Dýrasti fimmaurabrandari heims

Íslenska krónan var jafngild þeirri dönsku þegar íslensk stjórnvöld tóku að sér að stýra henni. Síðan þá hefur hún misst meira en 99,95% af verðgildi sínu gagnvart dönsku systur sinni. Það þýðir að nú kostar danskur fimmaurabrandari heilar hundrað krónur íslenskar.

Hvað kallarðu 100 kall eftir 99,95% gengisfall?

Fimmaur.

Frá því íslenska krónan stóð jafnfætis þeirri dönsku, þegar gjaldmiðillinn var fyrst gerður sjálfstæður, árið 1920, hefur þetta einmitt gerst. Í dag kostar ein dönsk króna tæpar 22 íslenskar krónur en í millitíðinni voru sniðin tvö núll af gjaldmiðlinum okkar þannig að nafngildi íslensku og dönsku krónunnar stóð nokkurn veginn á pari. Þetta var árið 1981. Á fyrstu 61 árum sjálfstæðs lífs var gengisfallið því 99% gagnvart dönsku krónunni, og á þeim þrjátíu árum sem eru liðin síðan hefur þetta undratæki íslenskrar hagstjórnar misst ríflega 95% af verðgildi sínu gagnvart dönsku systur sinni. Það má því segja að danskur fimmaurabrandari kosti í dag hundraðkall.

Þrátt fyrir þetta virðist ríkjandi skoðun margra íslenskra stjórnmálamanna og hagfræðinga vera að krónan sé nú samt sem áður býsna góð, það þurfi bara aðeins að stjórna henni betur eða faglegar. Þetta er sérstakt afrek í sjálfsblekkingu.

Ekki nóg með það heldur virtust nokkrir þeirra hagfræðinga sem messuðu í Hörpu í síðustu viku vera ámóta skotnir í þessum krúttaralega, ósjálfbjarga gjaldmiðli okkar sem lengst af hefur verið verndaður gagnvart veðrum og vindum raunveruleikans með höftum, skömmtunum og stórkarlalegum pólitískum inngripum. Krónan, sem í krafti ofurvaxta sinna, hjálpaði til við að gera íslenska bankakerfið að risastórri peningaryksugu í hinni miklu lánsfjárbólu, er nú sögð vera björgunarhringur þjóðarinnar í ólgusjó heimskreppunnar. Enn og aftur þarf verulega sköpunargáfu til að komast að niðurstöðunni.

Ef íslenska hagkerfið á aftur að geta orðið hluti af stærri markaði er ljóst að það verður ekki gert með notkun íslensku krónunnar. Sú tilraun er búin. Það eru því aðeins tveir kostir í stöðunni. Að halda krónunni, en setja landamæragirðingar í kringum íslenskt viðskiptalíf. Hinn kosturinn er að horfast í augu við að aðgangur íslenskra neytenda og fyrirtækja að frjálsri alþjóðlegri samkeppni verður ekki tryggður nema með því að hætta útgáfu sérstakrar myntar en leyfa fólki og fyrirtækjum að nota þá mynt sem þau treysta best og hafa mest not fyrir.

Um þessar mundir virðast stjórnvöld hafa fest kúrsinn kyrfilega á fyrri leiðinni. Gjaldeyrishöft munu smám saman umbreytast í sífellt frekjulegri viðskiptahöft. Jafnvel áætlanir um hógvær höft hafa þessar afleiðingar því allar glufur sem opnast í varnarveggnum í kringum krónuhagkerfið verða nýttar til fulls, og ekki alltaf á þann veg sem stjórnvöld spá fyrir. Gjaldeyriseftirlit opinberra stofnana mun aldrei eiga roð í síkvikan markað. Þar af leiðandi er óhugsandi að gjaldeyrishöft, sama hversu léttvæg þau eiga að vera í upphafi, muni annað en herðast þegar frá líður.

Hin leiðin felur í sér aukið frelsi almennings og fyrirtækja. Það felur í sér lægri vexti, meiri samkeppni og stóraukna möguleika til alþjóðlegra viðskipta. Hún felur hins vegar einnig í sér töluvert minnkað vald stjórnmálamanna og embættismanna. Þar liggur hundurinn ef til vill grafinn. Það er freistandi fyrir ráðamenn að líta á alla þjóðina eins og ófjárráða börn. Þjóðinni er ætlað að efla viðskipti og „afla útflutningstekna“ og skila svo ágóðanum til Seðlabankans og fá í staðinn spilapeninga til innanlandsnota. Pabbi og mamma í ríkisstjórninni ákveða svo hvað á að gera við alvörupeningana.

Almenningur á Íslandi áttar sig auðvitað fullkomlega vel á þessu, eins og í öllum öðrum löndum þar sem ríkisvaldið er ófært um að sinna útgáfu peninga. Það væri hending að finna Íslending sem finnur hundrað dollara seðil í vasanum og vill frekar skipta honum út í krónur heldur en að geyma hann. Hugsið ykkur bara þann sem átti hundrað danskar krónur í vasanum árið 1981, hann gæti í dag skipt seðlinum út fyrir 2.200 krónur, það er 2.100% nafnvextir á tímabilinu, tæplega 11% á ári. Svo háir vextir á jafnlöngu tímabili myndu fá öll viðvörunarljós til að blikka hjá eftirlitsstofnunum ef um verðbréfasjóð væri að ræða. Þar væri réttilega ályktað að þarna gæti verið eitthvað gruggugt á seyði. Og þegar við tökum inn í myndina að fyrir Dana hefði það verið skelfileg fjárfesting að geyma sama seðil í vasanum þennan tíma, þá sést vel hversu grátleg hagstjórnin á Íslandi hefur verið.

Sem betur fer hafa nokkrir skynsamir stjórnmálamenn ekki útilokað þann kost að taka einhliða upp aðra mynt, þar á meðal formaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta er einfaldari og hraðvirkari leið heldur en upptaka evru í gegnum ESB aðild, sem hvort sem er verður trauðla samþykkt á næstu árum. Þessi leið hefði ennfremur þann kost í för með sér að í raun og veru ættu Íslendingar þar með að geta notað hverja þá mynt sem hentar þeim í viðskiptum.

Fáir þora þó að lýsa þannig skoðun fyrirvaralaust, þvílík er skinhelgin í kringum gjaldmiðilinn innan stjórnmálastéttarinnar. Þeir stjórnmálamenn, sem segjast styðja frjáls viðskipti en láta eins og upptaka annarra gjaldmiðla sé skrýtnari hugmynd heldur en að halda krónunni, skulda nánari útskýringar á því hvernig þeir sjá þetta allt saman fyrir sér.

Þrátt fyrir reynslu okkar af rekstri eigin gjaldmiðils er stöðugt reynt að troða því ofan í kokið á okkur að íslenska krónan hafi reynst „okkur“ vel. Hún hefur kannski reynst stjórnmálamönnum vel á meðan þeir gátu beitt henni til þess að slá ryki í augu almennings með handvirkum gengisfellingum. En raunin er sú að hún hefur kennt íslensku þjóðinni þá dýrkeyptu vitleysu að sparnaður sé glapræði og að greidd skuld sé tapað fé, svo ekki sé minnst á höft, sérhagsmunagæslu og heimóttaskap.

Íslenska krónan er því sennilega dýrasti fimmaurabrandari í heimi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.