Erlendir vogunarsjóðir fara ekki svangir að sofa

Þegar kreppan skall á árið 2008 stóðu ráðamenn frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um hvernig ætti að bregðast við. Þar þurfti að forgangsraða og fórna tilteknum hagsmunum til að tryggja aðra. Leiðin sem íslensk stjórnvöld fóru byggði á þeirri hugsun að vernda þjóðina eins og hægt var og að ríkissjóður taki á sig eins lítið og mögulegt var af erlendum skuldum bankanna, sem mætti einnig orða þannig að betra sé að erlendir vogunarsjóðir fari svangir að sofa en íslenskar fjölskyldur.

Þegar kreppan skall á árið 2008 stóðu ráðamenn frammi fyrir erfiðum ákvörðunum um hvernig ætti að bregðast við. Þar þurfti að forgangsraða og fórna tilteknum hagsmunum til að tryggja aðra. Leiðin sem íslensk stjórnvöld fóru byggði á þeirri hugsun að vernda þjóðina eins og hægt var og að ríkissjóður taki á sig eins lítið og mögulegt var af erlendum skuldum bankanna, sem mætti orða þannig að betra sé að erlendir vogunarsjóðir fari svangir að sofa en íslenskar fjölskyldur.

Þessi leið, sem var gagnrýnd harðlega til að byrja með, ekki síst erlendis frá, nýtur nú aukins skilnings samhliða því að fleiri þjóðir lenda í alvarlegum erfiðleikum og þurfa á utanaðkomandi aðstoð að halda. Sú kenning, sem haldið var á lofti eftir hremmingarnar 2008, um að örlög Íslands væru hálfgert frávik sem gæti ekki komið fyrir aðrar Evrópuþjóðir sem nutu ríkisábyrgða og björgunarsjóða Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, hefur ekki staðist.

Gjaldþrot – stórt gjaldþrot
Staðreyndin er sú að þótt á stórum skala sé, er gjaldþrot bankanna í sjálfu sér ekki annað en nákvæmlega það – stórt gjaldþrot. Kröfuhafarnir fá eitthvað upp í sínar kröfur, eins og til er. Sparifjáreigendur eru þar á meðal og virðist sem ráðstöfun neyðarlaganna um að færa kröfur á grundvelli innistæðna ofar í réttindaröðina ætli að ganga upp. Auðvitað var það ákveðið brot á meginreglum EES-réttarins að takmarka ábyrgð á innistæðum við Ísland en á það verður að horfa að reglur Evrópuréttarins voru settar til að liðka fyrir viðskiptum og auka hagsæld en ekki til að steypa þjóðum í fátæktargildrur. Íslensk stjórnvöld hafa borið fyrir sig sjónarmiðum neyðarréttar sem er gert ráð fyrir að aðildarríki geti beitt við tilteknar aðstæður.

Engin aðstoð fékkst
Í aðdraganda hrunsins höfðu stjórnvöld leitað víða fyrir sér með utanaðkomandi aðstoð í formi neyðarláns. Engin af okkar hefðbundnu vinaþjóðum var tilbúin að hjálpa enda með nóg á sinni könnu og Ísland hafði ekki aðgang að neyðaraðstoð Evrópusambandsins. Svörin voru allajafna á þá leið að Ísland ætti að leita til AGS, sem engin vestræn þjóð hafði þá gert í meira en 30 ár. Það var hins vegar eina leiðin eftir að bankarnir hrundu og um skeið leit út fyrir að Ísland yrði eina fórnarlamb efnahagskreppunnar.

Grikkland, Írland, Spánn, Portúgal…
Örlög Grikklands voru fyrsta vísbendingin um að svo yrði ekki. Vandræði Íra og í kjölfarið Portúgala og Spánverja eru enn frekari sannanir þess að stærð og aðild að alþjóðasamtökum er ekki nægjanleg trygging þess að allt sé í lagi og að allt bjargist. Allir sjóðir og öll tryggingarkerfi hafa sín takmörk og sitt þanþol. Neyðarlán til Grikkja og Íra voru stór biti fyrir hinar Evrópuþjóðirnar, einkum Þjóðverja og Frakka sem bera hitann og þungann af kostnaðinum við aðgerðirnar. Gerist það að Portúgalir og Spánverjar þurfi á slíku að halda mun spurningin ekki lengur snúast um hvort menn vilji koma til aðstoðar heldur hvort yfirhöfuð sé innistæða fyrir slíkum aðgerðum.

Á sama tíma er leið Íslands út úr þrengingum sínum að verða álitlegri. Sú staðreynd að stjórnvöld gengust ekki á ögurstundu haustið 2008 í ábyrgð fyrir banka- og fjármálakerfið, með neyðarlánum eða annars konar risabjörgunaraðgerðum sem aldrei hefði verið hægt að ráða við, gerir stöðu okkar nú mun betri en ella. Vefútgáfa The Economist fjallaði á dögunum um lærdóminn frá Íslandi og bendir réttilega á að með því að fara óhefðbundna leið út úr vanda sínum sé íslenska efnahagskerfið að rétta hraðar úr kútnum en margir áttu von á. Íslenska leiðin er óhefðbundin einmitt að því leyti að stjórnvöld höfnuðu því að taka á sig eða ábyrgjast skuldir banka og fjármálastofnana og hafa þess í stað fókuserað á íslenska hagsmuni umfram þá erlendu. Með því var vitaskuld brotið gegn fjölda laga, reglugerða og alþjóðasamninga, ekki síst meginreglum evrópska fjármálamarkaðarins, þar sem meðhöndla á fyrirtæki og fjármagn á sama hátt óháð upprunalandi.

Röng viðbrögð
Samkvæmt kenningunni áttu þjóðir sem sýndu slíkan ribbaldaskap gagnvart alþjóðasamfélaginu ekkert gott skilið. Fyrir það fyrsta gátu þær átt von á því að enginn myndi stunda við þær viðskipti eða veita þeim lán eða taka okkur yfirhöfuð alvarlega í einu né neinu framar. Þetta hefur ekki gengið eftir. Fyrirtæki og fjármálafyrirtæki út um allan heim sýna Íslandi áhuga um þessar mundir, enda láta fyrirtæki allajafna ráðast af tækifærum og hagmsunum en ekki skoðunum ráða- og embættismanna um hvar æskilegt sé að þau stundi viðskipti. Í öðru lagi gátu Bretar beitt ákvæðum hryðjuverkalaga gegn íslenskum fyrirtækjum og aðilum í Bretlandi án þess að nokkur einasta þjóð innan Evrópu eða annars staðar gerði við það neinar alvöru athugasemdir. Í þriðja lagi var lagt fyrir Íslendinga að samþykkja Icesave-samningana, þótt augljós áhætta væri á að með þeim væri íslenska þjóðin dæmd í skuldaáþján til næstu áratuga. Viðsemjendur Íslendinga létu í það skína að það hefði svo verulegar afleiðingar í för með sér að samþykkja ekki ríkisábyrgð á skuldinni og út um alla álfuna lögðu þjóðarleiðtogar á það áherslu að ekkert vit væri í öðru fyrir Íslendinga en að samþykkja þetta mál í hvelli.

Þessi viðbrögð erlendis frá byggðu á því sjónarmiði að kreppunni annars staðar væri að mestu lokið, þökk sé hinu trausta alþjóðlega tryggingarkerfi. Þeir sem skildu ekki leikinn og spiluðu ekki með gátu ekki vænst öðru en að vera mætt af hörku og eiga von á einangrun.

Þetta var rangt stöðumat. Áfellisdómarnir í garð Íslendinga komu fyrst og fremst frá pólitísku valdastéttinni á Vesturlöndum en miklu síður frá lánveitendum eða fyrirtækjum, þótt þau hafi vitaskuld verið ósátt við að tapa fjármunum. Og hið alþjóðlega tryggingarkerfi, sem sýndi styrk sinn í kreppunni á haustdögum 2008, er nú að verða myllusteinn um háls Evrópuþjóðanna. Þetta sést til að mynda ágætlega á gengi Angelu Merkel, kansala Þýskalands, sem var þar til fyrir ekki löngu með sterka stöðu sem leiðtogi stærsta Evrópuríkisins. Henni var eðlilega þakkað fyrir það sem leit út fyrir að vera vel heppnaður björgunarleiðangur en mun að sama skapi taka skellinn þegar aðrar Evrópuþjóðir þurfa á örlæti þýskra ríkissjóðsins að halda á næstu mánuðum.

Skuldaklyfjar skapa sjaldnast farsæla framtíð
Þegar kreppur skella á tapast mikið af peningum og fjármunum, yfirleitt eru það kröfuhafarnir sem tapa mestu. Þegar túlípanabólan varð í Hollandi í byrjun 17. aldarinnar, töpuðu kröfuhafar miklum fjármunum, m.a. vegna þess að dómstólar í Hollandi komust að því eftir á að samningar um kaup á túlípönum væru ógildanlegir. Í kreppunni 1929 nam tap kröfuhafa og fjármagnseigenda gríðarlegum fjárhæðum. Það tjón jafnar sig þó fljótlega og allajafna eru kröfuhafarnir ekki þeir sem missa heimili sín. Viðbrögðin við kreppunni skipta oft mun meira máli en hvernig hún kom til. Mikilvægast er að þjóðir fái eins fljótt og hægt er tækifæri til að vinna sig upp aftur og njóta góðs af ávinningnum. Sagan hefur sýnt að þungar skuldaklyfjar á þjóðir, hversu réttlætanlegar sem þær kunna að virðast í upphafi, skapa yfirleitt meira óréttlæti en þeim er ætlað að laga.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.