líður. Þannig kom til haustið 2010 eftir mótmæli á Austurvelli og mikil fundarhöld stjórnvalda og banka í kjölfarið, að farið var að bjóða upp á svokallaða 110%-leið sem gerði það að verkum að veðkröfur á íbúðahúsum fólks voru lækkaðar niður í 110% af verðmati eignarinnar.

Í þessu fólst, burtséð frá stöðu vanskila eða hvort viðkomandi hefði ekki greitt af sínum kröfum, voru veðkröfur lækkaðar niður í 110% og byrjað að greiða aftur af þeirri kröfu. Flest fjármálafyrirtæki byggðu á verðmati á fasteignum sem fasteignasalar vinna, en Landsbankinn hefur t.d. ákveðið að miða við fasteignamat sem er að jafnaði ívið lægra.

Segja má að með þessu hafi hlaupið á snærið hjá þeim sem voru hættir að borga. Sá sem nýtir sér þetta úrræði getur komist í þá stöðu að skulda aftur 110% af verðmati eignarinnar, þótt ekkert hafi verið greitt af skuldum frá lokum árs 2008 (með kannski þeirri undantekningu að hiti, rafmagn og slík gjöld hafa verið greidd) og reyndar jafnvel þótt eignin hafi verið keypt á 100% lánum á sínum tíma, sem var ekki óalgengt árið 2008.

Sá, sem á hinn bóginn tók lán fyrir hrun og hefur greitt samviskusamlega af sínu láni allan tímann – og jafnvel lagði eitthvað fram af eigin fé við kaup eignarinnar á sínum tíma, t.d. 10-20%, í sumum tilfellum var „eigið fé“ fengið með viðbótarláni hjá lífeyrissjóðunum með lánsveði, sem falla utan við öll úrræði – er í nákvæmlega sömu stöðu eftir á og sá sem ekkert greiddi, þ.e. skuldar 110% eftir að hafa nýtt sér þá leið.

Staðreyndin er nefnilega sú að jafnvel þótt greitt hafi verið samviskusamlega af skuldum þá hafa þær hækkað hratt vegna verðtryggingar og/eða vaxta á undanförnum árum. Lítið sem ekkert tillit er tekið til þess hvort fólk hafi greitt af sínum skuldum eða ekki.

Það sem hins vegar skekkir stöðuna verulega er sá sem ekkert greiddi er jafnsettur hinum. Nema hvað að hann hefur sparað sér afborganirnar í tvö til þrjú ár. Af meðalíbúðarhúsnæði geta það hæglega verið 3-5 milljónir á tímabilinu frá hruni.

Nú skal tekið fram að þeir sem fóru þá leið að borag ekki eru ekki hópur af útsmognu undanskotsfólki og sjálfsagt haft full not fyrir aukapeninginn við rekstur heimilisins. Það sem er sérkennilegt er að sá sem hefur greitt og greitt er eins settur og hefur auðvitað líka haft sín útgjöld og heimilisrekstur til að greiða.

Eitt af markmiðunum með úrræðunum í skuldamálunum er að viðhalda greiðsluvilja fólks. Vandinn er sá að fram til þessa hafa úrræðin ekkert gert fyrir þá sem greiða samviskusamlega.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.