Prinsessan, millistéttarstelpan og poppdívan

Það hafa eflaust ófáar ungar konur tárast í seinustu viku er fréttir bárust af trúlofun Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton, tilvonandi prinsessu. Breskir fjölmiðlar misstu sjónar á öðrum fréttum um stund og fóru hamförum í brúðkaupsundirbúningi; eitt slúðurdagblaðið fékk t.a.m. fatahönnuðina sem gerðu brúðarkjól Díönu prinsessu til að teikna upp nokkra hentuga kjóla fyrir Kate. Hentugir kjólar fyrir Kate voru nokkuð langt frá íburðarmiklum 80’s-brúðarkjól Díönu en trúlofunarhringurinn er sá sami, og sú rómantík mun án efa einnig hafa grætt nokkrar stúlkur. En eiga þær eitthvað meira sameiginlegt, Díana og Kate, fyrir utan hið augljóslega, að giftast báðar prinsum sem báðu þeirra með sama hringnum?

Það hafa eflaust ófáar ungar konur tárast í seinustu viku er fréttir bárust af trúlofun Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton, tilvonandi prinsessu. Breskir fjölmiðlar misstu sjónar á öðrum fréttum um stund og fóru hamförum í brúðkaupsundirbúningi; eitt slúðurdagblaðið fékk t.a.m. fatahönnuðina sem gerðu brúðarkjól Díönu prinsessu til að teikna upp nokkra hentuga kjóla fyrir Kate. Hentugir kjólar fyrir Kate voru nokkuð langt frá íburðarmiklum 80’s-brúðarkjól Díönu en trúlofunarhringurinn er sá sami, og sú rómantík mun án efa einnig hafa grætt nokkrar stúlkur. En eiga þær eitthvað meira sameiginlegt, Díana og Kate, fyrir utan hið augljóslega, að giftast báðar prinsum sem báðu þeirra með sama hringnum?

Í fljótu bragði virðast þær eiga frekar fátt annað sameiginlegt. Kate Middleton kemur úr millistéttarfjölskyldu og hafði ekki átt nein samskipti við bresku konungsfjölskylduna áður en hún kynntist Vilhjálmi í St. Andrew’s-háskóla. Fjölskylda Díönu þekkti hins vegar vel til aðalsins enda úr efri stigum þjóðfélagsins og Díana því álitlegt konuefni fyrir arftaka krúnunnar. Prinsessulíf hennar var þó langt því frá dans á rósum, eins og frægt er að endemum, en hún var undir stöðugu eftirliti slúðurpressunnar allt frá því hún trúlofaðist Karli og þangað til hún lést, langt fyrir aldur fram.

Þegar fjölmiðlar komust á snoðir um samband Vilhjálms og Kate varð enska millistéttarstelpan fræg á einni nóttu. Ljósmyndarar eltu hana á röndum hvert sem hún fór og reyndu eftir bestu getu að draga fram einhverja fjölskylduskandala. Þeir hafa ekki enn haft erindi sem erfiði og Kate hefur ekki verið fastagestur á síðum miðla á borð við The Sun og Daily Mirror. Hvort það breytist nú þegar hún hefur loksins trúlofast Villa er erfitt að segja til um en hingað til hefur ensk lágstéttarstelpa mátt þola svipaða ágengni fjölmiðla og dundi yfir Díönu á sínum tíma.

Lágstéttarstelpan heitir Cheryl Cole. Hún er í dag skærasta poppdíva Bretlandseyja og gerði garðinn fyrst frægan með stúlknahljómsveitinni Girls Aloud. Hún þykir ekki aðeins forkunnarfögur heldur er hún sögð hafa afar fágaða og sjarmerandi framkomu, en hún vann endanlega hug og hjörtu bresku þjóðarinnar þegar Simon Cowell fékk hana í dómarateymið í X Factor-þáttunum. Hún var þá gift knattspyrnumanninum Ashley Cole en þau skildu fyrr á þessu ári eftir ítrekuð framhjáhöld eiginmannsins. Slúðurblöðin fóru mikinn í umfjöllun sinni um ástkonur Cole, viðbrögð Cheryl og sjálfan skilnaðinn en til að bæta gráu ofan á svart veiktist Cheryl alvarlega af malaríu síðsumars og urðu veikindin síst til að minnka áhuga fjölmiðla á einkalífi hennar.

Cheryl hefur verið nefnd „hin nýja Díana prinsessa“, ekki aðeins vegna ástar bresks almennings á henni heldur einnig vegna þess hversu mikinn áhuga slúðurblöðin hafa á henni. Sjálf segist Cheryl ekki eiga sér einkalíf heldur aðeins persónulegt líf (e. personal life); það sé ómögulegt að eiga einkalíf þegar maður sé eltur á röndum. Venjulegt fólk gerir sér ef til vill ekki alltaf grein fyrir alvarleika þess þegar fjallað er um frægt fólk á jafnóvæginn hátt og oft vill verða, og telur umfjöllunina auk þess gjarnan sjálfsagða: þú valdir það að vera fræg/frægur svo þú skalt bara díla við það að það sé slúðrað um þig.

Slúður er jú fylgifiskur frægðarinnar en öllu má þó ofgera, eins og raunin var með Díönu prinsessu, og gerist ítrekað í tilviki Cheryl Cole. Kate Middleton hefur verið heppin hingað til og ég vona að hún verði það áfram því eins og hún sagði sjálf einhvern tímann: hvað hefur hún eiginlega gert svona merkilegt að það þarfnist þess að ljósmyndarar elti hana dag og nótt? Hún varð bara ástfangin af prinsi.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.