Í dag er fyrsti dagurinn í jákvæðu viku Deiglunnar og er gaman að fá að taka þátt í henni, sérstaklega á tímum þar sem jákvæðar fréttir og umræða eru af svo skornum skammti. Eftir hrunið greip um sig mikil hræðsla og reiði sem hefur smitast og viðhaldist merkilega lengi. Ef marka má dómsdagsspár síðustu ára yfir mönnum og málefnum mætti álykta sem svo að hér byggji óforbetranleg, gjaldþrota þjóð, siðferðilega og fjárhagslega sem ætti það eina verk eftir að láta síðasta manninn slökkva á eftir sér í Leifsstöð. Þvílík firra, því um leið og við slökkvum á reiðu röddunum í fjölmiðlum og skoðum stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði sjáum við hversu heppin við erum að vera Íslendingar.
Hvar er betra að hefja slíka skoðun heldur en í skýrslu Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna. Árið 2010, tveimur árum eftir hrunið, segir skýrslan að Ísland sé í 17. sæti yfir þróun lífsgæða í öllum heiminum. Eftir allt sem á undan er gengið, allar heimsendaspárnar sem hafa birst okkur í hádeginu á sunnudögum er betra að lifa á Íslandi en til dæmis í Danmörku og á Spáni.
Aðeins ef þú ert fæddur í Japan geturðu átt von á því að lifa lengur en Íslendingur. Íslendingurinn getur átt von á því að verða 82,1 árs á meðan Bandaríkjamaðurinn þarf að sætta sig við 79,6 ár sem dæmi. Lífslíkur segja samt ekki alla söguna. Hverjum manni er það mikilvægast að geta séð börnum sínum og nánustu fyrir sem öruggasta umhverfi og lífi sem völ er á. Institute for Economics & Peace, sem myndi útleggjast sem „stofnun efnahagsmála og friðar“ á íslensku, gefur út á hverju ári skýrslu með upplýsingum um friðarmál í hverju landi. Mælikvarðarnir eru fjölmargir, líkt og fjöldi morða, glæpa, staða mannréttinda og margt fleira.
Í samantekt stofnunarinnar kemur fram að árið 2011, rétt eins og árið á undan er hvergi friðsamara umhverfi að finna en á Íslandi. Íslendingar búa við lang friðsamlegasta umhverfið í heiminum, en á eftir Íslandi kemur Nýja Sjáland. Vinir okkar Danir búa við fjórðu mestu friðsemdina á meðan Bandaríkjamenn mega lifa með því að ala börn sín upp í 82. friðsamlegasta ríki heims. Enginn her er á Íslandi og íslensk ungmenni geta áhyggjulaus skipulagt framtíð sína án þess að eiga hættu á að vera send á vígstöðvar. Þrátt fyrir herleysið situr skerið okkar litla í skjóli máttugasta varnarbandalags veraldar, án þess að leggja svo mikið sem eina krónu til varnarmála. Meðan lönd Austur-Evrópu sultu heilu hungri í járngreipum kommúnista, sátum við undir hlífðarskildi Atlantshafsbandalagsins og gerum áfram.
Jafnrétti hefur verið ofarlega í umræðunni síðustu ár og eru allflestir sammála því að einstaklingar eigi að njóta jafnréttis í hvívetna óháð kyni. Slíkt er ekki einungis grundvallarspurning siðferðilega, heldur einnig mikilvægt í efnahagslegu tilliti, því jöfn staða kynjanna eykur samkeppnishæfni hagkerfisins og sóar ekki þeirri verðmætasköpun sem konur mynda þegar þær standa jafnfætis karlmönnum. World Economic Forum, tekur saman lista á hverju ári sem sýnir kynjabil milli ríkja. Árið 2010 var Ísland, rétt eins og árið áður, efst á þeim lista, þ.e.a.s á Íslandi er minnsta kynjabilið af þeim ríkjum sem rannsóknin nær yfir. Frændur okkar Danir verma 7. sætið, Bandaríkin 19. sæti og lífskúnstnerarnir í Frakklandi verma 46. sætið. Ljóst er því að í framtíðinni mun íslenskt samfélag njóta þeirra hæfileika og verðmætasköpunar sem konur samfélagsins munu reiða fram í meiri mæli en aðrar þjóðir og dætur okkar vera í minnstri hættu allra að verða fyrir mismunun á grundvelli kynferðis.
Það efnahagsáfall sem Ísland varð fyrir haustið 2008 var gífurlegt. Reikna má með að erlendir kröfuhafar íslensku bankanna hafi tapað 3500-4000 milljörðum króna, sem er margföld landsframleiðsla Íslands. Hins vegar er það lykilsetning í því máli öllu, að erlendir kröfuhafar voru látnir taka mesta tapið á sig, ekki íslenskir skattgreiðendur. Þvert á þær leiðir sem önnur ríki fóru, að láta skattgreiðendur í veð fyrir skuldum bankakerfa sinna. Jafnframt tókst um leið að koma nýju fjármálakerfi strax á og hið gamla hrundi, sem þýddi að greiðslukerfið hélst á floti. Ef það hefði ekki gerst, hefðu fyrirtæki ekki getað greitt laun til starfsmanna eða birgja fyrir vörur sem hefði þýtt að hagkerfið hefði botnfrosið með skelfilegum afleiðingum. Þessu var sneitt framhjá með neyðarlögunum, þannig að greiðslumiðlunin hélst á floti og erlendir kröfuhafar látnir sitja uppi með þá áhættu sem þeir tóku með því að lána bönkunum gegn vöxtum. Þeim sem sat upp í brúnni þegar þetta var gert, hefur núna verið stefnt fyrir Landsdóm af nokkrum smásálum á Alþingi sem reyna að nýta sér ástandið til pólitísks brúks.
Þrátt fyrir að fjármálakerfið hafi hrunið, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að það þýðir ekki það sama og framleiðsluhagkerfið hafi hrunið. Fiskurinn í sjónum hverfur ekki þótt einhverjir pappírar lækki í verði og endurnýjanleg orka er ennþá til staðar. Háskólagráðurnar gufa ekki upp við lækkun úrvalsvísitölunnar og Íslendingar eru því ennþá mjög vel menntuð þjóð og innri stoðir samfélagsins standa enn. CCP gerir ennþá góðan tölvuleik og útflutningur á fiski fer enn fram með góðu móti. Hins vegar hefur fyrirsjáanlegur samdráttur orðið í landsframleiðslu síðustu tvö árin, sem hefur leitt af sér atvinnuleysi og talsverða kaupmáttarrýrnun. Þrátt fyrir að atvinnuleysið sé ekki mikið í alþjóðlegum samanburði, er það mun meira en Íslendingar eiga að venjast. Kostnaður vegna atvinnuleysis er líka mikill, ekki eingöngu vegna tilfærslu fjármuna í hagkerfinu, heldur út af því að hendur og hugir sem ættu að vera í verðmætaframleiðslu eru skilin eftir ónýtt.
Ísland lenti í áfalli þegar fjármálakerfið, ( ekki framleiðsluhagkerfið) hrundi haustið 2008. Þrátt fyrir það stendur Ísland enn sem eitt fremsta velferðarríki heims og stendur upp úr á mörgum sviðum. Hvort sem litið er til efnislegra lífsgæða, öryggis, jafnréttis eða velferðar eru fá ríki sem standa okkur á sporði. Við framleiðum meiri gæði en við flytjum inn og geta borgarar þessa lands treyst því að fá alla þá grunnþjónustu sem það þarf þegar á móti hallar. En til þess að geta viðhaldið þessu metnaðarfulla kerfi sem við höfum byggt upp síðustu áratugina, og til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, þarf ríkisstjórn sem skilur að til þess þarf að framleiða verðmæti. Eða að minnsta kosti ríkisstjórn sem berst ekki gegn verðmætasköpun. Því er einstaklega ánægjulegt að búa í lýðræðisþjóðfélagi þar sem borgararnir geta að endingu mokað út þeim ráðamönnum sem ekki vilja í þeim heyra.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021