Besta fjárfestingin og forréttindin

Mín besta fjárfesting í lífinu hingað til er hvorki íbúðin sem ég á né meistaranámið mitt í London. Það er hugræna atferlismeðferðin sem ég fór í þegar ég var 24 ára sumarið 2009.

Mín besta fjárfesting í lífinu hingað til er hvorki íbúðin sem ég á né meistaranámið mitt í London. Það er hugræna atferlismeðferðin sem ég fór í þegar ég var 24 ára sumarið 2009. 

Þetta var átta vikna prógramm þar sem ég hitti sálfræðinginn minn einu sinni í viku. Mig minnir að tíminn hafi kostað 8.000 krónur svo fjárfestingin nam 64.000 krónum. 

Ég var greind með kvíðaröskun og þunglyndi. Ekkert alvarlegt hafði gerst hjá mér mánuðina á undan og ég var ekki með neitt óuppgert áfall í pokahorninu. 

Ég missti bara einhvern veginn tökin á lífinu, trúna á sjálfa mig og framtíðina. Það getur í raun gerst fyrir alla, sama hversu ljúft lífið er. 

Í hugrænu atferlismeðferðinni lærði ég alls kyns aðferðir til að takast á við kvíða og áhyggjur sem ég nýti mér enn í dag. Ég kynntist sjálfri mér betur og öðlaðist meiri færni í að setja fólki mörk. 

Ég var heppin að vera í þeirri stöðu fjárhagslega að geta farið til sálfræðings og fjárfest svona í sjálfri mér því sálfræðiþjónusta var ekki niðurgreidd af ríkinu.

Sálfræðiþjónusta er raunar enn ekki niðurgreidd þrátt fyrir að Alþingi hafi einróma samþykkt frumvarp Viðreisnar þess efnis í fyrravor.

Ég fer enn til sálfræðingsins sem tók fyrst á móti mér sumarið 2009. Ég hitti hana síðast fyrr í þessum mánuði. Í dag kostar tíminn 18.500 krónur sem þýðir að færi ég í meðferð sambærilega þeirri sem ég fór í fyrir tólf árum myndi hún kosta 148.000 krónur.

Ekki króna er niðurgreidd og þótt ég sé í þeirri forréttindastöðu að geta sótt mér þessa þjónustu þá er stór hópur í samfélaginu sem getur það ekki. 

Hvers vegna ríkisstjórnin ákvað að niðurgreiða ekki sálfræðiþjónustu, líkt og lögin heimila, er mér fyrirmunað að skilja. 

Ef til vill ræður þar hið heilaga prinsipp ríkisstjórnarinnar að allur einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sé af hinu illa. 

Viðreisn mun að minnsta kosti áfram berjast fyrir því að lögunum sé framfylgt og að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd af ríkinu. 

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.