Sönn íslensk efnahagsmál

Íslensk stjórnvöld, ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðun, stóðu fyrir ráðstefnu þar sem fjallað var um íslensk efnhagsmál. Ráðstefnan var áhugaverð fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna þess að þarna voru saman komnir nokkrir af fremstu hagfræðingum heimsins til að gefa sína skoðun á því hvernig ástandið væri á Íslandi í dag, hverjar horfurnar væru og hvað hefði betur mátt fara í kjölfar bankahrunsins.

Íslensk stjórnvöld, ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðun, stóðu fyrir ráðstefnu þar sem fjallað var um íslensk efnhagsmál. Ráðstefnan var áhugaverð fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna þess að þarna voru saman komnir nokkrir af fremstu hagfræðingum heimsins til að gefa sína skoðun á því hvernig ástandið væri á Íslandi í dag, hverjar horfurnar væru og hvað hefði betur mátt fara í kjölfar bankahrunsins.

Ríkisstjórnin fór á sínum tíma þá leið að bjóða skuldsettum heimilum upp á skuldarniðurfellingu útblásina húsnæðislána, var þá miðað við að lánin færu niður í 110% (í daglegu máli kallað 110% leiðin). Voru strax uppi gagnrýnisraddir um slíka aðgerð vegna þess að ef yfirhöfuð á að leggjast í slíka niðurfellingu þá væri 110% ennþá alltof hátt skuldarhlutfall – aðgerðirnar þyrftu að vera róttækari ef þær ættu ekki að missa marks og gagnast fólki og heimilum í raun og veru. Þrátt fyrir það hafa fjölmargir sótt um niðurfærslu á húsnæðislánum, en í lok ágúst höfðu rúmlega15.600 umsóknir um 110% leiðina og nemur niðurfærslan nú alls 27 milljörðum króna. Enn eru ríflega 5000 mál í vinnslu i hjá fjármálafyrirtækjum, mikill meirihluti þeirra hjá Íbúðalánasjóði eða um 3.500 mál.

Á ráðstefnunni gaf Williem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup sína skoðun á þessum aðgerðum og sagði þá orðrétt: ,,að heimilin fái húsnæðislán eins og nú er gert, niður í 110% af virði fasteignar, er alger vitleysa. Það þyrfti að færa það niður í 70% og láta bankana sjá um það sem út af stendur svo aðgerðin yrði farsæl.” Þessi ummæli Buiter verða að teljast þungur sleggjudómur á þessa helstu lausn ríkistjórnarinnar fyrir skuldsettu heimilin og gerir lítið annað en að auka á þær efasemdir sem fyrir voru á 110% leiðinni.

Annað sem vakti mikla athygli var þegar sjálfur Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, tjáði sig um gjaldeyrismálin hér á landi. Hann sagðist velta vöngum yfir þessari ákefð Íslands að ganga í Evrópusambandið og bætti því svo við að Ísland væri í raun skólabókardæmi um kostina við sveigjanlegan gjaldmiðil. Að lokum sagði hann að hans mati ætti Ísland ekki heima á evrusvæðinu, við ættum að halda krónunni en bæta til muna stjórnun peningamála.

Að lokum tjáði svo Jón Daníelson sig, en hann er prófessor í hagfræði við London School of Economics. Að hans mati hefði vaxstastigið verið of hátt og bankakerfið ekki virkað sem skyldi. Þetta tvennt ásamt öðum þáttum hefði aftrað efnahagslegum vexti og komið í veg fyrir aukna fjárfestingu – eitthvað sem Íslandi sárvantar í augnablikinu.

Þegar allt þetta er tekið saman verður að spyrja hvort helstu baráttumál ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Samfylkingarinnar séu hreinlega í algerri þversögn við það sem helstu sérfræðingar telja að sé skynsamlegast og réttast í efnahagsmálum. Bæði hafa þær aðgerðir sem ríkistjórnin hefur lagt til, til verndar heimilum í landinu, fengið falleinkunn heldur er sú peningamálastefna sem rekin hefur verið í kjölfar hrunsins mjög ámælisverð. Hvað varðar aðild Íslands að Evrópusambandinu og mögulega inngöngu Íslands inn í myntbandalag ESB að þá höfum við Íslendingar fengið mjög góða innsýn og mat frá helstu sérfræðingum um hversu skynsamlegt eða öllu heldur óskynsamlegt það sé að ganga í Evrópusambandið og sú skýring að evran sé töfralausn fyrir okkur Íslendinga virðist ekki á rökum reist.

Að lokum ber að fagna framtakinu sem þessi ráðstefna var, hún hjálpar fólki að öðlast skilning á því hvernig málin standa og eykur upplýsta umræðu um efnahagsmál sem oft getur verið flókin og ruglingsleg þar sem kappsfullir stjórnmálamenn tjá sig, misskynsamlega, um hverjar horfurnar séu, eitthvað sem oft virðist í mikilli andstöðu við mat sérfræðinga – eins og við höfum nú séð.