Hvers á B-fólk að gjalda?

Ég tilheyri hópi B-fólks þegar kemur að svefnvenjum. Ég get ekki með nokkru móti sofnað fyrr en eftir 2 á nóttunni og tel það til kvala og pyntinga að þurfa að vakna fyrir hádegi. Í 22 ár hef ég hins vegar verið þræll A- fólksins svokallaða, sem hefur, af óskiljanlegum ástæðum, tekist að sannfæra samfélagið í heild sinni um ágæti þess að hefja daginn snemma.

Ég tilheyri hópi B-fólks þegar kemur að svefnvenjum. Ég get ekki með nokkru móti sofnað fyrr en eftir 2 á nóttunni og tel það til kvala og pyntinga að þurfa að vakna fyrir hádegi. Í 22 ár hef ég hins vegar verið þræll A- fólksins svokallaða, sem hefur, af óskiljanlegum ástæðum, tekist að sannfæra samfélagið í heild sinni um ágæti þess að hefja daginn snemma.

Ég vakna á tíma A-manneskjunnar sem breytir því þó ekki að ég get ekki sofnað á nóttunni og ósjálfkrafa dett ég í vítahring kaffineyslunnar. Þegar A- manneskjan er upp á sitt besta og mætir í vinnu eldspræk og óþolandi kl. 8 eða 9, þá er ég búin með 5 kaffibolla til þess eins að komast út úr húsi. Auðvitað dreg ég það eftir fremsti megni að fara fram úr, enda í raun að vakna 2-5 tímum of snemma samkvæmt líkamsklukku minni, sem verður til þess að ég hef ekki borðað morgunmat síðan ég var smábarn. A-fólkið hefur haft af mér mikilvægustu máltíð dagsins í mörg ár. Ég heyri af fólki sem gerir eitthvað um helgar, spókar sig í góða veðrinu, kíkir í búðir eða býður í brunch. Hvað geri ég um helgar? Jú ég sef. Ég sef upp allan þann svefn sem ég hef misst um vikunna. A-fólkið hefur haft af mér tvö frídaga í viku í 22 ár og nú segi ég stopp!

Lengi hef ég haft horn í síðu A-fólksins og þótti mér því sérlega ánægjulegt þegar fréttir bárust frá Bretlandi í vikunni, um að vísindamenn við LSE hafi rannsakað A-og B-fólkið og komist að þeirri niðurstöðu að B-fólkið sé að jafnaði með hærri greindarvísistölu heldur en A-fólkið. HA! Loksins! Loksins! A-fólkið hefur kannski kúgað samfélagið til þess að rífa sig á fætur langt áður en sólin rís, en við B-fólkið erum í það minnsta gáfaðari!

Rannsóknin leiddi því miður líka í ljós að B-fólk væri jafnframt óáreiðanlegra og líklegra til þess að þjást af þunglyndi og fíknarsjúkdómum. Er þetta enn eitt dæmið um slæmar afleiðingar kúgunarsamfélags A-fólksins. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að einstaklingur sem rífur sig á fætur 2-5 tímum áður en honum er það líkamlega eðlilegt og fær aldrei fullan nætursvefn, sé líklegri til þess að vera þunglyndur og ekki þarf heldur að koma neinum á óvart að manneskja sem er á röngum stað sólarhrings síns sé svolítið óáreiðanleg. Ekki bætir úr skák að við búum á landi sem er á bandvitlausu tímabelti.

Í hundruði ára höfum við B-greyin verið fórnarlömb A-fólksins. Við höfum vaknað eftir ónægan svefn, við höfum dópað okkur upp á koffíni til þess að komast í gegnum daginn, við höfum ekki getað borðað morgunmat frá því elstu menn muna, aldrei notið helgarfrís og nú hefur komið í ljós að við erum þunglyndari og óáreiðanlegri fyrir vikið. Samfélagið er svo gegnum sýrt af sannfæringarkrafti A-fólksins að því þykir við vera aumingjar, aumingjar sem ekki nenna að vakna á morgnana og vegna þess að við erum aumingjar vorkennir okkur enginn. Við eigum bara að hrista af okkur þennan mótþróa og fara fyrr að sofa á kvöldin.

Ég er ekki að ætlast til þess að okkur B-fólkinu sé leyft að kúga A-fólkið í nokkur ár til þess að leiðrétta þetta langvarandi óréttlæti. Mun skynsamlegra væri að gera það valkvætt hvort fólk mætir kl. 8 eða 10 í skóla og á vinnustaði. Í dönskum grunnskóla hefur þetta fyrirkomulag verið reynt og ráða nemendur þar á bæ hvort þeir mæta kl. 8 eða 10 í skólann. Hefur þetta reynst vel og orðið til þess að allir nemendur eru vakandi í tímum, enda hefur B-fólki í þeim skóla verið gefin þau sjálfsögðu réttindi að mæta úthvíld í skólann rétt eins og A-fólkið hefur alla tíð gert.

A- fólkið hefur stjórnað þessu samfélagi um áraraðir og nú segi ég stopp! Tökum höndum saman B-fólk, setjum fótinn niður og krefjumst þess að samfélagið mæti svefn þörfum okkar eins og A-fólksins.