Töfrar leikhússins

Að standa í því að setja upp áhugamannaleiksýningu er tilfinningaleg rússíbanareið. Í upphafi fyllir eldmóður brjóst allra viðstaddra og tilvonandi sýning skal sigra heiminn. Ekkert minna.

Síðastliðið haust var ég beðinn um að gefa kost á mér til formennsku í litlu leikfélagi austur á fjörðum. Ég hafði þá tekið þátt í tveimur uppsetningum þessa leikfélags. Annars vegar haustið 2004 og hins vegar fyrsta hernámsdagsleikriti félagsins síðast liðið sumar. Þar sem starf í leikfélagi er afspyrnuskemmtilegt lét ég slag standa.

Þannig hófst síðan ævintýri sem að endar með því að næst komandi föstudagskvöld verður frumburður minn og gjaldkera félagsins í leikritaformi frumsýndur í Félagslundi á Reyðarfirði. Nokkuð sem að mig hefði tæplegast órað fyrir hefði ég verið spurður fyrir ári síðan. En svona þróast hlutirnir oft skemmtilega undarlega.

Að standa í því að setja upp áhugamannaleiksýningu er tilfinningaleg rússíbanareið. Í upphafi fyllir eldmóður brjóst allra viðstaddra og tilvonandi sýning skal sigra heiminn. Ekkert minna. Æfingaferlið sígur hægt og hljótt af stað og nær slíkum hæðum að lokum að pirringur, háreisti og stress sem jaðrar við taugaáfall nær tökum á mönnum. Erillinn er mikill og áreitið stanslaust. Það þarf að redda þessu og bjarga hinu. Smáatriðin sem að kippa þarf í liðin reynast óendanleg. Leikarar eru misjafnir þó allir gefi þeir sig í verkefnið af öllu hjarta. Svona mætti lengi telja og ætti að verða til þess að maður kæmi ekki nálægt slíku verkefni.

En svo eru það jákvæðu þættirnir. Það þegar að allt gengur upp og síðasta púslið sem enginn fann á generalprufunni svífur á sinn rétta stað líkt og það hafi aldrei verið annars staðar. Þá stendur maður uppi sem sigurvegari heimsins burtséð frá öllu öðru. Eða þegar að maður sér nágranna sína og sveitunga fylla húsið kvöld eftir kvöld og ganga þaðan aftur með bros á vör. Svo ekki sé talað um þann félagsskap og þau hlýju tengsl sem að myndast þegar að fólk vinnur svo náið saman, svo lengi að markmiði sem að er jafn skemmtilegt og gefandi og það að leysa úr læðingi sköpunarkraft venjulegs fólks, í venjulegri vinnu, á venjulegum stað. Sem allt gefur frítíma sinn í ómældum mæli án þess að krefjast nokkurs í staðinn.

Þess vegna er það ekki kvöð heldur forréttindi að fá að starfa í menningarfélagi á borð við Leikfélag Reyðarfjarðar. Og jú það er ekki ónýtt heldur að fá að klæða sig í offiserajúníform einu sinni á ári með þeim myndugleika sem slíkri múnderingu fylgir.