High-five með íslensku remúlaði

Tilraunir fyrirtækja og auglýsenda til að sætta þjóðina við umheiminn á nýjan leik taka á sig ýmsar myndir.

Það hefur verið fyrirtækjum mikið umhugsunarefni undanfarin misseri hvernig hægt sé fá Íslendinga til að taka umheiminn í sátt á nýjan leik og endurlífga ferðagleði þjóðarinnar eftir að kreppan skall á. Þessi nýtilkomni heimóttaskapur hefur í för með sér miklar búsifjar því ferðaglaðir Íslendingar eru gulls ígildi; ferðast með hugarfari sveitamannsins, drekka mikið og eyða í alls konar glingur. Fyrir utan að kaupa ársbirgðir af fötum á ættingjana, náskylda sem fjarskylda.

Þetta hefur snarlega breyst og Íslendingar vilja frekar sitja heima. Hvern skal undra? Þjóðinni hefur verið talin trú um að ástæður hrunsins og efnahagserfiðleika hennar sé fyrst og fremst um að kenna útlenskum illmennum sem sátu á launráðum gagnvart íslenska efnahagsundrinu ásamt óþjóðhollum útrásarvíkingum. Hinir síðarnefndu búa svo allir í útlöndum núna, sennilega í sama hverfi og hinir fjandvinir þjóðarinnar. Jafnvel í sömu götunni.

Það er því engin furða að markaðsmenn þurfi að taka á honum stóra sínum til að sannfæra landann um að ferðast út aftur. Icelandair ákvað t.d. að fara og tala við alls konar útlendinga í heiminum, sem svo skemmtilega vildi til að vildu allir Íslandi vel, kunnu margir hverjir sögur af Íslendingum og vissu ýmsan skemmtilegan fróðleik um landið. Enginn var foj út í okkur út af hruninu og enginn minntist á Icesave.
Borgun tók þennan bolta svo á lofti í tengslum við U-21 árs landsliðið. Þeir stóðu frammi fyrir því snúna verkefni að sannfæra Íslendinga um að gera tvo framandi hluti; annars vegar að fara til útlands og vera þar í nokkra daga og hins vegar að horfa þar á íslenskt landslið keppa í lokakeppni EM.

Lausnin var róttæk. Borgun ákvað að búa til eins konar Truman Show fyrir Íslendinga í ferðahug. Þeir færu vissulega til annars lands en þeir þyrftu ekki að verða varir við neinar breytingar; þeir gætu keypt sér íslenska boli í fatabúðunum, fengið íslenskt remúlaði með pulsunni, gefið pulsusalanum high-five og loks hlustað á Ný dönsk á meðan þeir skelltu í sig nokkrum bjórum á næsta pöbb. Það vantaði bara að það yrði komið fyrir stórri vindvél á Strikinu svo Íslendingarnir fari nú örugglega ekki að sakna íslenska roksins.

En eins og í Truman Show gekk planið síðan ekki alveg að óskum. Það sem enginn átti von á að gæti klikkað, þ.e. hið óstöðvandi U-21 árs landslið þjóðarinnar, náði ekki að sigra mótið eins og talið var orðið nánast formsatriði að gera þrátt fyrir að vinna Dani frækilega. Töp gegn Hvít-Rússum og Svisslendingum gerðu þær vonir að engu. Dæmigert fyrir þessa útlendinga að eyðileggja þetta líka…

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.