Hvað verður um Evrópusambandið?

Undanfarna tvo daga hefur leiðtogafundur ESB átt sér stað í Brussel. Á dagskrá fundarins var ekki minna verkefni en að að finna lausn á evruvandanum og fékk hann mikla umfjöllun í alheimsfjölmiðlunum. Í aðdraganda fundarins voru settar fram margar yfirlýsingar og var því meðal annars haldið fastlega á lofti að fundurinn væri síðasta tækifæri Evrópusambandsins til þess að finna lausn á efnahagsvandanum, ella væri hreinlega úti um samstarfið. Fram komu hinar ýmsu dómsdagsspár um framtíð evrusvæðisins og Evrópusambandsins í heild sinni. Eftirvæntingar til niðurstöðu leiðtogafundarins voru því miklar þegar hann hófst á fimmtudaginn.

Undanfarna tvo daga hefur leiðtogafundur ESB átt sér stað í Brussel. Á dagskrá fundarins var ekki minna verkefni en að að finna lausn á evruvandanum og fékk hann mikla umfjöllun í alheimsfjölmiðlunum. Í aðdraganda fundarins voru settar fram margar yfirlýsingar og var því meðal annars haldið fastlega á lofti að fundurinn væri síðasta tækifæri Evrópusambandsins til þess að finna lausn á efnahagsvandanum, ella væri hreinlega úti um samstarfið. Fram komu hinar ýmsu dómsdagsspár um framtíð evrusvæðisins og Evrópusambandsins í heild sinni. Eftirvæntingar til niðurstöðu leiðtogafundarins voru því miklar þegar hann hófst á fimmtudaginn.

Á fundinum kom fljótlega upp ágreiningur milli Bretlands og annnarra aðildarríkja varðandi frekari samþættingu efnahagsstjórnunar á svæðinu. Talsverður rígur hefur einkennt samskipti innan ESB undanfarið hvað varðar völd aðildarríkja ESB sem standa utan evrusamstarfsins á sviðum efnahagsmála. Flest aðildarríki hafa lagt áherslu á að Evrópusambandið í heild sinni geri sameiginlegt samkomulag um efnahagsmál. Á fundinum varð hins vegar ljóst að það yrði ekki rauninn. Þegar Bretar óskuðu eftir undanþágu frá reglum um fjármálamarkaði vegna sérstöðu þeirra að því er varðar fjármálaþjónustu, var ljóst að ekki næðist samkomulag. Lét forsætisráðherra Lúxemborgar og formaður evruráðherranna, Jean-Claude Juncker þau orð falla að það væri álíka fráleitt að veita Bretlandi undanþágu á þessu sviði og á sviði félagsmála. Niðurstaðan varð því sú að gera samning milli evruríkjanna um fjármálastjórn en að sá samningur yrði opinn öðrum aðildarríkjum til undirritunar.

Niðurstaða fundarins var að 26 aðildarríki samþykktu sáttmála um fjármálaaga (e. treaty on financial discipline), en nokkur aðildarríki settu þó þann fyrirvara við samþykktina að þjóðþing viðkomandi ríkja þyrftu að veita blessun sína. Til stendur að sáttmálinn verði samþykktur endanlega í síðasta lagi í mars 2012. Bretland var eina aðildarríki ESB sem kaus að standa fyrir utan samstarfið og vekur það óneitanlega upp spurningar um framtíð sambandsins.

Að því gefnu, að sáttmálinn verði samþykktur af þeim þjóðþingum sem þurfa að veita slíkt samþykki, hafa 26 aðildarríki gert samning og eitt ríki stendur eftir. Er um nýja stöðu innan sambandsins að ræða, en í fyrri aðgerðum sem gripið hefur verið til lausnar á efnahagsvandanum hefur ávallt (að lokum) fengist samþykki allra aðildarríkja. Nú er þe komin upp sú staða að eitt ríki stendur utan nýja samningsins og tekur því ekki þátt í aukinni samhæfingu í fjármálastjórn. Í stað þess að aðildarríkin vinni saman að lausn mála undir Lissabonsáttmálanum og löggjöf á grundvelli hans, þá hefur verið gerður nýr samningur milli 26 af 27 aðildarríkjum.

Síðan ljóst varð að Bretland myndi ekki undirrita samninginn hefur mikið verið spáð í mögulegar afleiðingar þessa. Frá sjónarhóli Evrópusambandsins væri farsælasta niðurstaðan sú að afstaða Bretlands hefði ekki meiri áhrif en til dæmis það að Bretar taki ekki fullan þátt í Schengen samstarfinu, eða að Danmörk hefur undanþágu frá frjálsri fjárfestingu á sumarhúsum í Suður Jótlandi. Vandamálið liggur hinsvegar í því að Bretland hefur lýst því yfir að það vilji einungis að stofnanir ESB starfi fyrir öll aðildarríkin 27, en ekki einungis hluta þeirra. Áðurnefndur Jean-Claude Juncker sagði að slíkt væri fráleitt og að nauðsynlegt væri að stofnanir ESB gætu unnið að því að koma Evrópu út úr evruvandanum. Bretar hafa hins vegar hótað að fara með málið fyrir Evrópudómstólinn ef stofnanir ESB þjóna tilteknum ríkjum en ekki öðrum svo sem raunin yrði með nýja sáttmálann um fjármálaaga. Verði niðurstaðan sú að stofnunum ESB er óheimilt að starfa fyrir 26 af 27 aðildarríkjum hlýtur samningurinn að falla um sjálft sig á vettvangi Evrópusambandsins. Forseti leiðtogaráðsins Herman Van Rompuy og forseti framkvæmdastjórnarinnar Jose Manuel Barroso gáfu það út að þeir myndu láta geta úttekt á heimildum stofnana ESB.

Margar spurningar hafa vaknað í kjölfar þessa útspils Bretlands. Er Evrópusambandið hreinlega komið á endastöð? Mun Bretland ganga úr sambandinu? Mun Evrópusambandið klofna í tvennt? Mun Evrópusambandið þróast í einskonar „súper” yfirþjóðlega stofnun og nánast einskonar ríki og þau ríki sem kjósa að standa utan slíkrar stofnanar verða eftir í hefðbundnari milliríkjasamstarfi? Spurningin sem óneitanlega vaknar er hver framtíð Bretlands er innan ESB og hvort ríkið muni hreinlega ganga úr samstarfinu sem það virðist ekki sjá hag sinn í að framselja frekari efnahagsstjórn til. Spurningin er hins vegar hvort þeir eru tilbúnir að gefa eftir þau fjölmörgu réttindi sem fylgja veru í Evrópusambandinu og hvort Bretland, sem og hin 26 aðildarríkin, séu tilbúin að fórna samstarfi sem tók yfir 50 ár að byggja upp.

Fyrst eftir að Bretar tilkynntu að þeir hyggðust ekki taka þátt í samstarfinu voru fleiri aðildarríki á sömu skoðun, en að lokum voru Bretar einir eftir. Hefðu fleiri ríki utan myntbandalagsins kosið að fara sömu leið hefði staðan orðið grafalvarleg og myndi slíkt gefa til kynna að stór gjá hefði að skapast milli evruríkjanna og annarra aðildarrikja ESB. Þar sem Bretar standa einir utan þessa samnings bendir ýmislegt til þess að eitthvað sé til í orðum forseta Litháen sem sagði að það væri ekki Evrópa sem væri aðskilin, heldur einungis Bretar. Í öllu falli sáu önnur aðildarríki hag sinn í því að skrifa undir samninginn.

Í þeirri efnahagskreppu sem nú hrjáir Evrópu hafa ýmsir sleggjudómar komið fram um framtíð Evrópusamstarfsins og ekki síst í aðdraganda og kjölfar leiðtogafunda Sambandsins. Hver leiðtogafundur virðist vera „síðasti séns” en einhvern veginn kemur alltaf nýr dagur og evran er enn notuð í öllum 17 aðildarríkjum hennar. Tíminn einn mun leiða í ljós hver framtíð Evrópusambandsins og veru Bretlands innan þess er. Eitt er hins vegar ljóst, miklar breytingar geta verið í aðsigi ef einstaka ríki geta ekki lengur stöðvað önnur í frekari efnahagssamþættingu og verður áhugavert að fylgjast með því hvaða afleiðingar slíkt mun hafa á Evrópusambandið.