Þjóðfundur – ferðasaga

Í upphafi mánaðarins var ég í hópi þeirra eitt þúsund einstaklinga sem að komu saman í Laugardalshöll og skiptust á skoðunum um hugsjónalegan grundvöll stjórnarskrárinnar og innihald. Ég verð að játa að þegar að ég fékk bréf í hendurnar með þeim skilaboðum að ég skyldi vera reiðubúinn að sækja þjóðfund um stjórnarskrármál ef kæmi til forfalla aðalmanns var ég lítt upprifinn. Ég taldi fundinn tilgangslausan. Taldi ég augljóst að hann myndi engu skipta og engu skila í vinnu sem ekki nokkur þörf væri á að ráðast í.

Í upphafi mánaðarins var ég í hópi þeirra eitt þúsund einstaklinga sem að komu saman í Laugardalshöll og skiptust á skoðunum um hugsjónalegan grundvöll stjórnarskrárinnar og innihald. Ég verð að játa að þegar að ég fékk bréf í hendurnar með þeim skilaboðum að ég skyldi vera reiðubúinn að sækja þjóðfund um stjórnarskrármál ef kæmi til forfalla aðalmanns var ég lítt upprifinn. Ég taldi fundinn tilgangslausan. Taldi ég augljóst að hann myndi engu skipta og engu skila í vinnu sem ekki nokkur þörf væri á að ráðast í.

Þegar að símtalið þar sem að mér var boðin þátttaka í fundinum kom sat ég í stólnum hjá hárgreiðslukonunni minni og fékk ég góðfúslegt leyfi hennar til þess að svara. Erindið kom nokkuð flatt upp á mig og kringumstæður leyfðu ekki mikinn umþóttunartíma. Svarið varð því jákvætt og ég á leið til Reykjavíkur. Ég ákvað í kjölfarið að breyta hugarfari mínu gagnvart fundinum enda miklu til kostað að fá mig suður og því betra að reyna að hafa eitthvað fram að færa til þeirrar vinnu sem fyrirhuguð var. Las ég í kjölfarið stjórnarskránna og ígrundaði eitt og annað. Steig síðan upp í flugvél og sveif sem leið lá á fundinn. Þar beið lúðrasveit í anddyri Laugardalshallarinnar og spilaði ættjarðarlög. Var það því nokkuð kíminn efasemdarmaður sem að settist við hringborð G1 og beið eftir lengsta degi ævi sinnar.

Um leið og hin eiginlega vinna hófst steig efinn hins vegar til hliðar og ég tók virkan þátt í virkilega skemmtilegri vinnu enda leið dagurinn á örskotsstundu. Fyrirkomulag fundarins var enda ansi sniðugt og skipulagning og framkvæmd til algerrar fyrirmyndar enda ekki sjálfgefið að svo stór fundur þar sem skoðanaskipti og umræður eru í fyrirrúmi haldi áætlun og skili af sér jafn yfirgripsmiklum niðurstöðum. Því sama hvað segja má um niðurstöðurnar þá komu þær fram og ná til þeirra þátta sem upp var lagt með.

Ég ætla ekki að lýsa fyrirkomulaginu á fundinum eða framkvæmd hans neitt frekar enda þær upplýsingar aðgengilegar auk samantektar á niðurstöðum hans. Ætla ég frekar að víkja nánar að því sem að varð mér fljótt mikið hjartans mál, svo mjög raunar að það hefur ítrekað leitað á huga minn á þeirri viku sem liðin er frá fundinum.

Í upphafi fundar var okkur falið að ræða um þau grunngildi og hugmyndafræði sem stjórnarskrá ætti að byggja á. Niðurstaða þeirrar umræðu á ekki að koma nokkrum manni á óvart. Enda gat ég ekki betur heyrt en að nokkur samhljómur væri varðandi helstu gildin eins og jafnrétti, frelsi, mannréttindi, lýðræði og sjálfstæði. Nær sá samhljómur út fyrir veggi Laugardalshallar tel ég og endurspeglar almennan skilning landsmanna á þeim grunngildum sem þeir vilja byggja samfélag okkar á. Er þetta enda að mestu leyti í samhljómi við niðurstöður samskonar fundar sem blásið var til á síðasta ári og tók m.a. til þeirra gilda sem samfélagið ætti að byggja á.

Þessi ígrundun grunngilda er það sem helst situr eftir fundinn að mínu viti og mun gagnast stjórnlagaþinginu best í þeirri vinnu sem bíður þeirra eftir áramótin. Stjórnarskrá á nefnilega ekki eingöngu að vera þurr og líflaus lögfræðilegur texti sem snertir ekki streng í brjósti nokkurs manns nema honum hafi verið kyrfilega komið fyrir innan kassa stjórnskipunarréttar. Hún verður einnig að hafa gildi meðal þjóðarinnar sem einskonar sáttmáli þeirra grundvallaratriða sem stýra eiga íslensku samfélagi og þeirra grunngilda sem skipan sameiginlegra mála okkar á að byggja á. Það er ekki þar með sagt að stjórnarskráin eigi að flögra með himinskautum í heimspekilegum vangaveltum því þess þarf að gæta að hún glati ekki lögfræðilegu gildi sínu og fúnksjón enda er það hennar grunnhlutverk.

En hvað var þessi fundur? Að mínu viti var þessi fundur ýmislegt. Hvað hann stóð fyrir er margþætt og hvað er dregið fram ofar öðru fer eftir því hvaða sjónarhorni er beitt og hvaða væntingar eru hafðar uppi. Að hluta til var þetta peppfundur undirbúningsnefndar stjórnlagaþings. Að hluta til var þetta ventill fyrir uppsafnaða gremju þeirra sem fundinn sátu vegna „ástandsins“. Að hluta til var þetta tilraun til þess að safna skoðunum á stjórnarskránni; innihaldi og hugsun, meðal úrtaks þjóðarinnar. Það sem hins vegar skiptir mestu er að Þjóðfundur 2010 var einlægt framlag þeirra sem fundinn sátu. Fólks af ýmsum uppruna, á öllum aldri með misjafna reynslu og menntun. Fólks sem gerði sér ferð í Laugardalshöll á laugardagsmorgni til þess að setjast til borðs með ókunnugu fólki og leggja sitt af mörkum til þess að leggja grunninn að nýrri stjórnarskrá neðan frá og úr því má ekki gera lítið sama hvað mönnum finnst annars um niðurstöðurnar.

Og þá sitja stóru spurningarnar eftir. Skipti þessi fundur einhverju raunverulegu máli og mun hann leiða til einhvers? Því get ég ekki með nokkru móti svarað enda búa svörin í framtíðinni.