Persónukjör – Jón eða séra Jón?

Í kjölfar kosninga til stjórnlagaþings hefur ýmislegt áhugavert komið í ljós. Frá upphafi var áhugi á þinginu lítill sem kristallaðist í lélegri kosningaþátttöku. Kosningarnar voru engu að síður einstakar fyrir þær sakir að í fyrsta sinn var notast við þetta fyrirkomulag og látið reyna á persónukjör.

Í kjölfar kosninga til stjórnlagaþings hefur ýmislegt áhugavert komið í ljós. Frá upphafi var áhugi á þinginu lítill sem kristallaðist í lélegri kosningaþátttöku. Kosningarnar voru engu að síður einstakar fyrir þær sakir að í fyrsta sinn var notast við þetta fyrirkomulag og látið reyna á persónukjör.

Eitt af því sem þessar kosningar og kosningaþátttakan sýndu að persónukjör er ekki heppilegt fyrirkomulegt til að taka upp. Fjöldinn allur af frambjóðendum höfðu það á stefnuskrá sinni að festa persónukjör inn í stjórnarskrá og þar með reyna að takmarka vald stjórnmálaflokkanna. Hugsunin með persónukjöri er sú að kjósandinn getur valið af lista frambjóðendur, óháð flokkum og þannig gæti kjósandi t.d. bæði kosið Steingrím J. og Bjarna Ben í sömu kosningunni.

Gallarnir á kerfinu vega þó mun þyngra en kostirnir að mati undirritaðs. Fyrst ber að nefna augljósustu staðreyndina frá kosningum til stjórnlagaþingsins, en kosningin dró fram mesta veikleika persónukjörs . Nefnilega það að þeir frægu og þekktu hlutu náð fyrir augum kjósenda. Í raun er þetta þekkt vandmál úr prófkjörum flokka þar sem erfitt reynist fyrir nýja og óþekkta einstaklinga að ná góðum árangri úr prófkjöri, m.ö.o. endurnýjunin verður lítil – fólk virðist kjósa þá sem það þekkir.

Önnur ástæða er sú að í kjölfar persónukjörs myndast fjöldinn allur af þrýstihópum sem hreinlega líma sig á þingmenn, safna peningum og atkvæðum í skiptum fyrir stuðning á ákveðnum málefnum. Í aðdraganda kosninganna til stjórnlagaþings bar töluvert á þessu og er sennilega besta dæmið þegar nokkuð þekktur jeppaklúbbur hafði samband við fjölda frambjóðenda og bauð þeim atkvæði í skiptum fyrir að viðkomandi stjórnlagaþingmaður myndi tala máli jeppaklúbbsins á þinginu! Núna fylgir ekki sögunni hvort jeppaklúbbnum tókst ætlunarverk sitt en flestir eru sammála um að samfélagið myndi ekki vilja hafa svona vitleysu í kosningum til Alþingis . Þjóðfélag sem stjórnast af lobbyisma væri Íslandi ekki til framdráttar á þessari stundu.

Þriðja ástæðan fyrir því að persónukjör er ekki eitthvað sem við ættum að taka upp á Íslandi er sú að við ættum ekki að kæra okkur um fulltrúa stórfyrirtækja inni á Alþingi í dulargervi þingmanna. Tökum dæmi: Í persónukjöri þarftu ekki að fara í gegnum síuna sem stjórnmálaflokkar eru. Þannig eitthvað mjög stórt og umsvifamikið fyrirtæki gæti fengið hvaða þjóðþekkta einstakling sem er, borgað honum mjög háa upphæð fyrir að fara í framboð til Alþingis. Fyrirtækið myndi síðan borga fyrir alla hans kosningabaráttu, spunameistara og annað slíkt – að sjálfsögðu fengi svo enginn að vita af tengslum frambjóðandans við stórfyrirtækið. Það gætu verið ágætis líkur á að þessi frambjóðandi myndi hljóta náð fyrir augum kjósenda.

Að lokum gætu þingmenn sem kjörnir eru persónukjöri verið veikir fyrir því að borið yrði á þá fé. Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þingmenn myndu þiggja mútur fyrir stuðning á málum en það er hægt að segja að þeir væru öruggari í núverandi kerfi. Þarna kemur stjórnmálaflokkurinn til sögunar, það er hægt að múta einni manneskju en ekki heilum þingflokki. Þannig virkar stjórnmálaflokkurinn sem ákveðið aðhald því sjaldnast fara þingmenn á móti eigin flokki (ef undan er skilinn þingflokkur VG auðvitað) og það að tilheyra þingflokki tryggir líka ákveðinn aga og ákveðna umræðu meðal þingmanna sín á milli. Því er erfitt fyrir þingmenn að þiggja mútur í núverandi skipulagi.

Stjórnmálaflokkar eru langt því frá að vera fullkomnir en gegna þó ákveðnum hlutverkum sem ekki má gera lítið úr. Eftir hrunið hefur verið í tísku að hata fjórflokkinn og sumir fara svo langt með að kenna honum um allt sem farið hefur úrskeiðið hér – slíkt er ofmat. Hvað sem því líður eru rökin gegn persónukjöri mun fleiri en rökin með og að taka upp persónukjör í Alþingiskosningum er vond hugmynd hvernig sem á það er litið.