540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir

Belgar eru heimsfrægir fyrir að framleiða endalaust margar tegundir af bjór, galdra fram dýrindis súkkulaði, skella í vöfflur á heimsklassa og ótrúlegt en satt franskar. Belgar hafa slegið hvert metið á fætur öðru í gæðum á þessum vörum, en á árinu bættist nýtt heimsmet á listann; heimsmet í að vera ríkisstjórnarlaust land.

Belgar eru heimsfrægir fyrir að framleiða endalaust margar tegundir af bjór, galdra fram dýrindis súkkulaði, skella í vöfflur á heimsklassa og ótrúlegt en satt franskar, þótt nafnið beri það ekki með sér. Belgar hafa slegið hvert metið á fætur öðru í gæðum á þessum vörum, en á árinu bættist nýtt heimsmet á listann; heimsmet í að vera ríkisstjórnarlaust land. Þennan vafasama titil hlaut landið þegar það hafði verið án ríkisstjórnar í 289 daga í kjölfar kosninganna sem fóru fram þann 13. júní 2010.

Heimsmetið var slegið í mars, en það var þó ekki fyrr en í vikunni sem fór að sjá fyrir endann á stjórnarkreppunni eftir að sex flokkar undirrituðu ríkisstjórnarsáttmála. Ráðgert er að nýr forsætisráðherra taki við á mánudaginn, þegar 540 dagar verða liðnir frá kosningum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum 540 dögum og gengu samningaviðræðurnar ansi örðuglega fyrir sig. Bara á síðasta mánuðinum hafa tveir af átta flokkum sem mynda áttu ríkisstjórn horfið frá samningaborðinu og aðalsamningamaðurinn sagt af sér einu sinni. Ástæðan kann að hljóma framandi fyrir okkur eyverja sem erum skilgreiningin á þjóð.

Belgía skiptist í flæmskumælandi Flæmingja og frönskumælandi Vallóna (auk þess sem 70 þúsund manna minnihluti er þýskumælandi). Flæmingjarnir og Vallónarnir geta með engu móti komið sér saman um hvernig stjórna eigi landinu og er deilan svo langt gengin að nú eru háværar raddir uppi frá Flæmingjunum um að skipta landinu hreinlega í tvennt. Málahóparnir tveir eru svo ósammála um hvernig stjórna eigi landinu, að þeir koma sér ekki einu sinni saman um hámarkshraða og Belgar vita því aldrei á hvaða hraða er leyfilegt að keyra. Þetta óskipulag veldur kaótískri umferðarmenningu og má fólk teljast þakklátt ef það kemst lífs af á rúntinum ef það skildi slysast milli héraða. Fyrir tveimur árum, áður en búrkan var bönnuð með öllu, var ástandið þannig að héröðin ákváðu sjálf hvort heimilt væri að klæðast henni innan héraðanna. Þannig gat manneskja gengið um í búrku einum megin við götuna, en ef hún vogaði sér hinum megin yfir götuna yrði hún handtekin. Nei þetta er ekki grín.

Á sama tíma og Evrópa nötrar vegna efnahagskreppu sem herjar á álfuna hefur Belgía, sem skuldar orðið 97-8% af vergri landsframleiðslu, haft bráðabirgðaríkisstjórn sem þar með hefur ekki heimild til þess að taka neinar stórar ákvarðanir. Lánshæfismat landsins hefur nú verið lækkað úr AA+ í AA og raddir eru uppi um að Belgía sé næsta ríkið til þess að lenda ærlega í fjármálakreppunni þar sem margt bendi til þess að veita þurfi fjármálafyrirtækjum, sem þegar hefur verið bjargað einu sinni, fjárhagsaðstoð. Slíkt hefur þegar verið raunin með Dexia bankann sem var þjóðnýttur í október, en honum hafði verið veitt fjárhagsaðstoð árið 2008. Fjárlagahallinn er 11,3 milljarðar fyrir næsta ár og hefur Evrópusambandið ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins og hótað 708 milljarða evra sekt á landið vegna seinagangs við samþykkt fjárlaga. Í raun er ótrúlegt að Belgía hafi ekki haft nema bráðabirgðaríkisstjórn allan þennan tíma.

Belgía hefur sem sé ekki einungis búið við efnahagskreppu, heldur líka stjórnarkreppu, undanfarna 540 daga (og raunar löngu fyrir það), en í vikunni urðu sem fyrr segir stórtíðindi þegar formenn sex flokka undirrituðu ríkisstjórnarsáttmála.

Glasið er því mögulega orðið hálf fullt, eftir stendur „bara” efnahagskreppan.