Þingvellir DC

Ein alleiðinlegasta ákvörðun í nútímasögu Íslands var endurreisa Alþingi í Reykjavík en ekki á Þingvöllum. Auðvitað var það skynsamleg ákvörðun. Hér er ekki deilt um það. Reykjavík hafði margfalt betri infrastrúktur (eða öllu heldur einhvern infrastrúktur) til að taka við þessu verkefni. Í Reykjavík voru hús. Á Þingvöllum ekki. Þannig að ákvörðunin var hagkvæm, rökrétt og rétt. En mikið var hún var leiðinleg.

Ein alleiðinlegasta ákvörðun í nútímasögu Íslands var endurreisa Alþingi í Reykjavík en ekki á Þingvöllum. Auðvitað var það skynsamleg ákvörðun. Hér er ekki deilt um það. Reykjavík hafði margfalt betri infrastrúktur (eða öllu heldur einhvern infrastrúktur) til að taka við þessu verkefni. Í Reykjavík voru hús. Á Þingvöllum ekki. Þannig að ákvörðunin var hagkvæm, rökrétt og rétt. En mikið var hún var leiðinleg.

Gerum smá hugartilraun. Alþingi er endurreist á Þingvöllum. Menn byggja hús fyrir það. Menn byggja íbúðarhúsnæði fyrir starfsmenn þess. Smám saman byggist upp lítið þorp, með torgi og aðalgötu. Þegar Íslendingar fá ráðherra þykir sjálfsagt að hann muni eiga aðsetur á Þingvöllum. Til verður stjórnsýsluhöfuðborg Íslands. Einhvers konar Washington DC. Á Þingvöllum búa þá helst lögfræðingar, lobbýistar og stjórnmálamenn. Allar byggingar eru úr stuðlabergi. Allir barir heita Ölstofan.

Reykjavík stækkar líka áfram. Þar er Háskóli Íslands, atvinnulífið og menningin. Það er byggð lest til Þingvalla við fyrsta mögulega tækifæri. Pólitíkusarnir verða að komast hratt á milli. “Samgöngur til Þingvalla verða að vera greiðar, allt árið um kring,” segja menn.

Reykvíkingar, eins og raunar aðrir landsmenn, fara smám saman að hata Þingvelli. “Þessu hefði nú enginn geta fundið upp á nema fíflin á Þingvöllum.” “Dæmigerð Þingvallahugsun, alltaf að skipta sér af. Fólkið má engu ráða sjálft.” Annar hver frambjóðandi myndi lofa að “taka til á Þingvöllum,” “breyta Þingvöllum,” “henda spillingunni í Peningagjána,” fyrir hverjar kosningar. Það myndi alltaf mistakast. Það yrði kallað Þingvallaáhrifin og talað um þingmenn sem Þingvallapakk. Það er líklegast ekki til sú þjóð sem upp til hópa er ánægð með stjórnmálastéttina sína.

Sagan tekur ákveðna stefnu og henni verður ekki aftur snúið. En mig dreymir stundum um að ég taki lest af Hlemmi, stíg út á Þingvöllum og rölti eftir Jónasargötu yfir á Fjölnistorgið. Tignarlegt Alþingishúsið gnæfir yfir. Við hlið þinghússins stendur Hæstiréttur Íslands. Ská yfir torginu hefur McDonalds komið sér fyrir í húsnæði gamals apóteks. Mörgum þótti það hneyksli, en hafa nú vanist því.

***

Í dag er kosið til stjórnlagaþings þar sem ég er í framboði. Langlokur á kjördegi eru óþarfar. Ég geng glaður frá þeirri kosningabaráttu sem nú er að líða. Ég hef gert mitt besta. Ég vona það besta.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.