Án takmarkana

Lífið er því ekki orðið alveg eins og það var fyrir Covid og spurningin er ef til vill hvort lífið verði einhvern tímann alveg eins og það var.

Tæpum þremur vikum eftir að öllum takmörkunum var aflétt voru Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn mættir aftur á upplýsingafund fyrr í dag, þann fyrsta í 49 daga.

Lífið er því ekki orðið alveg eins og það var fyrir Covid og spurningin er ef til vill hvort lífið verði einhvern tímann alveg eins og það var.

Ég velti því að minnsta kosti fyrir mér nokkrum dögum eftir að öllum takmörkunum var aflétt og ég fór eitt kvöldið út að borða í mathöll nokkurri og svo á fótboltaleik.

Þar sem ég beið í röð til að panta mér mat kom fólk í röðina fyrir aftan mig. Engin tveggja metra regla var auðvitað lengur í gildi svo fólkið stóð ansi þétt upp við mig.

Allt í lagi en það var verra þegar önnur manneskjan sem stóð þarna fyrir aftan mig hóstaði smá í áttina að mér. Engin gríma og engin tveggja metra regla og ég sá ekki almennilega hvort viðkomandi hélt fyrir munninn eða hóstaði í olnbogabótina. Mér var ekkert sérstaklega skemmt en jæja, ég var þó allavega nýbúin að fá seinni Pfizer-sprautuna og gat sprittað mig.

Á fótboltaleiknum hitti ég svo gamlan kollega sem ég hafði ekki séð lengi. Það voru því fagnaðarfundir og já, við bara knúsuðumst, ótrúlegt en satt! Síðan var bara enginn með grímu í stúkunni, fólk sat þétt saman og flakkaði um eins og það vildi.

Ferðamennirnir eru komnir aftur, Íslendingar flykkjast til Spánar og Köben og það er aftur hægt að djamma fram á morgun í miðbæ Reykjavíkur. Allt eins og það á að vera, fyrir utan að Covid er hérna enn og innanlandssmitum fer fjölgandi.

Þórólfur boðaði ekki hertar aðgerðir á fundinum í dag, enn sem komið er. Það sem við þurfum að vita og muna er að bólusettir geta greinilega smitast af veirunni og borið hana með sér. 

Við ættum því enn að fara varlega en við megum líka vona að útbreidd bólusetning komi í veg fyrir alvarleg veikindi hjá þeim sem smitast og fjórðu bylgjuna svo við getum áfram verið án takmarkana.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.